Saumastofan Íris ehf hefur opnað heimasíðu

Saumastofan Íris ehf er komin með heimasíðu en hún er á slóðinni http://www.irisehf.is þar má sjá nokkra Skagstrendinga í fyrirsætustörfum.

Frá Landsbanka Íslands Skagaströnd.

Miðvikudaginn 5. apríl s.l. kom Kór eldri borgara í Húnaþingi í heimsókn til Skagastrandar og söng nokkur lög í Landsbankanum. Hríðargarg, hálka og það sem slíku veðri fylgir aftraði ekki för þessara “söngfugla” og víst er að söngurinn féll í góðan jarðveg hjá þeim sem á hlýddu. Lokalag kórsins var “Borgin mín” lag eftir Hallbjörn Hjartarson, texti eftir Kristján Hjartarson. Kaffi og kleinur runnu ljúflega niður, eins og vera ber á góðum samkomum og fólk kvaddi hvert annað með hlýju og þakklæti fyrir góða stund í minningakörfuna. Stjórnandi kórsins er Kristófer Kristjánsson og undirleikari Óli. J. Björnsson. Hafi kórinn þökk fyrir komuna, vonandi stilla Landsbankinn á Skagaströnd og kórinn saman strengi fljótlega aftur.

Laus störf flokksstjóra í Vinnuskóla

Höfðahreppur auglýsir eftir flokkstjórum til starfa í Vinnuskólanum sumarið 2006. Æskilegt er að umsækjendur séu 20 ára eða eldri. Umsóknareyðublöð liggja frammi á skrifstofu Höfðahrepps og er umsóknarfrestur til 18. apríl. Nánari upplýsingar veitir Ágúst Þór í síma 899 0895 eða á netfangi agust@skagastrond.is Sveitarstjóri Höfðahrepps

Breytingar hafa orðið á bílaflota björgunarsveitarinnar Strandar.

Björgunarsveitin hefur verið með þrjá bíla og voru tveir af þeim komnir nokkuð til ára sinna og hafa þurft töluvert viðhald. Eftir umræður á aðalfundi sveitarinnar var ákveðið að selja Unimog árg. 1981 og Chevrolet suburban árg. 1988 og kaupa Ford Econoline árg. 2000 sem björgunarsveitin í Varmahlíð hafði boðið sveitinni til kaups. Meðal útbúnaðar bifreiðarinnar er low gear, 6 tonna spil, læst drif, sjúkrabörur og fleira, auk þess er bíllinn breyttur fyrir 44” dekk. Sæti í bílnum eru fyrir 12 manns. Björgunarsveitin á fyrir Toyota Landcruser 90 árg. 2004 breyttan fyrir 38” Með þessum kaupum vonast menn til að minni tími fari í viðhald. Vinnufundir eru á hverju þriðjudagskvöldi og er vel mætt, þá er einnig tekið á móti einnota drykkjarumbúðum. Alltaf heitt á könnunni og að sjálfsögðu eru allir velkomnir.

BM ráðgjöf

>>>>>BM ráðgjöf Vantar þig vinnu? Viltu hafa góð laun? Viltu eiga möguleika á sveigjanlegum vinnutíma? Viltu vinna í þægilegu umhverfi? Ef þú svarar einhverju hér að ofan játandi, átt þú sennilega samleið með okkur. Kynningarfundur um starfsemi BM ráðgjafar ehf verður haldinn fimmtudaginn 6 apríl á Hótel Dagsbrún kl 20 stundvíslega. BM ráðgjöf ehf

Aðalfundur - Aðalfundur

Aðalfundur U.M.F.Fram verður haldinn í Höfðaskóla fimmtudaginn 6. apríl kl. 20:30. Hefðbundin aðalfundarstörf Mikilvægt að foreldrar mæti til að ræða málin Vonumst til að sjá sem flesta Stjórn U.M.F. Fram

Loksins snjór….

Það hefur ekki borið mikið á snjó frá áramótum. Síðustu daga hefur hann komið og jafnað landslagið eða myndað nýja hóla og hæðir. En snjórinn getur verið dulmagnaður og við ákveðin birtuskilyrði verður til skemmtilegt samspil sem gaman er að ljósmynda. Unnið er að því hörðum höndum að fjarlægja snjóinn af götum og greiða fyrir umferð eins og hægt er. Gera má ráð fyrir því að snjórinn stoppi ekki lengi við, þar sem það styttist óðfluga í sumarið en sumardaguinn fyrsti er eftir 3 vikur.

Kynning á vaxtarsamningi og vinnu verkefnisstjórnar

Verkefnisstjórn Vaxtarsamnings Norðurlands vestra stendur fyrir opnum kynningarfundum í félagsheimilinu á Blönduósi fimmtudaginn 30. mars frá kl 12:00 - 13:00 og Hótel Dagsbrún á Skagaströnd föstudaginn 31. mars frá kl 12:00 - 13:00. Boðið verður upp á súpu. Allir velkomnir. Dagskrá: 12:00 Fundur settur 12:05 Klasar sem undirstöður vaxtarsamning - Elvar K. Valson, Impra 12:15 Störf verkefnisstjórnar - Jóna Fanney Friðriksdóttir/Steindór Haraldsson 12:25 Umræður og fyrirspurnir Nánari upplýsingar veitir Elvar K. Valsson í síma 460 7973 og Jakob Magnússon í síma 455 2510. Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, atvinnuþróun Impra nýsköpunarmiðstöð, Iðntæknistofnun

Umf. Fram á Goðamóti

Hópur stráka frá Umf. Fram tók þátt í Goðamótinu sem haldið var á Akureyri 10. - 12. mars sl. Þeir kepptu í D-riðli en mótið var haldið fyrir 5. flokk. Hópurinn sem mætti til leiks voru 10 ungir kappar þar sem 8 voru frá Skagaströnd og 2 frá Blönduósi. Skemmst er frá því að segja að liðið vann alla leiki sína nema úrslitaleikinn sem það tapaði gegn öflugu liði Breiðabliks. Lið Umf. Fram náði því öðru sæti í sínum riðli. Þarna var öflugt lið og góður liðsauki frá Blönduósi.

Bragðefni verða til á Skagaströnd

Frá 1999 hefur fyrirtækið SERO ehf starfað á Skagaströnd. SERO hefur þróað ýmsar gerðir bragðkjarna fyrir matvælaiðnaðinn. Ensím eru notuð til að brjóta niður prótein við framleiðslu sjávarbragðefnanna, sem fyrirtækið framleiðir. AVS sjóðurinn styrkti fyrirtækið með forverkefnisstyrk til að þróa þangbragðefni. SERO hefur þróað framleiðsluaðferðir til að einangra þá bragðkjarna sem eftirsóttir eru við gerð tiltekinna bragðlykla “ flavors keys”, sem eru svo notaðir til að útvega þann bragðprófil “ flavor profile”, sem markaðurinn biður um. Steindór Haraldsson RC ( Reserch Chef ) hefur þróað og hannað verksmiðjuna og þær vörur sem SERO framleiðir, en afurðirnar eru fyrst og fremst seldar til Bandaríkjanna. Meðal annars eru framleiddir bragðkjarnar úr rækju. humri, þorski og öðrum bolfiski, skelfiski, saltfiski, síld og þangi. Bragðkjarnarnir eru í fljótandi formi og seldir sem kælivara. SERO er í samvinnu við mörg skyld og sambærileg fyrirtæki bæði í Evrópu og Bandaríkjunum og taka þau virkan þátt í að meta afurðirnar, sem framleiddar eru á Skagaströnd. (Frétt á www.avs.is)