23.06.2010
Ljósmyndasafn Skagastrandar var formlega tekið í notkun í dag.Það var oddviti nýkjörinnar sveitarstjórnar, Adolf H. Berndsen, sem opnaði safnið. Slóðin á vefinn er http://myndasafn.skagastrond.is. Einnig má sjá link á vefinn á forsíðunni á skagastrond.is.
Ljósmyndir af lífi og starfi Skagstrendinga, mannvirkjum og umhverfi í allt að 100 ár verða smám saman aðgengilegar Skagstrendingum og öðrum þeim sem áhuga hafa. Stefnt er að því að setja ljósmyndasafnið allt á vefinn. Til framtíðar er sú undirliggjandi stefna að á honum megi finna myndir af sem flestum Skagstrendingum, lífs og liðnum. Starfsmaður safnsins er Hjalti Viðar Reynisson og er hann í hálfu starfi við verkefnið.
Ljósmyndavefurinn mun án efa vekja mikla ánægju. Vonast er til að fólk sem á myndir vilji annað hvort gefa safninu þær eða leyfa afritun af myndunum og birtingu.
Víða í kössum leynast gamlar myndir sem voru í eigum afa og ömmu eða langafa og langömmu. Oft veit enginn lengur hverjir eru á þeim eða hvenær þær voru teknar. Slíkar myndir eiga tvímælalaust heima á vef Ljósmyndasafnis Skagastrandar. Þar eru miklar líkur á að einhver kannist við myndefnið og sendi inn upplýsingar.
Þetta er einmitt einn af kostum vefsins. Í makindum heimavið er tilvalið að skoða myndirnar og velta myndefninu fyrir sér. Telji einhver að myndatexta vanti eða honum sé að einhverju eða öllu leyti áfátt getur hann auðveldlega skráð inn á vefinn þann texta sem hann telur réttan. Þannig safnast oft saman ítarlegri og betri upplýsingar en mögulegt væri að afla með öðrum aðferðum.
Ótalinn er sá möguleiki sem stunda samtíma söguskráningu. Hér er átt við ýmis konar atburði í bæjarmálum sem um leið er orðin aðgengileg öllum almenningi. Sem dæmi má nefna myndir frá sjómannadeginum, kántrýdögum, ýmis konar uppákomum hjá grunnskólanum, leikskólanum, Sæborgu eða einstökum fyrirtækjum.
Vefurinn er í aðalatriðum þannig upp byggður hægt er flokka myndirnar eftir efni þeirra. Nú eru þegar komnir nokkrir flokkar og þeim á áreiðanlega eftir að fjölga:
Bílar
Forsetaheimsóknin 1988
Gamla kirkjan
Hafnarframkvæmdir 1991
Höfðahreppur 50 ára
Kántrýhátíðir
Póstkort
Réttir
Sjómannadagurinn
Skip og bátar
Slippurinn vígður 1995
Snjór
Tískusýning
Uppstilltar hópmyndir
Útimarkaður við gamla Kántrýbæ
Einnig gefst kostur á að leita að myndum eftir tiltekna ljósmyndara og er þá hvort tveggja átt við áhugamenn sem atvinnumenn og jafnvel söfn úr eigu tiltekinna aðila. Nefna má að á vefnum eru myndir frá því um þarsíðustu aldmót sem Edward Hemmert tók.
Ljósmyndavefurinn er hannaður af Jóhanni Ísberg. Fjölmörg sveitarfélög víða um land hafa keypt þennan vef og nota hann mikið. Nefna má Akranes og Stykkishólm og á báðum stöðum er hann mikið notaður.
Á meðfylgjandi litmynd er oddviti sveitarstjórnar að opna vefinn og hjá honum stendur starfsmaður safnsins, Hjalti Viðar Reynisson.
Efsta svarthvíta myndin er af konu með hrífu. Hún hét Rósa Jónsdóttir og var frá Spákonufelli.
Á næstu mynd eru Þuríður, Árni og Hermann frá Litla Bergi.
Síðasta myndin er af óþekktri stúlku með brúðu í fanginu.
Þessar myndir og aðrar má sjá á ljósmyndavefnum og þar má gera tillögu um betri myndatexta, laga eða breyta.
23.06.2010
Ný sveitarstjórn tók í dag við stjórn Sveitarfélagsins Skagastrandar. Á fyrsta sveitarstjórnarfundinum var Adolf H. Berndsen kjörinn oddviti og varaoddviti Halldór G. Ólafsson.
Aðrir í sveitarstjórn eru Jensína Lýðsdóttir, Jón Ólafur Sigurjónsson og Péturína Laufey Jakobsdóttir.
Magnús B. Jónsson var endurráðinn sveitarstjóri.
22.06.2010
Í sumar verður opnaður markaður í kjallara gamla Kaupfélagsins á Skagaströnd. Fyrir framtakinu standa þrjár skagstrendskar konur, Björk Sveinsdóttir, Signý Ó. Richter og Birna Sveinsdóttir.
Þær leita eftir handverksfólki og hagleikssmiðum sem þær trúa að fyrirfinnist á Skagaströnd og í Skagabyggð. Þeir sem hafa áhuga á að vera með vörur til sölu
í markaðnum eru eindregið hvattir til að hafa samband við þremenningana.
Signý er með símann 820 1991, Birna 896 6105 og Björk hefur símann 862 6997.
22.06.2010
Gengið verður á Spákonufell miðvikudagskvöldið 23. júní kl. 21:00. Mæting er við golfskálann að Háagerði, Skagaströnd.
Fararstjóri og sögumaður er Ólafur Bernódusson. Hann segir frá Þórdísi spákonu, kynnir staði er tengjast henni og afrekum hennar.
Tekst að finna gullkistu Þórdísar ? … Hver veit.
Upplifum Spákonufell á bjartri sumarnótt.
Eftir göngu er öllum boðið á kaffihlaðborð í golfskálanum að hætti Spákonuarfs.
Verð fyrir göngu (kaffihlaðborð innifalið) kr. 2.000 frítt fyrir börn 14 ára og yngri.
Posi á staðnum.
Allar nánari upplýsingar í síma 861 5089
Menningarfélagið Spákonuarfur
21.06.2010
FUNDARBOÐ
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar
miðvikudaginn 23. júní 2010 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800.
Dagskrá:
1. Kjör oddvita og varaoddvita
2. Kosning í nefndir og ráð:
a) Fræðslunefnd
b) Skipulags- og byggingarnefnd
c) Tómstunda- og menningarmálanefnd
d) Hafnarnefnd
e) Kjörstjórn
f) Skoðunarmenn reikninga
g) Ársþing SSNV
h) Fulltrúi á landsþing
i) Í fulltrúaráð BÍ
j) Stjórn byggðasamlags um Félags- og skólaþjónustu A-Hún
k) Stjórn byggðasamlags um Tónlistarskóla A-Hún
l) Stjórn byggðasamlags um menningar og atvinnumál
3. Lóðasamningur um Fellsmela 1
4. Ársreikningur Ámundakinnar
5. Bréf:
a) Sveitarfélagsins Skagafjarðar, dags. 2. júní 2010
b) Vina Kvennaskólans, dags. 10. júní 2010
c) Byggðasamlags um menningu og atvinnumál, dags. 14. júní 2010
d) Stjórnar Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna, dags. 17. maí 2010
6. Fundargerðir:
a) Tómstunda- og menningarmálanefndar 15. júní 2010
b) Stjórnar Félags- og skólaþjónustu A-Hún, 8. júní 2010
c) Stjórnar Norðurár bs. 14. apríl 2010
d) Stjórnar Norðurár bs. 6. maí 2010
e) Stjórnar Norðurár bs. 18. maí 2010
f) Stjórnar Norðurár bs. 10. júní 2010
g) Heilbrigðisnefndar Nl.vestra, 11. júní 2010
7. Opnun ljósmyndavefs Skagastrandar
8. Önnur mál
Sveitarstjóri
16.06.2010
Í lok júnímánaðar verður malbikunarflokkur að störfum á Skagaströnd þar sem lagt verður bundið slitlag á nokkrar götur.
Á þeim tíma verður mögulegt að fá malbik til að leggja á bílastæði við heimahús. Til að fá það gert verða húseigendur að ganga frá jarðvegsskiptum og jöfnuðu yfirborði.
Þar sem almennt er ekki hægt að koma útlagningavélum að í þröngum bílastæðum er kostnaður við malbikun þeirra nokkuð meiri en á götur og fer fermetraverð eftir stærð plansins. Reikna má með að verð á hvern fermetra sé á bilinu 5-7.000 kr.
Þeim sem hafa áhuga á að fá malbikað bílastæði er bent á að hafa samband við skrifstofu sveitarfélagsins.
Skagaströnd 16. júní 2010
Sveitarstjóri
16.06.2010
Hér áður fyrr markaði fermingin stórt spor í þroska flestra einstaklinga og ef til vill er það svo enn. Og eftir því sem fólk verður eldra er sífellt áhugaverðara að kynnast á ný því fólki sem átti samleið í skóla og fermdist saman.
Fyrir skömmu hittust þau sem fæddust árið 1961 og fermdust í Hólaneskirkju á Skagaströnd fyrir 35 árum.
Á efri myndinni, í neðri röð frá vinstri: Ástmar Kári Ásmarsson, Guðrún B. Berndsen, Þórey Jónsdóttir, Páll Jónsson og Ásdís Þórbjarnardóttir.
Í efri röð frá vinstri eru: Hafþór Smári Gylfason, Magnús Bergmann Guðmarsson, Jósef H. Sigurðsson, G. Valdimar Valdimarsson, Hjálmfríður Bjarnadóttir og Lilja Kristinsdóttir.
Á myndina vantar Egil Bjarka Gunnarsson og Þórdísi Elvu Guðmundsdóttur.
Á neðri myndinni eru 50 ára fermingarsystkini. Saman fermdust 9 börn og hittust sex þeirra á Skagaströnd á sjómannadaginn.
Við messu í Hólaneskirkju þann dag afhenti hópurinn minningargjöf um Stefán H. Ingólfsson sem var eitt fermingarbarnanna. Gjöfin er ræðustandur unnin af Erlendi Magnússyni listamanni sem nú býr á Blönduósi.
Á myndinni eru frá vinstri eru fermingrbörnin: Dagný Hannesdóttir, Kristín Lúðvíksdóttir, Guðrún Þórbjarnardóttir, Magdalena Axelsdóttir, Pálfríður Benjamínsdóttir og Lárus Ægir Guðmundsson.
14.06.2010
Menningarfélagið Spákonuarfur hefur fengið afhentan gamla samkomuhúsbraggan fyrir starfsemi sína. Bragginn sem í daglegu tali hefur verið kallaður Tunnan hefur um árabil hýst áhaldahús bæjarins. Ætlunin er að félagið flytji starfsemi sína þangað og þar verði Þórdísarstofa, spástofa og söluaðstaða.
Bragginn eða Tunnan er eins og nafnið og útlitið bendir til herbraggi byggður með hefðbundnu sniði slíkra bragga. Hann er 22,1 m x 6,4 m eða 141,4 fm byggður á steyptri undirstöðu upphaflega með trégólfi og litlu leiksviði í öðrum enda en anddyri og klefa fyrir kvikmyndasýningarvélar í hinum endanum.
Í áratugi var húsið miðstöð félagslífs á Skagaströnd. Þar voru lengi kvikmyndasýningar, haldnir voru margvíslegir fundir og samkomur og þar fóru fram skemmtanir eins og þorrablót, afmælisveislur og svo framvegis.
Að utan hefur Bragginn nú verið gerður upp í upprunalegri mynd enda eins og áður sagði ætlunin að endurvekja menningarhlutverk hans. Hann stendur á þeim reit sem sveitarfélagið hefur markað undir menningar- og safnastarfsemi.
Á síðasta ári voru þak og veggir einangraðir og ytra byrði hússins endurnýjað að undarskildum vesturstandi, en þar er inngangurinn í húsið.
Samkomulag er um það milli sveitarfélagsins og Spákonuarfs að leitast verði við að virða í grundvallaratriðum form og útlit innanhússklæðninga í húsinu að svo mikluu leyti sem það er gerlegt vegna fyrirhugaðrar stafsemi.
Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri, afhenti Menningarfélaginu Spákonuarfi húsið föstudaginn 22. júní og fyrir hönd félagsins tóku við því þau Sigrún Lárusdóttir, Dagný M. Sigmarsdóttir og Lárus Ægir Guðmundsson.
11.06.2010
Norðurá bs. hefur gert samning við verktakafyrirtækið Héraðsverk ehf, Egilsstöðum um gerð urðunarhólfs við Sölvabakka á Refasveit.
Samningurinn er gerður á forsendum tilboðs í verkið og er samningsupphæð 198,6 milljónir króna. Verkið er fólgið í tilflutningi 390 þús. m3 efnis úr urðunarhólfi, gerðar hriplags og lagningu þéttidúks í hliðar hólfsins og byggingu hreinsimannvirkis. Einnig eru í verkinu girðingar, lagning aðkomuvegar og gerð þjónustuplans við urðunarstaðinn.
Verkáætlun gerir ráð fyrir að flutningi efnis ljúki í seinni hluta september og gerð söfnunar- og hreinsikerfis fyrir sigvatns verði lokið í seinnihluta október. Verklok eru 1. nóvember 2010.
Með opnun urðunarstaðar að Sölvabakka verður urðunarstöðunum að Neðri Harrastöðum á Skagaströnd, Draugagili við Blönduós og Skarðsmóum við Sauðárkrók lokað. Samningur við Flokkun Eyjafjörður um urðun alls óflokkaðs sorps á Eyjafjarðarsvæðinu að Sölvabakka tekur gildi 1. janúar 2011. Urðunarstaðnum á Glerárdal verður því jafnframt lokað á næsta ári.
Stjórn Norðurár bs.
09.06.2010
Sjómannadagurinn var að venju haldinn hátíðlegur síðasta laugardag. Komu þá flestir bæjarbúar saman og skemmtu sér í blíðskaparveðri. Góða veðrið er raunar fastur liður á dagskrá hátíðarhaldara sem er Björgunarsveitin Strönd.
Farið var í hefðbundnar þjóðlegar íþróttir, meðal annars í sjóboðssund. Í því voru keppendur fullklæddir, komu samt kuldalegir upp úr sjónum enda ekkert samræmi í hita í lofti og legi. Svo skemmtu kraftalegir menn hinum með því að togast á um reipi. Efnt var til nýstárlegs hindrunarhlaups eftir brettum sem flutu í sjónum. Vakti mesta kátínu þegar keppendur duttu í sjóinn eftir að hafa reynt sig við hindranirnar.
Tveir sjómenn voru heiðraðir og þeir eru Lýður Hallbertsson og Sveinn Garðarsson.
Steindór R. Haraldsson var kynnir og fórst honum starfið vel úr hendi eins og við var að búast. Hann hafði til dæmis þá skoðun að baráttan um bandspottann nefndist reiptog en alls ekki reipitop og raunar bannfærði síðarnefndu orðmyndina úr skagstrendsku máli.
Og svo hittust vinir og kunningjar, skeggræddu um lífsins gang, kreppuna fyrir sunnan, gleðina á Skagaströnd og ekki síst framtíð lands og lýðs í skugga náttúruhamfara, jafnvel þeirra sem mennirnir hafa skapað.