BioPol og HA undirrita samstarfssamning

Nýsköpunar- og sprotafyrirtækið BioPol ehf. á Skagaströnd og Háskólinn á Akureyri hafa með góðum árangri starfað saman í sex ár við rannsóknir í sjávarlíftækni. Stefán B. Sigurðsson rektor Háskólans á Akureyri heimsótti sjávarlíftæknisetrið BioPol á Skagaströnd 6. febrúar til að endurnýja samstarfssamning stofnananna tveggja. Fyrri samningur var gerður 2007 og var til fimm ára. Því var ástæða til að skrifa undir nýjan samning í ljósi mikillar ánægju beggja aðila með samstarfið Sjávarlíftæknisetrið BioPol sem stofnað var á Skagaströnd í september 2007 hefur unnið að fjölbreyttum verkefnum sem meðal annars hafa miðað að því að kortleggja vannýtt tækifæri, til verðmætasköpunar, innan íslensks sjávarútvegs. Í dag starfa hjá félaginu átta vel menntaðir starfsmenn með fjölbreyttan bakgrunn. Á starfstíma félagsins hefur verið byggð upp fullkomin rannsóknaaðstaða. Háskólinn á Akureyri hefur boðið upp á meistaranám í sjávarútvegs og auðlindafræðum. Kennsla í sjávarútvegsfræði hefur frá upphafi farið fram í samstarfi við innlend sjávarútvegsfyrirtæki og fyrirtæki í tengdum greinum og þeirra á meðal er BioPol á Skagaströnd. Mikil ánægja hefur verið meðal forráðamanna og starfsmanna BioPol ehf. með samstarfið við Háskólann og sú ánægja er gagnkvæm. Í ljósi hefur nú verið gerður nýr samningur um áframhaldandi samstarf og fjallar hann einkum um rannsóknir og tækniþróun á sviði sjávarlíftækni, matvælafræði og tengdra sviða. Í því felst m.a. að skilgreina ný rannsóknaverkefni en helsti styrkleiki samstarfsins byggir á samlegð mismunandi sérfræðiþekkingar og meiri líkum á árangri með stærri rannsókna- og þróunarverkefnum. Sameiginlega markmið beggja er að að nýta sem best sérþekkingu þá sem samningsaðilar búa yfir auk þess sem samningnum er ætlað að bæta aðgengi vísindamanna og nemenda HA að sérfræðiþekkingu og aðstöðu BioPol og aðgengi sérfræðinga BioPol að sérfræðingum HA og aðstöðu. Í stjórn BioPol sitja fimm stjórnarmenn og þar af einn frá HA. Með þeim hætti leggur HA til verkefnisstjóra með þekkingu á sjávarlíftækni, hagnýtri örverufræði, vinnslutækni matvæla, nýsköpun og atvinnuþróun. Starfsstöð hans er við Háskólann á Akureyri en verkefnið er fyrst og fremst mótun faglegra áherslna samstarfsins og utanumhald rannsóknarverkefna. Allt frá stofnun BioPol hefur Dr. Hjörleifur Einarsson prófessor við HA sinnt þessu hlutverki. Samningurinn tilgreinir jafnframt að HA. heldur úti stöðu sérfræðings sem staðsettur er hjá BioPol á Skagaströnd en staðan er tilkomin vegna vinnu svokallaðar NV nefndar sem starfaði fyrir Forsætisráðuneytið árið 2008. Í dag er það Dr. Magnús Örn Stefánsson sem starfar undir merkjum háskólans hjá BioPol. Meginviðfangsefni Magnúsar hafa verið rannsóknir á frumverur með hagnýtingu og frekari atvinnuuppbyggingu í huga. Ný rannsóknaaðstaða Í tengslum við heimsókn háskólarektors var jafnframt tekin í notkun, með formlegum hætti, glæsileg viðbót við rannsóknaaðstöðu BioPol ehf. Við það tækifæri klipptu Stefán B. Sigurðsson háskólarektor og Adolf H. Berndsen stjórnarformaður BioPol á borða við inngang nýju rannsóknastofunnar. Um er að ræða aðstöðu sem sérstaklega hönnuð með það fyrir augum að geta unnið með frumuræktir við „sterilar“ aðstæður. Frekari upplýsingar veita: Halldór G. Ólafsson framkvæmdastjóri BioPol ehf. Sími 896-7977 Dr. Hjörleifur Einarsson Prófessor við Háskólann á Akureyri Sími: 460-8502

Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar miðvikudaginn 5. febrúar 2014 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800. Dagskrá: Samþykktir um stjórn og fundarsköp sveitarstjórnar Greinargerð starfshóps um ferðaþjónustu Fræðslumál: Fundargerð fræðslunefndar Staða og horfur í fræðslumálum Vinabæjamót 2014 Útsvarstekjur vegna séreignasparnaðar 2009-2014 Bréf Saman hópsins, dags. 30. janúar 2014 Forseta ASÍ, dags. 13. janúar 2014 Bæjarstjóra Blönduóssbæjar, dags. 28. janúar 2014 Tæknideildar Sveitarfélagsins Skagafjarðar, dags. 16. janúar 2014 Fundargerðir: Stjórnar Byggðasamlags um menningu og atv.mál, 25.11.2013 Stofnfundar byggðasamlags um málefni fatlaðs fólks, 29.01.2014 Heilbrigðisnefndar Nl. vestra, 7.01.2014 Stjórnar Hafnasambands Íslands, 17.01.2014 Stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, 13.12.2013 Önnur mál Sveitarstjóri

Mynd vikunnar

Rjúpnafell. Þetta hús er ekki til lengur. Húsið hét Rjúpnafell og stóð á sjávarbakkanum um það bil miðja vegu milli Hrafnár og Grundar. Guðberg Stefánsson frá Kambakoti byggði húsið upp úr 1950 og bjó þar til 1990 er hann fluttist í Sæborg. Guðberg var fæddur 27. júlí 1909 en dó 15. september 1991. Hann giftist aldrei og var barnlaus en lengi hafði hann hjá sér ráðskonu, Þóru Frímannsdóttur, sem var ekkja og hafði hún fósturson sinn, Eðvarð Ragnarsson, með sér í vistina. Sá Guðberg til þess að heimilið skorti aldrei það sem til þurfti og var þeim mæðginum afar góður. Manna á meðal gekk Guðberg undir nafninu Bergur sterki enda annálaður fyrir hreysti sína og þrek. Eru sagðar margar sögur af afrekum hans á þeim sviðum sem styrks og úthalds var krafist. Sjálfur hafi Bergur gaman af að segja sögur af styrk sínum og afrekum á sviði veiðiskapar en hann var veiðmaður af guðs náð og vílaði ekki fyrir sér að ganga langar leiðir og í langan tíma til að komast að bráð sinni, sem oftast var rjúpa eða tófa. Bergur sterki var einfari að mörgu leyti og hnýtti ekki alltaf sína hnúta á sama hátt og samferðamennirnir en var tryggur vinur og trúr þeim verkum sem hann tók að sér.

Álagning fasteignagjalda á Skagaströnd 2014

Tilkynning til fasteignaeigenda á Skagaströnd Álagning fasteignagjalda hefur nú farið fram. Álagningarreglur fasteignagjalda 2014 eru prentaðar á baksíðu þessarar auglýsingar en eru einnig aðgengilegar á heimasíðunni www.skagastrond.is – undir „gjaldskrár“. Greiðslur fasteignagjalda: Eins og undanfarin ár verða ekki sendir greiðsluseðlar vegna fasteignagjalda nema til þeirra sem þess hafa óskað sérstaklega og gildir skráning þeirra sem þess óskuðu 2012 og 2013 nema nýjar upplýsingar komi fram. Gjalddagar fasteignagjalda eru frá 1. febrúar til 1. júlí, en á smærri upphæðum eru gjalddagar 1 eða 2. (Gjalddagar á 0-5.000 kr. er 1.apríl og 5.001-10.000 skiptist í tvo gjalddaga 1. apríl og 1. maí). Álagningaseðlar: Eins og við álagningu 2013 eru ekki sendir út álagningarseðlar nema til þeirra sem sérstaklega óska eftir því. Hver og einn getur nálgast sína álagningarseðla á vefsíðunni www.island.is. Undir reitnum „mínar síður“ birtist þessi skjámynd: Innskráning er með kennitölu viðkomandi og veflykli ríkisskattstjóra. Þar er að finna „pósthólf“ og þar opnast skjalalisti þar sem m.a. álagningin er. Skrifstofa sveitarfélagsins veitir fúslega upplýsingar og aðstoð til þeirra sem þess óska. Skagaströnd 29. janúar 2014 Sveitarstjóri

Mynd vikunnar

Séra Pétur og Dómhildur Séra Pétur Þ. Ingjaldsson ( f. 11. janúar 1911 - d.1. júní 1996 ) þjónaði sem prestur á Skagaströnd í 41 ár. Pétur var afar farsæll í öllum störfum sínum, maður vinsæll og eftirminnilegur öllum þeim er honum kynntust. Hann hóf prestsskap sem sóknarprestur að Höskuldsstöðum 1941, en þá heyrði sóknin á Skagaströnd undir Höskuldsstaði. Pétur flutti til Skagastrandar á sjötta áratugnum og bjó lengi í Höfða en seinna að Hólabraut 1, sem þá var prestbústaður á Skagaströnd. Prófastur varð Pétur 1967 og var stuttu seinna kjörinn á kirkjuþing þar sem hann starfaði þar til hann hætt prestskap. Séra Pétur giftist Dómhildi Jónsdóttur (f. 22. mars 1926 - d. 18. nóvember 2012 ) húsmæðrakennara frá Akureyri eftir að hann var kominn á miðjan aldur og eignuðust þau hjón tvo drengi; Jón Hall og Pétur Ingjald. Eftir að séra Pétur lést starfaði Dómhildur sem safnaðarsystir í Hallgrímskirkju og sá þar um félagsstarf aldraðra. Var Dómhildur kraftmikil og vinsæl kona sem lét sig mjög varða málefni þeirra sem höllum fæti stóðu í þjóðfélaginu bæði meðan þau hjón bjuggu á Skagaströnd og einnig eftir að hún flutti suður. Síðustu æviárum sínum eyddi Dómhildur í Hnitbjörgum á Blönduósi. Í minningargrein sem herra Sigurbjörn Einarsson biskup skrifaði um vin sinn og skólabróður, séra Pétur Ingjaldsson eru eftirfarandi orð sem þeir sem þekktu Pétur geta heilshugar tekið undir: " Þegar sr. Pétur Ingjaldsson lagði út í prestsskapinn hafði hann ekki háar hugmyndir um sjálfan sig. Það er mér kunnugt um. En hann var ráðinn í því að vera Guði sínum og kirkju hollur og trúr í vandasömu starfi. Því áformi hefur hann ekki brugðist. Hann barst aldrei á í neinu. En það fundu allir, að hann var heil persóna, að á bak við orð og gerðir var ósvikin lund, falslaust, gott hjarta. Öllum þótti gott að leita til hans um ráð í einkamálum og um stuðning við almenn nytjamál. Hann var samningamaður góður, laginn á að finna þá fleti á málum, að menn gátu rætt þau í nýjum anda og fundið samleið til lausnar. Farsæla vitsmuni hans studdi það skopskyn, sem hann var svo ríkulega gæddur, og fyrst og fremst góðvildin, sem stjórnaði öllum viðhorfum til manna og málefna........"

Mynd vikunnar

Gjafmildi. Í febrúar 1993 afhentu krakkar í þáverandi 5.og 6. bekk í Höfðaskóla sóknarprestinum séra Agli Hallgrímssyni sitt framlag til hjálparstofnunar kirkjunnar. Peningum höfðu krakkarnir meðal annars safnað með velheppnuðu áheitasundi um haustið. Frá vinstri: Davíð Bragi Björgvinsson, Ragna Hrafnhildur Magnúsdóttir, Ásdís Lýðasdóttir, Sveinþór Ari Arason (fjær), Þóra Lísebet Gestsdóttir, Karen Peta Karlsdóttir (nær), Andri Þór Ómarsson, Bæring Jón Skarphéðinsson og Hafsteinn Björnssoní fremstu röðinni og Kristrún Linda Jónasdóttir á milli þeirra. Elva Dröfn Árnadóttir er í köflóttri skyrtu en Sigrún Líndal Þrastardóttir og Heiðrún Ósk Níelsdóttir eru hægra megin við hana. Séra Egill Hallgrímsson stendur með gjafabréfið í höndunum og við hlið hans er Unnur Kristjánsdóttir kennari krakkanna. Framan við þau eru frá vinstri: Ólafur Guðmundson, Birna Ágústsdóttir, Elvar Arinbjörn Grétarsson og Sverrir Brynjar Berndsen. Í dag, 16. janúar 2014, þegar þessi mynd er birt búa einungis tvö barnanna enn á Skagaströnd. Getur þú áttað þig á hver þau eru?

Fundagerðarbækur Umf. FRAM

Fundagerðarbækur Ungmennafélagsins Fram tímabilið 1926 – 1970 eru einhversstaðar í felum. Þær voru allar vísar þegar 50 ára saga félagsins var skráð árið 1976. Eftir það virðast þær hafa lagst afar kirfilega til hliðar á einhverjum ótilgreindum stað. Búið er að leita mikið en þær finnast ekki. Hér með er auglýst eftir hvort einhver viti hvar þær er að finna og ef svo er að hafa þá samband við Lárus Æ.Guðmunds. í síma 864 7444.

Frístundakort og námsstyrkir

Stuðningur við tómstundastarf og nám Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2014 tók sveitarstjórn Skagastrandar ákvörðun um eftirfarandi almennan stuðning við tómstundastarf og nám: Frístundakort Samþykkt var að bjóða frístundakort sem nemi allt að 15 þúsund króna styrk fyrir hvert grunnskólabarn sem tekur þátt í íþrótta og æskulýðsstarfi. Ákvörðun gildir um íþrótta- og æskulýðsstarf sem fram fer á tímabilinu 1. janúar til 31. desember 2013. Frístundakortin ná til starfsemi íþróttafélaga auk hverskonar skipulagðs félags- og tómstundastarfs sem stendur í sex vikur eða lengur og greitt er fyrir með þátttökugjaldi. Þar að auki gildir kortið fyrir aðra tómstundaiðkun, s.s. tónlistar- og listnám. Síðasti greiðsludagur vegna tímabilsins er 15. janúar 2015. Til að fá endurgreiðslu vegna frístundastarfs þarf að framvísa á skrifstofu sveitarfélagsins greiðslukvittun sem sýnir fyrir hvaða frístundastarf er greitt og fyrir hvaða barn. Námsstyrkir Samþykkt var að veita styrki til nemenda á framhalds- og háskólastigi sem nemur 20 þús. kr. skólaárið 2013-2014 en styrkirnir eru veittir til jöfnunar á námskostnaði fjarri heimabyggð. Umsóknum um styrki skal skilað til skrifstofu sveitarfélagsins fyrir 28. febrúar 2014. Nemendur á framhalds- og háskólastigi sem eiga lögheimili á Skagaströnd og fullnægja skilyrðum í reglum um styrkina eiga rétt á umræddum námsstyrk frá Sveitarfélaginu Skagaströnd. Nánari upplýsingar veittar á skrifstofu sveitarfélagsins og á heimasíðunni http://www.skagastrond.is/samthykktir.asp og þar má einnig fá/finna umsóknareyðublöð. Sveitarstjóri

Mynd vikunnar

Gjafafatnaður. Kvenfélagskonur í Einingu hafa komið víða við. Á þessari mynd eru þrjár þeirra með bunka af ullarnærfatnaði, sokkum og vettlingum, sem Eining gaf um borð í báta og togara, sem gerðir voru út frá Skagaströnd. Fatnaðurinn var hugsaður sem neyðarfatnaður ef eitthvað kæmi fyrir um borð. Það að gefa slíkan fatnað um borð í skip frá Skagaströnd fór ekki hátt enda hafa kvenfélagskonur oftar en ekki starfað "bak við tjöldin" og ekki barið sér á brjóst vegna ýmissa líknar- og mannúðarstarfa sem þær hafa sinnt í gegnum árin. Á myndinni, sem tekin var í Höfðaskóla, eru frá vinstri: Dómhildur Jónsdóttir (d. 18.10.2012) prestsfrú á Skagaströnd, María Konráðsdóttir (d. 9.8.2003) úr Sænska húsinu og Soffía Sigurðardóttir (d. 24.10.2002) frá Sæbóli (áður Njálsstöðum). Allar voru þessar konur ötular í kvenfélaginu á sinni tíð.

Kveðja til viðskiptavina happdrættis SÍBS á Skagaströnd.

Þar sem ég hef nú látið af störfum sem umboðsmaður Happdrættis SÍBS, vil ég þakka hinum fjölmörgu viðskiptavinum ánægjulegt samstarf síðan 1998. Viðskiptavinum er bent á að snúa sér til aðalumboðs í síma 552-2150. Kær kveðja, Guðrún Pálsdóttir, Bogabraut 27 Skagaströnd