Kanntu að lesa ársreikning?

Farskólinn Norðurlands vestra býður upp á námskeið hér á Skagaströnd. Það fjallar um lestur ársreikninga og er ætlað að auðvelda fólki að greina helstu aðalatriðin í ársreikningum svo þeir skiljist nær umsvifalaust. Námskeiðið er í tilefni Alþjóðlegu athafnavikunni. Það verður haldið í Farskólanum - miðstöð símenntunar, Faxatorgi 1, Sauðárkróki þann 16. nóvember kl. 18:00 - 21:00 og verður fjarkennt til Skagastrandar ef áhugi er fyrir þátttöku hér. Leiðbeinandi er Birgir Þ. Rafnsson. Á námskeiðinu fræðast þátttakendur um meginreglur þær er gilda um ársreikninga, efni þeirra og framsetningu. Áhersla er lögð á að öðlast skilning á því mikilvægasta varðandi greiningu og lestur þeirra og geti einnig unnið áætlanir um stærstu rekstrarliði.  Markmið námskeiðsins er að þátttakendur geti nýtt sér einfaldar en árangursríkar aðferðir til að lesa ársreikninga og gera áætlanir.    Námskeiðið er ætlað þeim sem koma að rekstri fyrirtækja, innkaupum, starfsmannamálum og stjórnun. Einnig fyrir þá sem hafa hug á því að vinna að eigin viðskiptahugmynd hjá Vinnumálastofnun og/eða SSNV atvinnuþróun.   Námskeiðið getur líka verið gagnlegt þeim er hyggjast sækja um verkefnastyrki innan lands og utan og þurfa að vinna áætlanir vegna þess.   Námskeiðið nýtist jafnframt einstaklingum við rekstur heimilis og stjórnun eigin fjármála. Léttar veitingar í boði. Nánari upplýsingar og skráning er á vefsíðu Farskólans – miðstöðvar símenntunar:  http://farskolinn.is/namskeid/ns/lestur-arsreikninga/dagsetning/18/10/2010/cal_details/event/tx_cal_phpicalendar/view-list|page_id-148/  eða í síma 455-6010. Námskeiðsgjald er kr. 1.500 og greiðist við komu.  Námskeiðið er styrkt af SSNV og Vinnumálastofnun.

SSNV býður upp á Dag atvinnulífsins á Laugabakka

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra bjóða með öllu áhugafólki um atvinnumál í Húnavatnssýslum og Skagafirði til Dags atvinnulífsins sem haldinn er nú annað árið í röð í Félagsheimilinu Ábyrgi á Laugarbakka, 10. nóvember 2010.  Degi atvinnulífsins er ætlað að styrkja tengslin milli starfandi fyrirtækja á svæðinu, hvetja einstaklinga í atvinnurekstri og örva nýsköpun.   Hvatningarverðlaun SSNV 2010 Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra veita árlega hvatningarverðlaun einu fyrirtæki sem þykir til fyrirmyndar á sviði rekstrar og/eða nýsköpunar.  Árið 2010 eru eftirtalin fyrirtæki tilnefnd: Eðalmálmsteypan á Hvammstanga Ferðaþjónustan á Brekkulæk Ferðaþjónustan á Dæli Kidka Wool Factory Shop Selasetur Íslands Dagskrá Kl.   9:30 – 10:00 Morgunhressing, skráning og móttaka gesta. Kl. 10:00 – 10:15 Setning – Bjarni Jónsson, stjórnarformaður SSNV Kl. 10:15 – 11:15 Fyrirtækjakynningar – Kynning á starfsemi þeirra fimm fyrirtækja sem tilnefnd eru til hvatningarverðlauna SSNV 2010. Kl. 11:15 – 11:30 Tónlistaratriði. Kl. 11:30 – 12:00 Norðurland vestra í tölum - Katrín María Andrésdóttir, verkefnisstjóri SSNV atvinnuþróun Kl. 12:00 - 13:15 Léttur hádegisverður í boði SSNV. Kl. 13:15 - 13:30 Leynigestur kemur fram. Kl. 13:30 – 14:15 Fjárfestingar og fyrirtæki á landsbyggðinni - Þóranna Jónsdóttir framkvæmdastjóri hjá Auður Capital. Kl. 14:15 – 15:00 Húmor í stjórnun - Edda Björgvinsdóttir leikkona. Kl. 15:00 – 15:15 Afhending hvatningarverðlauna SSNV 2010 – Jón Óskar Pétursson, framkvæmdastjóri SSNV. Veitingar og dagskrárlok.   Nánari upplýsingar og skráning þátttakenda Gudrun Kloes  atvinnuráðgjafi, netfang:gudrun@ssnv.is, vefsíða www.ssnv.is, sími 455 2515 eða 898 5154.  

Sjálfvirk veðurathugunarstöð á Skagaströnd

Nei, nú lýgurðu ... Þannig svara flestir þegar lýst er hinu einstaka og frábæra veðurlagi á Skagaströnd. Héðan í frá verður það óhrekjanleg staðreynd að veðrinu verður ekki lýst nema eins og það er í raun og veru. Þetta helgast af því að ný og fullkomin veðurstöð hefur verið sett upp við Skagastrandarhöfn. Um er að ræða sjálfvirka veðurathugunarstöð frá fyrirtækinu M&T ehf. Stöðin nemur hitastig, vindstyrk, vindátt, vindhviður og loftþrýsting. Hún mælir einnig sjávarhæð og birtir flóðatöflu. Á forsíðu vefsíðu sveitarfélagsins er blár reitur vinstra megin og með því að velja hann má komast að því hvernig veðrið á Skagaströnd er hverju sinni og jafnvel skoða það aftur í tímann. ... og  það er alveg dagsatt.

Árdís og Björn Ingi sigruðu

Sigurvegarar í síðustu spurningakeppni Drekktu betur voru Árdís Indriðadóttir og Björn Ingi Óskarsson. Voru þau vel að sigrinum komin, hlutu 18 stig. Næst verður Drekktu betur föstudaginn 19. nóvember. Þá verða spurlar og hæstráðendur sæmdarhjónin Ragna Magnúsdóttir og Jónas Þorvaldsson.

Metafli í október á Skagaströnd

Metafli kom í land á Skagaströnd í október eða 1.839 tonn sem slær jafnvel við metaflanum í september á þessu ári. Enn má ítreka það að elstu menn muna vart annað eins.  Þessir tveir síðustu mánuðir hins nýja fiskveiðiárs lofa góðu um framhaldið enda aflabrögð verið með afbrigðum góð á miðum í og nálægt Húnaflóa. Aflahæstu skipin í október eru þessi: Sighvatur GK57, 382 tonn Arnar, HU1, 376 tonn Ágúst GK95,  186 tonn Tómas Þorvaldsson GK10, 181 tonn Gullhólmi SH201, 119 tonn Kristrún, RE177, 99 tonn Rifsnes SH44, 82 tonn

Vildi ekki fara út úr vigtarhúsinu á Skagaströnd

Mikil slagsmál brutust út í gær í gamla húsnæði hafnarstjóra Skagstrandar er vísa þurfti gesti á dyr. Hafði hann lengi þráast við, vildi bara ekki fara. Að lokum þurfti hafnarstjórinn að óska eftir liðsinni tveggja fílefldra karlmanna sem voru við störf sín á bryggjunni til að koma honum út. Vopnaðir bareflum réðust þeir að gestinum enda var ljóst að engar dygðu fortölurnar eða rökleiðslur gegn þeim sem reyna að leggja undir sig húsnæði annarra án nokkurs leyfis og neita að fara út. Lengi dags börðu þeir svo á gestinum sem átti þó undarlega auðvelt með að víkja sér undan höggunum, voru þau þó úthugsuð en ekki að sama skapi markviss. Ekki er ljóst hvort gesturinn hafi verið undir áhrifum áfengis eða annarra fíkniefna en hitt er klárt að karlanir voru báðir bláedrú. Að lokum fara yfirleitt leikar þannig að hústakendur eiga ekki annars úrkosti en að hverfa á braut. Þannig gerist það yfirleitt í útlandinu þar sem þær eru mun algengari en hér á landi. Í Reykjavíkinni gerist það meira að segja að fólk leggi undir sig yfirgefin hús. Í slíkum tilfellum er kallað á lögguna. Á Skagaströnd leysa menn málin einfaldlega með bareflum. Sveittir hrósuðu karlarnir sigri og hafnarstjórinn brölti niður af skrifborðinu er músin trítlaði út. Þetta mun hafa verið aðkomumús.

Drekktu betur með Guðrúnu og Adda

Næsta spurningarkeppnin Drekktu betur verður föstudaginn 5. nóvember. Það verða þau Guðrún Elsa Helgadóttir og Arnar Viggósson sem semja spurningarnar og stjórna keppninni. Að sjálfsögðu munu þau gera kvöldið að góðri skemmtun fyrir alla aldurshópa og því óhætt að hvetja fólk til að fjölmenna. Að venju hefst keppnin klukkan hálf tíu og stendur væntanlega í um tvo tíma.

Leitað eftir myndum vegna Kántrýsafns

Kántrýbær á Skagaströnd hefur um nokkurn tíma undirbúið stofnun Kántrýsafns. Safnið á fyrst og byggja á lífi og starfi kúrekans landsþekkta, Hallbjörns Hjartarsonar, sem oft er nefndur kántrýkóngur Íslands. Nú hefur verið ákveðið að safnið verði opnað í byrjun sumars á næsta ári, stefnt er á afmælisdag Hallbjörns sem er 5. júní. Björn Björnsson, leikmyndahönnuður, hefur unnið að hönnun sýningarinnar, en hann hefur mikla reynslu af sviðsetningu sýninga af þessu tagi. Nefna má Jöklasýninguna á Hornafirði, Saltfisksetrið í Grindavík og fleiri. Einnig vinnur útvarpskonan geðþekka, Margrét Blöndal, að því að safna efni um Hallbjörn í Sjónvarpinu og hjá Stöð2. Hún mun taka sjónvarpsviðtal við kúrekan eftir áramótin og kaflar úr því verða nýttir til safnsins. Sem kunnugt er hefur Svenný, dóttir Hallbjörns, og maður hennar, Gunnar Halldórsson, rekið Kántrýbæ í mörg ár. Þau standa að undirbúningi safnsins og leita nú til almennings um myndir gamlar af Hallbirni, gamla Kantrýbæ, brunanum, nýja Kántrýbæ, byggingu hans, Kántrýhátíðum eða í raun öllu sem tengist kántrý á Skagaströnd. Hægt er að senda myndir í pósti á Kántrýbæ á Skagaströnd, tölvupósti á kantry@kantry.is eða hringja í síma 869 1709. Meðfylgjandi mynd er tekin á einni af fyrstu Kántrýhátíðunum á Skagaströnd.

Guðmundur og Ólafur sigruðu í spurningakeppninni

Guðmundur Björnsson og Ólafur Bernódusson voru sigurliðið í spurningakeppninni Drekktu betur sem fram fór á föstudagskvöldið síðasta. Þeir voru vel að sigrinum komnir, ferskir og hressir eftir rjúpnaveiði dagsins og án efa búnir að fá nóg í jólamatinn. Á myndinni eru þeir félagar ásamt Signýju Ósk Richter sem var spyrill og hæstráðandi ásamt sínum ektamanni Ingibergi Guðmundssyni. Hér eru spurningarar og svörin: Spurningakeppnin Drekktu betur á Skagaströnd  Föstudaginn 29. október 2010 Spyrill: Signý Ó. Richter Spurningar: Signý Ó. Richter og Ingibergur Guðmundsson 1. Óli og Jói eru fæddir sama dag, sama ár og af sömu foreldrum en eru ekki tvíburar, hvernig stendur á því?  2. Hver af þessum setningum er málfræðilega rétt miðað við kennslubækur í íslensku? a. Ég hlakka til jólanna b. Mig hlakkar til jólanna c. Mér hlakkar til jólanna.  d. Mín hlakkar til jólanna.  3. Vatnajökull er stærsti jökullinn á Íslandi og reyndar í Evrópu. En hver er næststærsti jökull á Íslandi? a. Eiríksjökull b. Hofsjökull c. Langjökull d. Mýrdalsjökull 4. Þéttbýli – hvað heitir það? Sjá mynd. 5. Hvað heitir þessi jurt? Sjá mynd) a. Geldingahnappur b. Bláfjóla c. Brönugras d. Brúðarslör e. Dúlludúskur 6. Spurt er um höfund þessa ljóðs: Mér finnst það vera fólskugys að fara niður til helvítis og eyða aldri sínum innan um brennu illan geim ólíkan drottins sólarheim, svo hrollir huga mínum. Skötubarðvængjuð fjandafjöld flaksast þar gegnum eilíft kvöld, glórir í glóðir rauðar, þar er ei nema eldur og ís, allt í helvíti brennur og frýs, Satan og sálir dauðar. a. Jónas Hallgrímsson b. Megas c. Hannes Hafstein d. Bubbi Mortens e. Rúnar Kristjánsson 7. Á myndinni er hesturinn Kvistur frá Skagaströnd en hvar verður Landsmót hestamanna á næsta ári? (Sjá mynd) 8. Hvað heitir þessi þingkona? (Sjá mynd) 9. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur verið töluvert í fréttum undanfarið m.a. vegna tillagna um að stytta skólaárið. Hvað heitir hann ? (Sjá mynd) 10. Hvað heitir hljómsveitin? 11. Vísnagáta Kúra þar í kríli smá Kynstrin öll af líni Ávexti má ávallt fá Og einnig flösku af víni  Hvað heitir þessi hlutur sem ort er um ? 12. Hvað er upphaf og endir alls?  13. Þessi ungi drengur er í dag einn þekktasti íþróttamaður Íslendinga í handbolta. Hvað heitir hann ? a. Logi Gunnarsson b. Ólafur Guðmundsson c. Guðjón Valur Sigurðsson d. Aron Pálmarsson 14. Í fyrradag komu fram upplýsingar í fjölmiðlum um verðbólguna síðustu 12 mánuði. Hvað var hún mörg prósent ? 15. Hvaða leikari lék Ólaf Ragnar í kvikmyndinni Bjarnfreðarson ?   a. Pétur  Jóhann Sigfússon b. Jörundur Ragnarsson  c. Björn Thors d. Ólafur Darri Ólafsson 16. Hvað hefur tekist að rækta margar eplategundir á Íslandi skv. frétt sjónvarpsins sl. miðvikudag? a. 15 b. 40 c. 65 d. 100? 17. Árið 1056 varð Ísleifur Gissurarson fyrsti íslenski biskupinn og settist að í Skálholti. Norðlendingar vildu ekki sætta sig við það, þótti langt að fara til biskups  og fyrsti biskupinn á Hólum var vígður árið 1106. Hvað hét hann ? a. Jón Arason b. Jón Vídalín c. Jón Ögmundsson d. Jón Hreggviðsson 18. Hvað heitir þessi hljómsveit? 19. Haraldur víðförli var ferðalangur mikill og gat sagt stórbrotnar sögur af ferðalögum sínum og þeim ævintýralegu stöðum sem hann hafði heimsótt. Haraldur þessi hafði sérlega gaman að því að leggja fyrir fólk hinar ýmsu gátur og þrautir og hljómaði ein uppáhalds gátan hans svona: Einu sinni sem oftar var ég á ferðalagi þegar ég sá skyndilega að ég stóð um 100 metrum sunnan við gríðarstóran björn. Ég ákvað að ganga 100 metra í austur, sneri mér svo beint í norður og skaut. Björninn féll samstundis dauður niður og ég fór strax og gerði að þessum happafeng. Ég spyr ykkur hins vegar:  Hvernig var björninn sem ég skaut á litinn? 20. Frá hvaða íþróttafélagi er kvennaliðið sem vann Evrópumeistaratitil í  hópfimleikum um síðustu helgi ? 21. Á flestum skipum finna má Fyllir sali ljóma Oft í kollum kviknar á Í kökum prýddum rjóma Hvað heitir þessi hlutur sem ort er um ? 22. Hvað heitir þessi þingmaður? 23. Hver var leikstjóri kvikmyndarinnar Mýrin ? a. Óskar Jónasson b. Baltasar Kormákur c. Ragnar Bragason d. Guðný Halldórsdóttir 24. 12 verkamenn  geta borið 12 poka af sementi frá sementsstæðunni að steypuhrærivélinn á 10 mínútum. Hve lengi væru 6 verkamenn að bera þessa 12 poka sömu leið?  25. Hvernig er hægt að aðskilja salt og pipar á einni til tveimur mínútum eftir að það er búið að blanda þeim saman ?  26. Þessi kona er fædd 4. október 1942. Faðir hennar var alþingismaður á sínum tíma. Konan er tvígift og á tvo syni. Hún lauk verslunarprófi árið 1960. Konan hefur starfað sem flugfreyja, á skrifstofu hjá Kassagerð Reykjavíkur, sem alþingismaður allt frá árinu 1978 og er núna ráðherra.  Hver er þessi kona? 27. Nú er mikið rætt um trúboð í grunnskólum Reykjavíkur. Guðbrandur Þorláksson Hólabiskup lét prenta fyrstu biblíuna sem var á íslensku. Hvaða ár var Guðbrandsbiblían prentuð? a. 1498 b. 1584 c. 1621 d. 1702 28. Hvaða jökull hefur þá sérstöðu á Íslandi að hann hefur ekki minnkað að flatarmáli á síðustu árum?  a. Drangajökull b. Eiríksjökull c. Snæfellsjökull d. Mýrdalsjökull 29. Hvað heita hjónin, sem reka Kántrýbæ, fullu nafni ? 30. Hvað heitir þetta vatn? Svör 1. Þeir eru annað hvort þríburar eða fjórburar eða ennþá fleiri fleirburar. 2. Ég hlakka til jólanna 3. Langjökull 4. Hofsós 5. Geldingahnappur 6. Jónas Hallgrímsson 7. Á Vindheimamelum í Skagafirði 8. Siv Friðleifsdóttir 9. Halldór Halldórsson 10. Buff 11. Karfa 12. a  (og)  s 13. Aron Pálmarssona 14. 3,3 % 15. Pétur Jóhann Sigfússon 16. 100 17. Jón Ögmundsson 18. Baggalútur 19. Hvítur. Þessa ályktun er hægt draga þegar efni textans er skoðað vel. Það er aðeins einn staður á jörðinni þar sem Haraldur hefur getað staðið sunnan við björn og svo gengið 100 metra í austur og ennþá staðið fyrir sunnan björninn, en sá staður er Norðurpóllinn. Ef maður rekst á björn á Norðurpólnum er næsta víst að það mun vera ísbjörn og feldur þeirra er hvítur á lit. 20. Fimleikafélaginu Gerplu 21. Pera 22. Guðbjartur Hannesson 23. Baltasar Kormákur 24. 30 mínútur. 10 mínútur með 6 poka, 10 mínútur til baka, 10 mínútur með seinni 6 pokana 25. Helltu blöndunni út í glas af vatni. Saltið leysist upp á augabragði en piparinn flýtur ofaná. Stingdu fingrinum varlega ofan í vatnið og taktu hann varlega upp aftur, þá loðir piparinn við fingurinn.   26. Jóhanna Sigurðardóttir 27. 1584 28. Drangajökull 29. Svenny Helena Hallbjörnsdóttir og Gunnar Sveinn Halldórsson 30. Víti

Sjö styrkir Menningarráðs til Skagastrandar

Mikil menningarstarfsemi hefur ávallt einkennt Skagaströnd og miðað við það sem unnið er að í bænum verður svo áfram um nánustu framtíð. Í gær afhenti Menningarráð Norðurlands vestra 51 aðila í landshlutanum verkefnastyrki að fjáræð 17,5 milljónir króna. Sjö aðilar á Skagaströnd fengu styrki og þeir eru: Menningarfélagið Spákonuarfur hlaut 1,2 milljónir króna. Félagið hefur á undanförnum árum unnið að því að varðveita minningu Þórdísar spákonu og verða miðstöð spádóma á landinu. Undanfarnar kántrýhátíðir hafa þær boðið upp á spádóma og hefur biðröðin náð langt út á götu. Nú hefur félaginu áskotnast húsnæði undir framtíðarstarfsemi sína og verið er að breyta því að innanverðu. Jafnframt hefur verið gerður samningur við hönnuði Sögusafnsins í Perlunni, Ágústu og Ernst Backman um að hanna Spákonuhofið og sjá um uppsetningu leikmyndar og sýningar í Þórdísarstofu. Stefnt er að opnun Spádómshofsins í júní á næsta ári. Kántrýbær hlaut 1,0 milljónir króna. Kántrýbær þykir er einstakur. Þar er miðstöð kántrýmenningar á Íslandi og þar rekur kántrýkóngurinn kántrýútvarpið sitt. Nú verður í vetur sett upp kántrýsetur með uppsetningu sýningar um sögu og tónlist kántrýkóngsins, um sveitatónlist almennt, íslenska og ameríska. Gerður hefur verið samningur við Björn Björnsson leikmyndahönnuð um hönnun sýningarinnar og umsjón með uppsetningu og verður Kántrýsetrið opnað í júní á næsta ári. Fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra hlaut 500 þúsund krónur. Aðeins er tæpt ár síðan að Fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra tók til starfa á Skagaströnd en meginhlutverk þess eru rannsóknir og fræðsla á svið sagnfræði.  Einn af meginþáttum fræðasetursins er geymd munnlegrar sögu. Víða á söfnum, t.d. í Héraðsskjalasafninu á Hvammstanga, eru til segulbandsspólur með viðtölum og frásögnum heimamanna sem liggja þar óhreyfðar árum og áratugum saman en þar er geysimikill fróðleikur um fyrri tíma varðveittur. Fræðasetrið fær styrk til að hefja það verkefni að koma þessum upptökum á varanlegt form, skrá upplýsingarnar sem þar eru og gera þær aðgengilegar almenningi. Nes listamiðstöðin hlaut 400 þúsund krónur.  Hún tók til starfa í júní 2008 en þetta er alþjóðleg listamiðstöð þar sem listamenn hvaðanæva úr heiminum vinna að list sinni í einn mánuð í senn eða fleiri. Á þessum rúmum tveimur árum hafa á þriðja hundrað listamenn starfað í lengri eða skemmri tíma. Frá upphafi hefur listamiðstöðin boðið upp á litla dvalar- og verkefnastyrki sem hafa reynst töluvert aðdráttarafl. Í staðinn fyrir styrkinn þarf listamaðurinn að skila einhverju af sér til samfélagsins, s.s. í formi listaverks, sýningar, tónleika, fyrirlestra, heimsókna í skólann o.s.frv. Sveitarfélagið Skagaströnd hlaut 200 þúsund krónur.  Það fær styrk til að standa fyrir yfirlitssýningu á verkum listmálarans Sveinbjörns H. Blöndals í júní á næsta ári. Sveinbjörn var ættaður frá Siglufirði en bjó og starfaði lengst af á Skagaströnd. Hann lést í apríl sl. Landslagsmyndir voru eftirlætisverk Sveinbjörns en einnig málaði hann myndir af fuglum, fólki, bátum o.fl. Þá eru til eftir hann fjöldi skopmynda.  Línudansaklúbbur Skagastrandar hlaut 200 þúsund króna styrk.  Hann er fimmtán ára um þessar mundir en félagið hefur staðið fyrir dansæfingum og sýningum öll þessi ár auk þess að taka öðru hvoru þátt bikar- og Íslandsmeistaramótum í línudansi. Nú ætlar félagið að standa fyrir línudansahátíð í júní næsta sumar í höfuðstað kántrýmenningarinnar á Íslandi og fær hér til þess styrk. Fjórir aðilar þar á meðal einn frá Skagaströnd fá sameiginlega 100 þúsund króna styrk. Kór Blönduósskirkju, kór Hólaneskirkju, Samkórinn Björk og Tónlistarskóli A-Hún. ætla að standa fyrir tónleikum á aðventunni á Skagaströnd og Blönduósi.  Á dagskránni verða aðventu- og jólasálmum, jólapopplögum og klassískum ballöðum. Gera má ráð fyrir að allt að 70-80 manns taki þátt í flutningnum.