06.05.2008
Breyttur fundartími íbúafundar
Af óviðráðanlegum ástæðum hefur fundartíma íbúafundar sem auglýstur var sl mánudag um aðalskipulag verið breytt.
ÍBÚAFUNDUR
um aðalskipulag fyrir sveitarfélagið Skagaströnd
verður haldinn í félagsheimilinu Fellsborg
miðvikudaginn 7. maí n.k. kl 17:00
Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri
02.05.2008
Björgunarsveitin Strönd leitar eftir fólki til að taka þátt í undirbúningi og vinnu á sjómannadagsskemmtuninni sem fram fer 31. maí 2008. Áhugasamir aðilar eru hvattir til að gefa sig fram hjá fulltrúum björgunarsveitarinnar. Einnig er hægt að hafa samband við s. 894 4006. Stöndum öll saman um að gera góð hátíðarhöld á sjómannadaginn enn betri.
Reynir og Bjarni.
02.05.2008
Laugardagskvöldið 3. maí verður dúndrandi stuð í Kántrýbæ því þá mun hljómsveitin UMSVIF halda uppi fjörinu og leika fyrir dansi frá kl 23.
Meiri umsvif, meira fjör í Kántrýbæ.
www.umsvif.com
02.05.2008
ÍBÚAFUNDUR
um aðalskipulag fyrir sveitarfélagið Skagaströnd
verður haldinn í félagsheimilinu Fellsborg
miðvikudagskvöldið 7. maí n.k. kl 19:30
Hafin er vinna við gerð aðalskipulags fyrir sveitarfélagið Skagaströnd. Í þeim tilgangi að gefa íbúum og hagsmunaaðilum kost á að koma á framfæri ábendingum í upphafi vinnunar er boðað til almenns íbúafundar.
Samið hefur verið við Landmótun sf. um ráðgjöf um aðalskipulagsgerðina og mun Yngvi Þór Loftson ráðgjafi mæta á fundinn, kynna verkefnið og m.a. greina frá aðgangi almennings að aðalskipulagsgerðinni.
Aðalskipulag nær til alls land innan staðarmarka sveitarfélagsins og er stefna sveitarstjórnar um:
· Atvinnu- og íbúamál
· Landnotkun og þróun byggðar
· Samgöngur og veitur
· Umhverfismál
· Þéttleika byggðar og byggðamynstur
· Takmarkanir á landnotkun
Stefnumörkun aðalskipulagsins skal ná til a.m.k. 12 ára tímabils.
Íbúar og aðrir hagsmunaaðilar eru hvattir til að mæta og hafa þannig áhrif á það samfélag sem þeir búa í.
Magnús B. Jónsson
sveitarstjóri
02.05.2008
Námskeið um þátt upplýsingavers í skólastarfi var haldið á vegum Fræðsluskrifstofunnar þriðjudaginn 29. apríl s.l. í Fellsborg á Skagaströnd. Á námskeiðinu kynntu kennararnir Fríða S. Haraldsdóttir og Margrét Sólmundsdóttir starf sitt í Laugalækjarskóla en þær hafa búið til afar spennandi verkefni með öðrum kennurum skólans. Verkefnin eru byggð upp á fjölbreyttri notkun upplýsingatækni og hafa skilað góðum árangri og nemendur jafnframt verið mjög ánægðir. Eru þessi verkefni meðal annars notuð í 10. bekk eftir að samræmdum prófum lýkur á vorin. Sýndu þær þátttakendum fjölmörg sýnishorn af vinnu nemenda þeirra og vöktu þau verðskuldaða athygli.
Guðjón Ólafsson, fræðslustjóri
30.04.2008
Verið er að undirbúa útgáfu á bæklingi um gönguleiðir á Spákonufellshöfða sem kemur út fyrir lok maí.
Leitað er eftir góðum litmyndum sem teknar eru af Höfðanum eða á honum. Ekki er endilega sóst eftir útsýnismyndum yfir bæinn heldur allt eins af einstökum stöðum, fólki á göngu, í sólbaði eða að leik eða einhverjum sérstökum atburðum sem eru áhugaverðir. Myndirnar mega vera á slides, pappír eða teknar á digital myndavél.
Óskað er eftir viðbrögðum fyrir 5. maí nk. en eftir þann tíma fer myndefni í úrvinnslu.
Vinsamlegast hafið samband við Sigurð
markaðsráðgjafa Skagastrandar í síma 864 9010. Hann hefur skrifstofur í Bjarmanesi og þar má hitta hann á skrifstofutíma.
29.04.2008
Starfsmenn Sjávarlíftæknisetursins BioPol á Skagaströnd heímsóttu leikskólann Barnaból í morgun. Þau höfðu meðferðis kálf sem hafði komið úr hnísu sem veiddist í grásleppunet við rannsóknarveiðar BioPol við Málmeyjarfjörð. Hnísan var 161 cm á lengd og 79 kg og reyndist semsagt vera kálfafull. Kálfurinn var karlkyns, 79 cm langur og 6,5 kg.
Krakkarnir voru mjög áhugasamir og spurðu margra spurninga. Þau ákváðu að kálfurinn ætti að heita Sævar þar sem hann hefði átt heima í sjónum.
Ljósm. Ólafía Lárusdóttir
25.04.2008
Grunnbætur húsaleigubóta fyrir hverja íbúð hækka úr 8.000 kr. í 13.500 kr. á mánuði.
Bætur vegna fyrsta barns hækka úr 7.000 kr. í 14.000 kr.á mánuði.
Bætur vegna annars barns hækka úr 6.000 kr. í 8.500 kr. á mánuði.
Hámarkshúsaleigubætur hækka úr 31.000 kr. í 46.000 kr. á mánuði.
Aðrar grunnfjárhæðir eru óbreyttar. Hækkunin tekur til greiðslu húsaleigubóta vegna aprílmánaðar sem koma til greiðslu um næstu mánaðarmót.
Þeir sem telja sig eiga rétt á húsaleigubótum eftir þessar breytingar eru beðnir um að skila inn umsókn sem fyrst.
Reiknivél Félagsmálaráðuneytis fyrir húsaleigubætur má finna hér http://www.felagsmalaraduneyti.is/malaflokkar/husnaedismal/husaleigubaetur/reikniforrit/nr/964
22.04.2008
Húnakórinn heldur tónleika í Hólaneskirkju Skagaströnd laugardaginn 26.april kl.17.Fjölbreytt dagskrá m.a. syrpa við ljóð eftir Davíð Stefánsson. stjórnandi Jón Bjarnason undirleikari Bjartur Logi Guðnason aðgangseyrir kr.1500.
21.04.2008
Þriðjudaginn 22. apríl 2008 kl. 17:00 mun Markaðsskrifstofa Norðurlands efna til fundar á Skagaströnd í samráði við atvinnuráðgjafa undir heitinu:
http://www.skagastrond.is/frettir/users3/stjori/Fundarboð.pdf
Tækifæri í ferðaþjónustu
Fundurinn verður haldinn í litla salnum í félagsheimilinu Fellsborg og hefst kl. 17.00. Gert er ráð fyrir að honum verði lokið eigi síðar en 18.30.
Kjartan Lárusson framkvæmdastjóri Markaðsskrifstofu Norðurlands mun halda stutt erindi og ræða við fundargesti um möguleika í ferðaþjónustu á Skagaströnd og nágrenni.
Einnig mun Katrín Harðardóttir, verkefnisstjóri Markaðsskrifstofunnar mæta á fundinn.
Tilgangurinn með fundinum er að hvetja til uppbyggingar á ferðaþjónustu á Skagaströnd og nágrenni.
Víða leynast miklir möguleikar í margvíslegri afþreyingu sem styrkt getur búsetuþróun á svæðinu. Nefna má ýmiss konar rekstur:
Fjórhjólaferðir
Fuglaskoðun
Göngur og réttir
Gönguferðir
Gönguskíðaferðir
Heilsurækt
Hestaferðir
Hjólaferðir
Hvalaskoðun
Jeppaferðir
Kajaksiglingar
Miðnæturgolf
Minjagripasala
Snjósleðaferðir
Skoðunarferðir í bát
Skoðunarferðir í rútu
Silungsveiði
Sjóstangveiði
Sveitadvöl
Svæðisleiðsögn
Söfn og setur
Veitingar
Sagnaarfur
… og fleira ofl.
Margt af þessu þótti á sínum tíma alls ekki gáfulegt en þykir nú sjálfsagður og nauðsynlegur þáttur í þjónustu við innlenda og erlenda ferðamenn.
Allir eru velkomnir og er áhugasömum bent á að vekja athygli annarra á fundinum.
Sigurður Sigurðarson
markaðsráðgjafi
Sveitarfélagið Skagaströnd
Handsími 864 90 10
Netfang: radgjafi@skagastrond.is
Vefur: www.skagastrond.is