Mynd vikunnar

Bankastræti Gömul mynd af Bankastræti. Myndin var sennilega tekin upp úr 1940 en óvíst er með hvenær. Næst okkur á myndinni er búið að taka grunn að Höfðaborg (Bankastræti 9). Þar fyrir aftan sést grind að Flankastöðum (Bankastræti 7) og er þetta a.m.k. annað húsið sem byggt var á þessum reit undir Flankastaðanafninu. Þetta er þó ekki húsið sem stendur þarna í dag, það var byggt miklu síðar. Lágreista húsið sem ber yfir grindina að Flankastöðum var Kárastaðir (Bankastræti 5). Seinna var byggð önnur hæð ofan á Kárastaði og enn síðar var það rifið. Enn aftar eða fjær okkur á myndinni standa Draumaland og Dvergasteinn sem bæði eru horfin. Stórholt (Bankastræti 3) er ekki komið en það var byggt 1950 - 51. Lengst til hægri á myndinni er Þórshamar við Skagaveg og síðan Skálholt sem einnig stendur við Skagaveg. Húsið sem stendur vinstra megin við Skálholt, dálítið nær Höfðanum, er Höfðakot. Önnur hús á myndinni eru fjós, hlöður eða hest- eða fjárhús sem tilheyrðu þeim sem bjuggu við Bankastræti. Þó er húsið, sem stendur vinstra megin við grindina að Flankastöðum, sennilega eldra Flankastaðahús sem svo var aflagt með tilkomu hins nýja. Takið eftir að ekki er búið að gera götuna, Bankastræti, eins og við þekkjum í dag. Takið líka eftir fólkinu sem er í heyskap á blettinum neðan við Tjaldklaufina næst okkur á myndinni.

Troskvöld verður 29. mars 2014

Troskvöld Lionsklúbbs Skagastrandar verður 29. mars 2014 í Fellsborg. Húsið opnar með fordrykk kl 20:00 og um kl. 20:30 hefst borðhald. Boðið verður uppá fjöldan allan af sjávarréttum að hætti Gunnars Reynissonar bryta á Arnari HU-1. Undir borðhaldi verður sitthvað um að vera m.a. opin mælendaskrá. Ræðumaður kvöldsins. Miðaverð kr 4000, sama og undanfarin ár, bar á staðnum. Þátttaka tilkynnist til Hjalta V. Reynissonar s: 4522645/8599645 Í síðasta lagi á þriðjudagskvöld 25.mars.

Félagsstarfið fellur niður vegna veðurs.

Félagsstarfið fellur niður í dag vegna veðurs. Kveðja Obba og Ásthildur

Bókasafnið lokað í dag vegna veðurs.

Bókasafnið er lokað í dag vegna veðurs. Kveðja Sigþrúður bókavörður

Skólahaldi aflýst í dag vegna veðurs

Skólahald í Höfðaskóla og leikskólanum Barnabóli fellur niður vegna óveðurs í dag, fimmtudaginn 20. mars. Staðan verður tekin í hádeginu og metið hvort leikskólinn verði opnaður.

Mynd vikunnar

Hvalskurður Þessi mynd var tekin sumarið 1983 af hvalskurði á bryggjunni í Skagastrandarhöfn. Á þessum árum voru tímabundið gerðir út hrefnuveiðibátar frá Skagaströnd af aðkomumönnum sem áttu hrefnukvóta. Þeir drógu síðan hvalskrokkana til hafnar þar sem þeir voru dregnir á land með vörubíl eða gröfu. Síðan var hvalurinn skorinn á bryggjunni og kjöti og spiki komið fyrir í körum sem síðan voru flutt burt til kaupenda. Beinin, bægslin og annað sem ekki nýttist var síðan tekið með um borð og því fleygt í hafið á Húnaflóa fjarri landi.

Stensla og skiltagerðanámskeið í Fellsborg

Farið er yfir litaval og góð ráð gefin um hvernig hægt er að nýta stensla og annað til þess að gera hverja mublu alveg einstaka. Nýjir hlutir geta orðið eins og gamlir munir, fullir af sögu og karakter – og sömu aðferð er hægt að beita á eldri muni líka. Það er víst að hluturinn mun verða að dásamlegustu mublunni á heimilinu. Á námskeiðinu gerir hver þátttakandi tvö skilti með texta og getur valið úr vinsælustu textunum frá Fonts Skiltastærðir: 60x30cmog 40x20cm Hver og einn fær sín eigin áhöld á meðan námskeið stendur yfir: Málning Efni fyrir stensla Timbur fyrir skilti Málningaburstar Taktu með þér eitthvað að heiman sem þér langar að breyta. Svo sem bakka, box, bók, ramma eða skúffu. Þar að auki fá allir að velja sér nokkra stensla til að taka með sér heim og halda áfram að æfa sig. Skráningar sendist á fonts@fonts.is verð 16.900- Eina sem þú þarft að koma með er góða skapið og ímyndunaraflið Námskeið verður haldið föstudaginn 14. Mars kl : 20:00 Félagsheimilinu Fellsborg Sjáumst, Maggý Mýrdal Gsm 697-5455 fonts.is https://www.facebook.com/fontskompany

Umsóknir um námsstyrki

Námsstyrkir Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2014 tók sveitarstjórn Skagastrandar ákvörðun um að veita styrki til nemenda á framhalds- og háskólastigi sem nemur 20 þús. kr. skólaárið 2013-2014 en styrkirnir eru veittir til jöfnunar á námskostnaði fjarri heimabyggð. Umsóknum um styrki skal skilað til skrifstofu sveitarfélagsins og er áður auglýstur umsóknarfrestur framlengdur til 1. apríl 2014. Nemendur á framhalds- og háskólastigi sem eiga lögheimili á Skagaströnd og fullnægja skilyrðum í reglum um styrkina eiga rétt á umræddum námsstyrk frá Sveitarfélaginu Skagaströnd. Nánari upplýsingar veittar á skrifstofu sveitarfélagsins og á heimasíðunni http://www.skagastrond.is/samthykktir.asp og þar má einnig fá/finna umsóknareyðublöð. Aksturstyrkur vegna dreifnáms Jafnframt er framlengdur til frestur til 1. apríl 2014 til að sækja um sérstakan stuðning vegna dreifnáms veturinn 2013-2014. Upplýsingar eru veittir á skrifstofu sveitarfélagsins. Sveitarstjóri

HÁSKÓLADAGURINN

Viltu koma á Háskóladaginn á Akureyri? Háskóladagurinn verður haldinn á Akureyri miðvikudaginn 12. mars kl.11:00-13:30 Þar mæta allir háskólar landsins og kynna námsframboð sitt. Fjölmargar ólíkar námsleiðir eru í boði! Þekkingarsetur á Blönduósi stendur fyrir sætaferðum á Háskóladaginn (verð á mann kr. 1000). Nánari upplýsingar og skráning í tölvupósti á netfangið tsb@tsb.is eigi síðar en 10. mars.

Mynd vikunnar

Síldarlöndun úr Húna HU-1 - Síldarlöndun á Skagaströnd úr Húna HU-1. Þessi mynd var líklega tekin rétt fyrir 1960 og sýnir Húna með fullfermi við löndunar- bryggjuna á Skagaströnd. Utan á Húna er svo nótabáturinn með síldarnótinni um borð. Á þessum árum var síldarnótin lögð úr nótabátnum og síðan fóru karlarnir um borð í hann og drógu hana inn í bátinn með handafli. Hluti nótarinnar var fastur við Húna og þegar karlarnir í nótabátnum voru búnir að draga nógu mikið af henni inn þá hafði síldin í nótinni safnast saman í þétta torfu við hlið bátsins. Þá var háfnum, sem sést fremst á dekkinu á Húna bakborðsmegin, sökkt í torfuna og síldin þannig háfuð um borð. Eftir að lestin var orðin full var háfað í stíur á dekkinu og gjarnan voru síldarbátar á þessum árum með "merar" á lunningunum. Það voru trégrindur sem settar voru ofan á lunningarnar til að hægt væri að koma meiri síld um borð. Eftir í land var komið og síldin var nógu góð til að salta hana tók við mikill þrældómur hjá sjómönnunum við að landa henni. Við það verk voru notaðir handháfar og mokað með þeim í velti - tunnu eins og sést á myndinni. Tunnan var svo hífð í land og sturtað úr henni í handvagn eins og er á bryggjunni. Vagninum var síðan ekið með handafli að síldakössunum þar sem síldarstúlkurnar biðu óþolinmóðar eftir síldinni. Trégöngubrautin sem sést ofan á síldinni var lögð ofan á síldina og milligerðin í stíunum til að síldin merðist síður þegar gengið var um skipið. Húni HU-1 var smíðaður í Austur Þýskalandi 1957 og var 75 brl. og kom nýr til Skagastrandar í október það ár. Hann var síðan seldur frá Skagaströnd 1965 og fórst 2. mars 1976 með átta manna áhöfn en hét þá Hafrún ÁR. (Heimild: Sjósókn frá Skagaströnd & vélbátaskrá 1908 - 2010 eftir Lárus Ægi Guðmundsson)