05.01.2011
Menningarkvöld var haldið á 30. desember sl. í Kántrýbæ á Skagaströnd. Húsið fylltist og allir skemmtu sér afar vel. Fyrir utan að bjóða upp á góða skemmtun var markmiðið að safna fé fyrir fjölskyldu sem lent hafði með börn sín í alvarlegum slysum.
Ekki er enn ljóst hversu mikið safnaðist en það verður gefið upp um leið og öll framlög hafa skilað sér.
Meðfylgjandi eru myndir sem Hugrún Sif Hallgrímsdóttir tók. Skemmtiatriðin voru mörg og óvenjuleg. Spákonurnar á Skagaströnd sögðu í blöndu af gamni og alvöru frá komandi tímum. Ari Eldjárn, uppistandari, mætti á staðinn og skemmti fólki á sinn einstaka hátt.
Fjöldi góðra tónlistarmanna eru á Skagaströnd og stigu margir þeirra á svið og léku við hvern sinn fingur og ekki síður á raddböndin.
05.01.2011
Viðgerðum á vatnsveitunni hefur verið frestað vegna veðurs. Ekki hefur verið ákveðið hvenær hafist verður handa á ný, en greint verður frá því hér á vefnum.
04.01.2011
Veðrið í dag á Skagaströnd í dag er mjög svipað því sem það var í desember.
Nú er hæg norðaustanátt, 7 m/s, og frost er 3,5 gráður, sem er nokkuð lægra en meðalhitinn í síðasta mánuði, en hann var 0,5 gráður.
Ástæða er til að vekja athygli á sjálfvirkri veðurathugunarstöð sem staðsett er við höfnina. Hér vinstra megin er linkur á hana og þar er m.a. hægt að sjá hitastig, vindhraða, vindátt, flóðatöflu og flóðahæð. til viðbótar er hægt að skoða veðrið langt aftur í tímann en upplýsingar skrást sjálfvirkt á tíu mínútna fresti.
03.01.2011
Aldrei hefur komið meiri afli að landi á Skagaströnd en síðustu fjóra mánuði liðins árs en þeir eru raunar fyrstu mánuðir nýs fiskveiðiárs, sem nær frá byrjun september til ágústloka.
Síðustu árin hefur mikill fiskur borist á landi eins og sjá má á eftirfarandi tölum:
Árið 2007-08 6,0 þúsund tonn.
Árið 2008-09 8,3 þúsund tonn.
Árið 2009-10 9,1 þúsund tonn.
Aðeins er þriðjungur fiskveiðiársins 2010-11 liðinn og nú þegar er aflinn 6,2 þúsund tonn.
Af þessu má sjá að nú þegar er aflinn meiri en allt fiskveiðiári 2007-08. Og sé miðað við sömu mánuði undanfarin ár er ljóst að aflinn er miklu meiri en áður hefur þekkst.
03.01.2011
Veðurstofa Skagastrandar hefur gefið út yfirlit yfir veðrið á Skagaströnd í nýliðnum desember. Í stuttu máli hefur veðrið verið til lítilla vandræða. Meðalhitinn mánaðarinn skreið rétt yfir frostmark, var 0,5 gráður.
Hlýjasti dagur mánaðarins var sá 26. er hitinn fór upp í 8 gráður að meðaltali. Tæpri viku áður hafði þó mælst kaldasti dagurinn. Frá 16. og fram til 25. desember ríkti kuldakafli sem náði lágmarkinu þann 21. en um klukkan 15:40 þann dag var kaldast, -9,8 gráður. Eftir það losaði frostið og á jóladag var hitinn kominn upp í frostmark og hlýtt var fram á gamlársdag en þá var meðalhitinn -0,5 gráður.
Vindgangur á Skagaströnd, ef svo má að orði komast, var með ágætum í desember. Að meðaltali var blásturinn um 7,2 m/s sem þykir nú varla mikið. Hvassast var þann 18. desember en þann dag mældist 14,8 m/s að meðaltali.
Lygnast var í upphafi mánaðarins, þá mældist 1,7 m/s í tvo daga, 2. og 3. desember.
Enn er ekki úrkoma mæld á Skagaströnd þó er ljóst að stundum rignir og stundum snjóar. Það gerist hins vegar aldrei samtímis.
Veðurstofa Skagastrandar hefur gefið út veðurspá fyrir janúar. Í stuttu máli mun ýmist snjóa eða rigna í mánuðinum. Oft verður úrkomulaust. Stundum frystir en þó verður hitastigið oftar en ekki yfir frostmarki. Nánari upplýsingar um veður veitir útibúið, Veðurstofa Íslands.
29.12.2010
Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Skagastrandar 2011
Á fundi sveitarstjórnar 29. desember 2010 var fjárhagsáætlun fyrir árið 2011 samþykkt.
Í áætluninni er gert ráð fyrir að skatttekjur verði 283.602 þús. rekstrartekjur 136.986 þús. og samtals tekjur samstæðu 420.588 þús. Rekstrargjöld eru áætluð 392.910 þús. og þar af er kostnaður vegna launa áætlaður 213.132 þús.
Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliðið er áætluð jákvæð um 5.700 þús. en heildarniðurstaða að teknu tilliti til fjármagnsliða verði jákvæð um 9.236 þús.
Í sjóðstreymi áætlunar er gert ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði jákvætt um 42.176 þús. Samanlagðar fjárfestingahreyfingar eru áætlaðar 42.000 þús. Að teknu tilliti til fjárfestinga og fjármögnunarhreyfinga er áætlað að handbært fé lækki um 11.224 þús.
Fjárhagsáætlun 2011
28.12.2010
Menningarkvöld á jóladögum
30. desember 2010, kl. 20.30 í Kántrýbæ
Á menningarkvöldinu munu
spákonurnar Dadda og Sigrún rýna í komandi ár og
Ari Eldjárn
verður með uppistand á sinn einstaka hátt.
Tónlist verður framin af: Jonna, Hugrúnu, Siggu, Halldóri, Guðlaugi Ómari, Ómari Ísak, Kristjáni Ými,
Söru Rut, Fúsa, Almari, Magga Lín, Guðrúnu Önnu og Birtu.
Kynnir kvöldsins verður Úrsúla Árnadóttir sóknarprestur
Miðaverð á menningarkvöldið er 1.000 kr. og rennur allur ágóði til styrktar fjölskyldu sem á um sárt að binda eftir slys. Kostnaður við menningarkvöldið er borinn uppi með styrkjum frá fyrirtækjum og sveitarfélögum.
Tómstunda- og menningarmálanefnd
27.12.2010
FUNDARBOÐ
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar
miðvikudaginn 29. desember 2010 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800.
Dagskrá:
1. Ákvörðun um álagningarstuðla útsvars og fasteignagjalda 2011
2. Fjárhagsáætlun 2011
3. Yfirfærsla málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.
a) Bréf SSNV, dags. 17. desember 2010.
b) Þjónustusamningur um málflokkinn
4. Bréf skipulagsstofnunar dags 13. desember 2010
5. Fundargerðir:
a) Tómstunda- og menningarmálanefndar, 13.12.2010
b) Félags- og skólaþjónustu A-Hún, 20.12.2010
c) Stjórnar SSNV, 15.12.2010
d) Stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 10.12.2010
6. Önnur mál
Sveitarstjóri
23.12.2010
Jón Ólafur og Hugrún Sif munu spila nokkur jólalög kl.17.00 í Djásnum og
dúlleríi í dag Þorláksmessu.
Komið og njótið þess að heyra þau flytja lifandi tónlist í skemmtilegu umhverfi.
Fallegar málaðar myndir og ljósmyndir úr nánasta umhverfi Skagastrandar eru meðal þess sem er til sölu í Djásnum og dúlleríi.
Fallegt handverk, hekklað, prjónað, útskorið, er meðal ákaflega fjölbreytts úrvals sem er til sölu.
Kaffi og piparkökur í boði hússins.
22.12.2010
Staður: Félagsheimilið á Blönduósi 13. og 14. janúar
Tími: 9:00 – 16:00 báða daga.
· Kynntar verða breytingar og aðferðir í markaðssetningu á netinu með tilkomu m.a. Facebook og Twitter ásamt notkun leitarvéla.
· Námskeiðið er fjárfesting sem skilar sér strax í bættum árangri.
· Vegleg vinnubók fylgir.
· Boðið verður upp á léttan hádegisverð og kaffiveitingar.
Fyrirlesari er Hjörtur Smárason, ráðgjafi (sjá www.marketingsafari.org) en hann mun m.a. segja frá því hvernig honum tókst að fá yfir 800.000 manns frá 213 löndum til þátttöku á vefnum án þess að kosta til einni einustu krónu.
Einstakt tækifæri fyrir þá sem eru að selja vöru eða þjónustu og/eða vilja kynna sér undaraheima netsins.
Skráning á nordurland.vestra@vmst.is. Vinsamlega gefið upp nafn, kennitölu, síma og netfang.
Námskeiðið er í boði Vinnumálastofnunar og er þátttakendum að kostnaðarlausu.
Allir velkomnir.