12.08.2010
Gönguferð á Spákonufell og kaffihlaðborðið á eftir er án efa einn af skemmtilegustu dagskrárliðum Kántrýdaga. Svo ótalmargt stuðlar að góðri ferð, til dæmis einstaklega fallegt fjall, afbragðsgóður fararstjóri, áhugaverðar sögur um fjallið og umhverfi þess, útsýnið, blár himinn, sólin, blíðan og fleira og fleira.
Spáð er hátt í 20 gráðu hita á laugardaginn ... Hér er átt við spá Veðurstofu Íslands en skagstrensku spákonurnar spá sólskini til viðbótar.
Það er Menningarfélagið Spákonuarfur sem verður með sína vinsælu Þórdísargöngu á laugardagsmorgun klukkan 10:00.
Fararstjóri verður Óli Benna leiðir fólk upp á Spákonufell og segir sögur af Þórdísi og leitar eflaust að gullinu hennar í leiðinni.
Eftir gönguferðina er öllum boðið uppá kaffihlaðborð að hætti Spákonuarfs. Verð á göngu er kr. 2.500 og er kaffihlaðborðið innifalið, en frítt er fyrir 14 ára og yngri.
12.08.2010
Lára Rúnarsdóttir skemmtir í hátíðartjaldi á laugardagskvöldið á Kántrýdögum . Hún hefur vakið mikla athygli fyrir söng sinn. Hér er nærmynd af Láru:
Það vantar ekki jákvæðnina í hina ungu söngkonu Láru Rúnarsdóttur sem væri til í að hitta Tom Waits og myndi gera óskaplötu með Dave Grohl, Nick Cave og Beck. Hún tók sér tíma frá annasömum degi og svaraði laufléttum spurningum Miðjunnar um lífið og tilveruna.
Nafn: Lára Rúnarsdóttir
Aldur:27 ára
Fjölskylda: Unnustinn minn Arnar Þór og dóttir okkar Embla Guðríður
Starf: Rekstrarsjóri, tónlistarmaður og húsmóðir
Ítarleg starfslýsing, hvernig er hefbundinn vinnudagur hjá þér?
Vakna, keyri, kaffi, email, pantanir, bý til checklista, dagdraumar, fundur, matur, kaffi, skoða checklistann, dagdraumar, merki við fullkláruð verkefni, keyri, sæki Emblu, pússla, dansa, elda, svæfi, horfi á frábæra dagskrá Rúv, les í bókum, kyssi manninn minn og fer að sofa.
Hvað langaði þig að verða þegar þú varst lítil? Leikkona og rithöfundur. Þessir draumar eru ennþá á dagskránni.
Hvað er listamannalíf? Lifir þú því? Listamannalíf eru forréttindi sem ég nýt því miður ekki.
Að þínu mati hvert er:
A) Besta bókmenntaverk sögunnar? Sunnan við mærin, vestur af sól eftir Haruki Murakami breytti lífi mínu.
b) Besta leikrit sögunnar? Romeó og Júlía – vildi óska að við töluðum svona fallegt mál.
c) Besta plata sögunnar? Closing time með Tom Waits
Uppáhalds tónlistarmaður/menn? Uppáhaldið mitt núna eru stelpur í tónlist… Goldfrapp, Bat for lashes, Florence and the Machine, Lilly allen og Regina Spektor. Áfram Stelpur!!!
Ef þú hefðir allann þann tíma og allann þann pening hvernig plötu myndiru gera? Frábæra plötu með Dave Grohl, Nick Cave og Beck!
Þegar þú ert að vinna í tónlist sækiru þér innblástur til annarra tónlistarmanna eða forðastu að hlusta á tónlista annarra til að “smitast“ ekki? Ég gæti aldrei hætt að hlusta á tónlist og öll tónlist er mér innblástur, líka sú sem mér finnst leiðinleg.
Er einhver tónlist sem þú fílar í laumi? Ég skammast mín ekki fyrir að hlusta á eitthvað. Ég þoli ekki snobb í tónlistarbransanum, algjörlega glatað að þora ekki að viðurkenna að maður fíli eitthvað.
Hver er stendur upp úr í tónlist á Íslandi? Það er svo ótrúlega mikil orka og sköpun á íslandi í dag. Get t.d. nefnt Sudden Weather Change, Cliff Clavin, Útúrdúr, Sykur og Retro Stefson.
Hvernig finnst þér staða menningarlífs á Íslandi vera í dag? Ég held að kreppan hafi haft jákvæð áhrif á sköpunina. Það mætti bara gera meira fyrir hana, t.d. í fjölmiðlum. Minna af íþróttum meira af menningu og listum.
Hvaða plötu ertu að hlusta á? Ingrid Olava – the Guest
- hvernig líkar þér? Ágætlega, tregamikið og lostafullt
Hvaða persónu lifandi/látna raunverulega/skáldaða mynduru vilja hitta? Tom Waits
Hver var uppáhalds platan þín sem barn? Ég hlustaði mikið á Rokklingana
Ólstu upp á tónlistheimili? já það var mikið sungið, spilað og dansað.
Var einhver sem fékk þig til að syngja? Syngjum um lífið og lofum það líka. Ætli það hafi ekki bara verið þannig. Annars var það Kiddi Hjálmur sem uppgötvaði mig.
Hvað fær þig til að syngja? Ástin, dauðinn, sorgin, sturtan, áfengi og partý
Hvað er besta ráðið sem þú hefur fengið? Ekki reyna að láta alla elska þig
Hvaða ráð myndir þú veita þeim sem vilja byrja að semja tónlist og syngja? Aldrei að hugsa um hvað öðrum finnst… Bara að hafa gaman!
Í hverju ertu að vinna núna? Öðlast hamingju sem ekki fellst í afrekum eða peningum
Eitthvað að lokum? Við lifum bara einu sinni, hættið þessu væli!
11.08.2010
Spákonuarfur efnir til Þórdísargöngu á Spákonufell laugardaginn 14. ágúst kl. 10:00. Gangan er tileinkuð Þórdísi spákonu.
Lagt verður af stað frá golfvellinum á Skagaströnd. Að lokinni göngu verður boðið upp á veitingar sem eru innifaldar í verði.
Fararstjóri í göngunni er Ólafur Bernódusson. Á leiðinni mun hann fræða þátttakendur um Þórdísi spákonu og vísa á staði sem tengjast sögu hennar og afrekum.
Þátttökugjald er 2.500 kr. Frítt fyrir 14 ára og yngri. Upplýsingar í síma 861-5089
11.08.2010
Tuttugu myndir eftir fjórtán ljósmyndara hafa nú verið settar upp á Hnappstaðatúni í miðbæ Skagastrandar. Þær eru niðurstaða dómnefndar ljósmyndasamkeppninnar sem Sveitarfélagið Skagaströnd efndi til í júní undir kjörorðinu „Skagaströnd í nýju ljósi“.
Sýningin var formlega opnuð í dag og við það tækifæri flutti oddviti sveitarstjórnar, Adolf H. Berndsen, tölu og kynnti úrslitin. Hann og Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri, afhentu síðan vinningshöfunum viðurkenningarskjal fyrir þátttökuna.
Þeir ljósmyndarar sem hlutskarpastir urðu eru eftirtaldir:
Arnar Ólafur Viggósson
Árni Geir Ingvarsson, 2 myndir
Ásdís Árnadóttir
Guðbjörg Viggósdóttir
Guðlaug Grétarsdóttir
Helena Mara
Herdís Þ. Jakobsdóttir
Hjalti Reynisson
Ólafur Bernódusson, 3 myndir
Saga Lind Víðisdóttir, 2 myndir
Signý Ósk Richter
Sigurbjörg B. Berndsen
Silfá Sjöfn Árnadóttir, 2 myndir
Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson, 2 myndir
Allar myndirnar í ljósmyndasamkeppninni má sjá á vef Ljósmyndasfns Skagastrandar. Slóðina er að finna hér.
Í dómnefnd keppninnar voru valdir þrír valinkunnir menn sem ekki búa á Skagaströnd. Þeir eru Jón Sigurðsson, umboðsmaður TM og ljósmyndari, Skarphéðinn H. Einarsson, skólastjóri, og Snorri Gunnarsson, ljósmyndari.
Dómnefndin fékk ekki að vita nöfn ljósmyndaranna fyrr en úrslit lágu fyrir. Í ljósi þess vekur athygli að hjónin Árni Geir Ingvarsson og Herdís Þ. Jakobsdóttir eiga þrjár myndir á sýningunni og ekki nóg með það, tvær dætur þeirra eiga líka myndir, Ásdís á eina og Silfá Sjöfn á tvær. Önnur skrýtin tilviljun er sú að hjónin Hjalti Reynisson og Guðlaug Grétarsdóttir eiga hvor sína myndina í úrslitum.
11.08.2010
Ljósmyndasýningin „Skagaströnd í nýju ljósi“ verður formlega opnuð í miðbæ Skagastrandar í dag kl. 13. Sýndar eru tuttugu myndir eftir þrettán ljósmyndara. Myndirnar valdi dómnefnd sem skipuð var vegna ljósmyndasamkeppni sem Sveitarfélagið Skagaströnd stóð fyrir í júní.
Mikil þáttaka var í keppninni og sendu tuttugu og fjórir ljósmyndarar 154 myndir í keppnina. Af þeim voru 20 myndir valdar fyrir sýninguna.
Tilgangurinn með ljósmyndasýningunni er að lífga upp á miðbæ Skagastrandar og jafnframt að vekja athygli ferðamanna á einstökum stöðum sem í sveitarfélaginu.
Myndirnar tuttugu hafa nú verið prentaðar á álplötur. Og festar á ramma sem Trésmiðja Helga Gunnarssonar á Skagaströnd sá um að útbúa.
Sýningin mun standa fram undir miðjan september.
11.08.2010
Sumarið er tími úti- og bæjarhátíða á Íslandi. Við ferðumst mörg hornanna á milli til þess að njóta landsins gæða og gestrisni landsbyggðarinnar. Stærstu hátíðarnar standa yfir venju samkvæmt um verslunarmannahelgina, sem markar í hugum margra lok ferðarsumarsins. En í sveitarfélaginu Skagaströnd, er ár hvert haldin merk hátíð, sem á að höfða til þeirra sem vilja framlengja ferðasumarið um ögn. En sú hátíð er hin margrómaða hátíð, Kántrýdagar.
Þessi menningarhátíð er afsprengi Kántrýhátíðarinnar sem haldin var um verslunnarmannahelgar hér um árin. Á mjög skömmum tíma varð sú hátíð líkt og flestir, nema fáeinir Vestmannaeyjingar muna, sú allra stærsta á landinu. Þá lögðu mörg þúsund Íslendingar leið sína til Skagastrandar til að njóta helgarinnar í vöggu kántrýsins á Íslandi. Seinna var hátíðin svo færð fram í miðjan ágúst, til að reyna undirstrika hvað þessi hátíð á að ganga út á, þ.e. hátíð fyrir fjölskylduna og unnendur kántrýsins.
Hátíðin sækir uppruna sinn að sjálfsögðu til Kántrýkóngsins Hallbjörns Hjartarsonar, sem hefur eytt ævinni í að kynna kántrý fyrir landanum og ávallt verið bæjarfélagi sínu til mikils sóma. En fyrir utan alla tónlistina reisti hann Kántrýbæ þar sem nú er rekið veitingahús og hýsir útvarp Kántrýkóngsins, Útvarp Kántrýbæ.
Hátíðin hefst venju samkvæmt þegar skotið er úr fallbyssunni á föstudag. Fá bæjarfélög, eru að sögn kunnugra, svo vel vopnum búin. Þegar hátíðin er hafin taka við ótal mismunandi dagskrárliðir, sem spanna allt frá námskeiðum í töfrabrögðum fyrir yngri kynslóðina til varðeldar fyrir alla fjölskylduna. Hvert kvöld er svo að sjálfsögðu spilað fyrir dansi fyrir eldri kynslóðina.
Aðstæður fyrir ferðamenn eru til fyrirmyndar og gestrisni heimamanna í fyrirrúmi, en í bæjarfélaginu er rekið fyrsta flokks tjaldstæði fyrir hvers kyns gistikosti. Fyrir kylfingana er aðeins tíu mínútna keyrsla í Háagerðisvöll, sem er „best geymda leyndarmál kylfinga á Íslandi“ skv. bókinni Golfhringir á Íslandi eftir Edwin Rögnvaldsson.
Rúsínan í pysluendanum er svo að sjálfsögðu hin fræga gospelmessa kirkjukórs Hólaneskirkju undir stjórn Óskars Einarssonar á sunnudagsmorgun. En þangað sækja ótal margir unnendur gospels og kóratónlistar innblástur hvert ár í hátíðartjaldinu.
Þungamiðjan og það sem allt snýst um er að sjálfsögðu kántrýið. Hvergi er betra að sleppa kúrekanum í sjálfum sér lausum en í heimabæ kántrýsins. Enginn er svo stirðbusalegur að hann hökti ekki aðeins í takt þegar línudansinn brestur á undir ávanabindandi takti Willie Nelson og Hallbjörns Hjartar. Því það er hálfopinber staðreynd, að það er smá kántrý í okkur öllum.
Ferðasumarið er langt frá því búið og þeir sem vilja skella sér á eina útihátíð í viðbót í vinalegu og afslöppuðu andrúmslofti, ættu ekki að láta Kántrýdagana fram hjá sér fara. Það er þó ráðlegt fyrir gesti að skilja indíána klæðin eftir heima, a.m.k meðan innfæddir eru að brúka fallbyssuna.
Birtist fyrst á Deiglan.com
09.08.2010
Dagskrá Kántrýdaga er nú komin á heimasíðu sveitarfélagsins. Á morgun verður henni dreift á öll heimili í Austur-Húnavatnssýslu og plaköt sett upp í verslunum á Blönduósi og Sauðárkróki.
Vakin er sérstök athygli á menningarlegum liðum Kántrýdaga. Í raun eru það allir dagskrárliðir en í þetta skipti skal litið á sýningar og tónleika.
Fyrst ber að nefna galleríið með skemmtilega nafninu Djásn og dúllerí. Það hefur nú verið starfandi í mánuð og vakið óskipta athygli ferðamanna. Þar er að finna til sölu margvíslegan varning eftir handverksfólk og hagleikssmiði á Skagaströnd og víðar í sýslunni.
Í Frystinum í Nesi listamiðstöð verður einstök listsýning. Fjölmargir þeirra rúmlega tvö hundruð listamanna sem dvalið hafa á Skagaströnd undanfarin tvö ár leggja til verk. Þeir segja þau vera innblásin vegna dvalar þeirra í bænum og af því er nafn sýningarinnar dregið, Ispired by Skagaströnd.
Á efstu hæðinni í Gamla kaupfélaginu verður ljósmyndasýningin Línur í landslagi. Myndirnar hefur Sigurður Sgiurðarson tekið á ferðum sínum, sumar og vetur, i kringum Spákonufell.
Í Bjarmanesi verða tónleikar á föstudagskvöldið og þar kemur Ragnheiður Gröndal fram og hljómsveit hennar.
Síðar um kvöldið verða Langi Seli og Skuggarnir með tónleika í Bjarmanesi.
Á laugardeginum verða um miðjan dag tónleikar í Bjarmanesi með Spottunum. Þeir leika og syngja lög eftir sænska vísnaskáldið Cornelius Vreesvjik.
Síðar um kvöldi syngja Cohen systur lög Leonard Cohens.
Af þessu má sjá að dagskrá Kántrýdaga lofa góðu í sýningum og tónleikum.
05.08.2010
Hópur ungs fólks hefur síðustu tvo daga unnið að því að mála listaverk á gaflinn á gömlu síldarþrónum við höfnina. Listamennirnir eru á leið sinni í kringum landið í þeim tilgangi einum að lífga upp á bæi með því að færa list sína á ljótu veggina sem áreiðanlega fyrirfinnast í öllum byggðarlögum.
Á Skagaströnd fundu listamennirnir þrærnar. Þar hefur nú mikið listaverk verið að fæðast og von er á að það klárist í dag.
Veggskreytingin er í graffítistíl. Í þúsundir ára hafa listamenn mála á veggi. Þekktar eru slíkar skreytingar frá tímum Grikklans hins vorna og Rómaveldis.
Nú á tímum hafa sprey brúsar leyst hin hefðbundnu verkfæri af hólmi.
Oftar en ekki hefur verið amast við graffítí á veggjum enda viða lítil prýði af þeim. Þá hefur lítið farið fyrir listinni og þá frekar verið um ruddalegan boðskap að ræða eða hrein skemmdarverk á eigum fólks. Slíkur vandalismi hefur aðeins það markmið að höfundurinn er að merkja sér staði.
Engu að síður hefur listin breyst á síðustu áratugum og er nú uppfull táknmynda með ákveðnum boðskap,til dæmis pólitiskum, umhverfislegum, mannlegum o.s.frv.
Listamennirnir sem eru í heimsókn á Skagaströnd eru allir í listnámi af einhverju tagi og hafa langa reynslu að baki.
Á gaflinn á þrónum eru þeir að mála verk sem meðal hann hefur skírskotun til sæskrímsla en í miðju verksins er skjaldamerki ríkisins með sínum fjórum kykvendum.
Hópurinn leggur alla sína vinnu fram án endurgjalds, tekur ekkert fyrir kostnað vegna efnis en hins vegar fær hann að sofa í félagsheimilinu Fellsborg.
Eins og títt er um ung fólk með hugsjón hefur það ekki mikinn pening handa á milli. Það var því kærkomið að Samkaup og Söluskálinn sameinuðust um að gefa því kleinur, kökur og drykki í kaffihléinu síðdegis í gær. Hópurinn bað þess vegna fyrir góðar kveðjur til þessara fyrirtækja og þakkar kærlega fyrir allt matarkyns sem gaukað er að þeim.
Á efstu myndinni eru þessir listamenn, talið frá vinstri: Kristín og Narfi í stigunum, Ingi er uppi á skúrnum, og þá Daníel, Brynja, Dýrfinna og Loki.
04.08.2010
Unglingalandsmót UMFÍ var haldið í 13. sinn um verslunarmannahelgina. Aldrei hefur mótið verið jafn stórt og í ár og keppt var í fjölbreyttum greinum. Frá USAH voru skráðir 38 keppendur í frjálsíþróttum, fótbolta og sundi. Allir keppendur frá USAH stóðu sig með stakri prýði og voru félaginu til mikillar sóma.
Mjög góður árangur sést í kastgreinum frá félaginu en þar hreppti félagið nokkra verðlaunapeninga.
Í kúluvarpi hjá sveinum 15 – 16 ára kastaði Stefán Velemir frá Skagaströnd 14,26 og sigraði í þeim flokki. Magnús Örn Valsson náði 3. sætinu og Brynjar Geir Ægisson var í því 8.
Í kúluvarpi 13 ára pilta kastaði Guðmar Magni Óskarsson 10,84 og náði 2. sætinu og kúluvarp hjá drengjum 17 – 18 ára var Sigmar Guðni Valberg í 2. sæti og kastaði 11,64.
Í spjótkasti kastaði Kristrún Hilmarsdóttir 18,18, í flokki stelpur 11 ára, og náði 2. sæti og Sigmar Guðni kastaði 11,64 í sínum flokki og hreppti 3. sætið.
Í 100 m hlaupum náðu tveir keppendur frá USAH á pall og Guðrún Dóra Sveinbjarnardóttir hljóp á 13,67 sek í flokki telpur 13 ára og í flokki pilta 14 ára hljóp Auðunn Þór Húnfjörð á 13,02 og náðu þau bæði 2. sæti í sínum flokkum
Einnig stóðu keppendur í knattspyrnu mjög vel og í 2. flokki stráka var blandað lið frá USAH/UMSB í 3 sæti og blandað lið frá UMSS/USAH2 náðu einnig sæti í 3. flokki hjá strákum.
Hægt er að skoða úrslit frá mótinu inn á www.ulm.is undir úrslit.
Mótið heppnaðist mjög vel og ég vil þakka öllum foreldrum og aðstandendum sem hjálpuðu til við undibúning og aðstoðuðu á mótsstað kærlega fyrir mikla og góða hjálp. Við getum verið stolt af okkar fólki.
Ásta Berglind Jónsdóttir
Framkvæmdarstjóri USAH
29.07.2010
Ný endurvinnslustöð var opnuð við Vallarbraut á Skagströnd fimmtudaginn 29. júlí 2010. Rekstur stöðvarinnar byggist á samningi sem rekstraraðili hennar, Sorphreinsun Vilhelms Harðarsonar ehf., hefur gert við Sveitarfélagið Skagaströnd um byggingu og rekstur gámastæðisins.
Með opnun gámastöðvarinnar verður boðið upp á móttöku og flokkun á úrgangi sem fer til endurvinnslu. Jafnframt batnar aðstaðan til losunar úrgangs, bæði flokkaðs og óflokkaðs.
Þangað verður einnig hægt að koma færa stærri hluti til flokkunar og endurvinnslu við bestu aðstæður.
Íbúar þurfa ekki að greiða fyrir þjónustu endurvinnslustöðvarinnar en fyrirtæki og stofnanir greiða samkvæmt sérstakri gjaldskrá. Flokkað efni til endurvinnslu er þó í flestum tilvikum gjaldfrjálst.
Opnunartími verður sem hér segir:
Þriðjudaga, kl. 16:00 - 18:00
Fimmtudaga, kl. 16:00 - 18:00
Laugardaga, kl. 13:00 - 17:00
Meðfylgjandi myndir voru teknar við vígslu endurvinnslustöðvarinnar.