Aflaverðmæti Arnars meira en allt síðasta ár

Arnar HU-1 landaði metafla í Reykjavík eftir 34 daga karfaveiðar á Reykjaneshryggnum. Aflinn var um 1300 tonn af úthafskarfa og verðmætið reyndist vera um 334 milljónir króna . Aldrei fyrr hefur Arnar komið með jafnverðmætan afla að landi og er þetta örugglega mesta eða eitt mesta aflaverðmæti íslensks frystitogara fyrr og síðar.   Frá áramótum er aflaverðmætið Arnars komið yfir 1050 milljónir króna. Tveir túrar standa þar uppúr, á Reykjaneshrygginn og í Barentshafið. Samalagt er verðmætið úr þessum ferðum rúmlega hálfur milljarður króna. Til samanburðar má geta þess að Arnar fiskaði fyrir um 1550 milljónir á árinu 2009 Áhöfnin á Arnari er 27 manns og skipstjórar eru Guðjón Guðjónsson og Árni Ólafur Sigurðsson. 

Fyrirlestur um ferð Bandaríkjamanns í A-Hún 1873

Karl Aspelund flytur opinn fyrirlestur á vegum Fræðaseturs HÍ á Norðurlandi vestra í Café Bjarmanesi sunnudaginn 13. júní kl. 14. Þar les Karl úr nýfundinni ferðabók Bandaríkjamannsins S.S. Howland frá 1873 og sýnir myndir. Séstaklega verður greint frá kynnum Howlands af fólkinu á Hnausum, Stóruborg og í Bólstaðarhlíð og gefin uppskrift af skyri sem hann fékk í Víðidalstungu. Karl mun sýna fjölmargar myndir, lesa upp úr ferðalýsingunum. Karl er nemi til doktorsgráðu í mannfræði við Boston University í Bandaríkjunum og hefur síðastliðin þrjú ár unnið að rannsókn um eðli og stöðu þjóðlegs klæðnaðar íslenskra kvenna í dag. Hann hefur kennt fatahönnun og skyldar greinar við University of Rhode Island síðan 1996 en tók nýlega við fullri kennslustöðu í hönnun og búningasögu.  Áður kenndi hann við Fataiðndeild Iðnskólans í Reykjavík og stjórnaði Iðnhönnunardeildinni þar jafnhliða því að hanna leikmyndir og búninga fyrir leikhús og kvikmyndir á Íslandi í rúman áratug. Karl er höfundur tveggja bóka: *The Design Process*, sem er notuð til kennslu í á fimmta tug háskóla í Bandaríkjunum og *Fashioning Society*, sögulegt yfirlit um stöðu hátískuhönnunar í nútímaþjóðfélagi vesturlanda.  Karl dvelur um þessar mundir sem gestafræðimaður hjá Textílsetrinu á Blönduósi.

Ljósmyndasamkeppni

Sveitarfélagið Skagaströnd mun í sumar standa fyrir ljósmyndasýningu á Hnappstaðatúni í miðbæ Skagastrandar. Sýningin er í samstarfi við Menningarráð Norðurlands vestra.  Tilgangurinn með er að lífga upp á miðbæ Skagastrandar og jafnframt að vekja athygli ferðamanna á einstökum stöðum sem og náttúruminjum í sveitarfélaginu. Til að afla mynda í sýninguna er því efnt til ljósmyndasamkeppni undir kjörorðinu: „Skagaströnd í nýju ljósi“ Leitað er eftir um tuttugu ljósmyndum til að nota í sýninguna sem verða stækkaðar upp í 200 x 120 cm og prentaðar á segldúk. Myndir skulu teknar innan Sveitarfélagsins Skagastrandar, utan eða innan bæjar. Sjónarhornið er byggðin, mannlífið eða náttúran. Leitað er eftir fallegum myndum eða sérkennilegum og áhugaverðum myndefnum eða sjónarhornum. Ekki er þó um hefðbundna ljósmyndasamkeppi að ræða enda engin verðlaun veitt önnur en þau að fá mynd sína birta í stóru formati og að ljósmyndarinn fær að eiga myndina að sýningu lokinni. Í dómnefndinni eiga þessir sæti: Jón Sigurðsson, umboðsmaður TM og ljósmyndari, Skarphéðinn H. Einarsson, skólastjóri, og Snorri Gunnarsson, ljósmyndari. Henni til aðstoðar er Sigurður Sigurðarson, starfsmaður Sveitarfélagsins Skagastrandar. Reglur samkeppninnar eru þessar: Einungis myndir eftir áhugaljósmyndara verða birtar á ljósmyndasýningunni „Skagaströnd í nýju ljósi“ sem haldin verður á Hnappstaðatúni sumarið 2010. Þátttaka er öllum heimili, Íslendingum sem og öðrum. Myndefnið skal vera frá Skagaströnd, utan eða innan þéttbýlisins, og vera af byggð, mannlífi eða náttúru. Því ber að vera áhugavert eða sérkennilegt af einhverju tagi.  Myndirnar mega vera í lit eða svarthvítar, en skilyrði að þær séu í góðri upplausn og á jpg formi. Leyfilegt er að skanna inn framkallaðar myndir eða filmur og senda í keppnina. Engin verðlaun verða veitt fyrir þær myndir sem valdar eru, en viðkomandi ljósmyndari fær stækkaða mynd sína til eignar að sýningu lokinni. Skilafrestur á myndum er til og með 1. júlí 2010.  Hver þátttakandi má senda inn allt að 10 myndir sem hann hefur tekið sjálfur. Aldur myndanna skiptir engu máli.  Myndum skal skila í tölvupósti á radgjafi@skagastrond.is eða á diski eða minnislykli ásamt grunnupplýsingum um ljósmyndarann á skrifstofu sveitarfélagsins.  Ljósmyndir eru valdar eftir tillögum dómnefndar og leitast við að hafa sem breiðast úrval myndefnis og ljósmyndara. Myndir á sýningunni verða með myndatexta sem unninn er í samráði við eiganda og nafn hans verður einnig prentað á myndina.

Eru listamennirnir ígildi 10.000 ferðamanna?

Þriðja starfsár Ness listamiðstöðvar á Skagaströnd er nú hafið. Það var hinn 1. júní 2008 að fyrstu listamennirnir komu til bæjarins og þeim hefur fjölgað mikið síðan en rétt um 200 manns hafa frá notið dvalarinnar. Hver listamaður dvelur að minnsta kosti einn mánuð, sinnir sinni list á þann hátt sem hann vill. Margir ferðast um, vinsælast er að fara vítt um Húnavatnssýslur og Skagafjörð og jafnvel víðar. Æ algengara er að listamenn dvelji lengur en í einn mánuð, dæmi er um listamann sem kom í febrúar í vetur og fór í lok maí. Fyrir samfélagið á Skagaströnd eru listamennirnir afar mikilvægir og með rökum má halda því fram að þeir fjölgi íbúum staðarins um 20% miðað við hvert ár. Hægt er að ganga lengra og fullyrða að slíkir ferðamenn séu að minnsta kosti ígildi um 10.000 ferðamanna á ári, miðað við að hver útlendur ferðamaður gistir að meðaltali í 1,8 nætur á Norðurlandi. Enn eru nýjir listamenn boðnir velkomnir til mánaðardvalar á Skagaströnd. Þeir eru: Angela Chong, Singapore Christie Blizard, Bandaríkjunum Eszter Burghardt, Kanada Frances Valesco, Bandaríkjunum Jared Betts, Kanada Kasia Rose Tons, Ástralíu Marla Sweeney, Bandaríkjunum Melody Woodnutt, Ástralíu Valerie Ng, Singapore Ótrúlega margir listamenn hafa komið frá fjarlægum löndum. Í þessum mánuði vill til dæmis svo sérkennilega til að tveir eru frá Singapore og tveir frá Ástralíu.  Þess má geta að Nes listamiðstöð er opin til skoðunar daglega frá kl. 15 til 17.

Kaffihúsið í Bjarmanesi er opið

Nú hefur kaffihúsið í Bjarmanesi verið opnað á ný eftir vetrarhvíld. Vertinn, Steinunn Ósk Óskarsdóttir, er mætt á staðinn og býður alla hjartanlega velkomna í heimsókn Matseðillinn er nýr, segir Steinunn. Geggjuð fjölbreytni og nýungar, en humarsúpan er þó á sínum stað og plokkarinn. Víst er að mörgum léttir við þær fréttir. Við verðum með endalausar uppákomur í allt sumar. Fjöldi tónlistarmanna mun koma og leika. Við verðum með listsýningar. Sú fyrsta er ljósmyndasýning Snorra Gunnarssonar, ljósmyndara. Hann hefur verið starfandi í Kanada undanfarin ár og vakið mikla athygli fyrir frábærar myndir, sjá http://www.snorricv.com/. Einnig eru listmyndir til sölu eftir handsverksfólk og svo má lengi telja.

Ræktum okkar eigið grænmeti

Skagstrendingum stendur nú til boða að nýta sér matjurtagarðar sunnan við íþróttavöllinn.  Svæðinu verður skipt niður í 20-25 fm reiti sem fólk getur fengið til ræktunar.  Garðarnir verða tilbúnir 7. – 11. júní.  Þeir sem hafa áhuga fyrir að fá garð til matjurtaræktar er bent á að sækja um á skrifstofu sveitarfélagsins í síma 455 2700 Sveitarstjóri

Vatnslaust á morgun

Lokað verður fyrir vatnið fimmtudaginn 3. Júní 2010 frá kl. 10:00 og fram undir hádegi. Sveitarstjóri.

Sjómannadagurinn á Skagaströnd á laugardaginn

Sjómannadagurinn verður haldinn hátíðlegur að vanda laugardaginn 5. júní og verður með nokkuð hefðbundnu sniði.   Skrúðganga leggur af stað frá höfninni kl. 10:30 og er gengið til kirkju og þar hefst sjómannamessa kl. 11:00. Kór sjómanna sér um allan söng við athöfnina og herma fréttir að þetta verði allt saman með léttu yfirbragði í tilefni dagsins.  Skemmtisigling verður auðvitað á sínum stað og hefst hún kl 13:15. Allir eru hvattir til að mæta og  fá sér hressandi siglingu með einum af þeim fjölmörgu bátum sem í boði verða.  Að skemmtisiglingu lokinni hefst dagskrá hátíðarhaldana með fallbyssuskoti líkt og gert var á síðasta sjómannadegi. Að því búnu er kappróður og því næst leikir á plani.  Verður margt í boði og má þar nefna kappleiki, þrautir og dans ásamt því að heiðraðir verða tveir sjómenn.  Sjoppan á planinu verður að sjálfsögðu á sínum stað fyrir þá sem ekki geta beðið eftir að kaffisalan opni kl. 15:30 í félagsheimilinu Fellsborg.  Kaffið kostar 1000 kr. fyrir fullorðin en 800 fyrir börn og eldriborgara.  Ungur listamaður að nafni Þórður Indriði Björnsson verður með sýningu á myndum unnum í Photoshop á meðan á kaffisölu stendur.    Rúsínan í pylsuendanum er svo auðvitað stórdansleikur um kvöldið í Fellsborg með Matta og Draugabönunum. Þar verður án efa dúndrandi stuð fram eftir nóttu.  Aðgangseyrir er 2500 kr. og aldurstakmark 16 ár.  Björgunarsveitin Strönd óskar sjómönnum til hamingju með daginn og vonar að allir skemmti sér sem best á þessum hátíðisdegi.

Sumar í Árnesi á Skagaströnd

Árnes er elsta hús Skagastrandar, byggt undir lok 19. aldar. Það hefur nú verið fært í fyrra horf og búið húsgögnum og munum síns tíma. Opnunartími frá 1. júní 2010 eru sem hér segir: Þriðjudaga til föstudaga 16 -18 Laugardaga og sunnudaga 15 - 18  Aðgangur  að Árnesi er ókeypis á opnunartíma. Árnes er einnig spástofa Spákonuarfs og er  þar  hægt að fá lófalestur, spila- og bollaspár  gegn vægu gjaldi.  Minjagripir og ullarvörur til sölu. Opið á öðrum tímum eftir samkomulagi,endilega hafið samband í síma 861-5089. Menningarfélagið  Spákonuarfur.

Innritun í Tónlistarskólann

Innritun fyrir næsta skólaár fer fram sem hér segir:   Skagaströnd miðvikudaginn 26.maí kl: 15-18 Blönduósi fimmtudaginn 27.maí kl: 15-18   Húnavellir við skólaslit 28.maí   Skólastjóri