11.01.2019
Erla Jónsdóttir opnaði bókhalds- og rekstrarráðgjafafyrirtæki sitt, Lausnamið, formlega 10. janúar 2019. Í tilefni af því bauð hún gestum og gangandi í heimsókn í Gamla kaupfélagið til að skoða fyrirtækið og þiggja léttar veitingar. Rúmlega 70 manns þáðu boðið og fögnuðu með þeim Erlu og Sigríði Gestsdóttur þessum spennandi tímamótum. Það er alltaf mikið gleðiefni þegar ný fyrirtæki verða til á Skagaströnd. Það sýnir að fólk hefur trú á bænum okkar og er til í að grípa þau tækifæri sem bjóðast til að fjölga stoðunum undir atvinnulífið á staðnum. Um leið og við óskum Erlu allra heilla með Lausnamið vonum við að fyrirtækið eigi eftir að vaxa og dafna í framtíðinni.
11.01.2019
Reyklaus framtíð
Tóbaksvarnaráð Íslands hélt samkeppni í nokkur ár meðal 8. bekkinga
á landinu um besta áróðurefnið gegn tóbaksreykingum.
8. bekkir Höfðaskóla sigruðu tvisvar í þessari keppni en verðlaunin voru vikuferð til Danmerkur.
Þessir nemendur sigruðu árið 2001 með áróðursspjöldum og bæklingi sem borinn var í hús
á Skagaströnd. Krakkarnir fóru síðan í skemmtilega ferð til Danmerkur í framhaldinu.
Krakkarnir eru, frá vinstri: Ásdís Adda Ólafsdóttir, Hanna Rúna Gestsdóttir,
Rósa Björk Blöndal Einarsdóttir, Katrín Inga Hólmsteinsdóttir, Albert Ingi Haraldsson,
Jóna Gréta Guðmundsdóttir, Friðvin Ingi Ernstsson, Eyþór Kári Egilsson,
Björn Viðar Jóhannsson, Sindri Njáll Hafþórsson og Kristinn Andri Hjálmtýsson.
09.01.2019
Vegna framkvæmda í biðsofu og móttöku heilsugæslunnar þarf að loka A inngangi um tíma, frá og með 10/1 2019. Inngangur í Lyfju verðu þó óbreyttur.
Þeir sem koma á heilsugæsluna á dagvinnutíma ganga inn um innganginn sem snýr að Svínvetningabraut, SV á byggingunni við hliðina á sjúkrabílainnkeyrslunni. Þeir sem leita til heilsugæslunnar utan dagvinnutíma koma inn í samráði við vaktlækni.
Þeim sem koma í sjúkraþjálfun er bent á að nota B inngang og taka lyftuna þar niður í kjallara.
Heimsóknargestir og aðrir sem erindi eiga í húsið noti B inngang.
Beðist er afsökunar á þeim óþægindum sem þetta kanna að valda en vonum að þau verði sem minnst.
08.01.2019
Byrjum aftur eftir jólafrí fimmtudaginn 10. jan.
Starfið er frá kl. 14:00- 17:00
Allir öryrkjar og 60 ára og eldri eru velkomnir, gaman væri nú ef fleiri vildu koma og taka þátt í starfinu með okkur.
Það sem við gerum okkur til skemmtunar er prjónaskapur, saumum bæði út og á ssaumavélar, málum á keramik, gler/krukkur, mosaik,spilum og síðast en ekki síst þá spjöllum við og höfum gaman.
Við höfum farið í smá ferðalag á vorin og jafnvel yfir veturinn.
Það er líka hægt að kíkja í kaffisopa og spjall.
Vonumst til að fleiri komi og njóti samverunnar með okkur.
Kveðja Obba og Ásthildur
04.01.2019
Álagning fasteignagjalda fyrir árið 2019
Samþykkt á fundi sveitarstjórnar Skagastrandar 18. desember 2018
Fasteignagjöld
Fasteignaskattur:
Álagning á íbúðarhúsnæði (A-flokkur) verði 0,48% af álagningarstofni.
Álagning á opinberar stofnanir (B-flokkur) verði 1,32% af álagningastofni.
Álagning á verslunar- og atvinnuhúsnæði verði (C-flokkur) 1,65% af álagningarstofni.
Lóðarleiga: Lóðarleiga verði 1,65% af fasteignamatsverði lóða.
Vatnsskattur:
Vatnsskattur verði 0,3% af fasteignamati að lágmark 7.260 kr. og á íbúðarhúsnæði að hámarki 36.300 kr.
Holræsagjald: Holræsagjald verði 0,24% af fasteignamati lóða og mannvirkja
Sorphirðugjald /sorpeyðingargjald:
Sorphirðugjald verði 44.151 kr./íbúð fyrir reglubundna sorphirðu og eyðingu. .
Sorpeyðingargjald verði 13.913 kr./sumarhús og íbúðir þar sem ekki er regluleg sorphirða.
Sorpeyðingargjald á hesthús og fjárhús verði 4.937 kr./hús í notkun.
Sorpeyðingargjöld á fyrirtæki verða samkvæmt gjaldskrá.
Leiga ræktunarlóða: Fyrir hvern ha ræktunarlóða er greitt fast leigugjald. Auk þess greiða lóðarhafar fasteignagjöld af lóðunum skv. fasteignamati.
Lóðaleiga verði 7.260 kr./ha.
Eftirfarandi reglur gilda umlækkun fasteignagjalda elli- og örorkulífeyrisþega:
Fasteignagjöld verða eingöngu lækkuð af íbúðum elli- og örorkulífeyrisþega, sem þeir búa í sjálfir. Til viðmiðunar eru allar tekjur viðkomandi, þar með taldar fjármagnstekjur.
Fasteignagjöld lækki um allt að kr. 40.000,- hjá:
• Einstaklingum með tekjur allt að 3.587.000 kr/ári
• Hjónum eða fólki í sambúð með tekjur allt að 5.862.000 kr/ári
Fasteignagjöld lækki um allt að kr. 20.000,- hjá:
• Einstaklingum með tekjur allt að 4.483.000 kr/ári
• Hjónum eða fólki í sambúð með tekjur allt að 7.327.000 kr/ári
Sveitarstjóri
04.01.2019
Snjómokstur
Um árabil var skíðalyfta rekin í suðurhlíðum Spákonufells.
Umhirða lyftunnar og að halda henni opinni var í höndum skíðadeildar
umf Fram en í deildinni voru áhugamenn um skíðamennsku.
Stundum kom fyrir að það snjóaði það mikið að vír lyftunnar
snjóaði á kaf og þá var ekki um annað að ræða en að moka hann upp
með handafli svo hægt væri að opna lyftuna.
Þessi mynd var tekin í einu af þessum tilvikum.
Her manns er að moka upp vírinn en oftar en ekki þurfti að moka
mannhæðardjúpt eftir vírnum þar sem dýpst var.
Þá var ekki nóg að moka einn skurð heldur þurfti að moka tvo,
annars vegar vírinn á leið upp og hins vegar vírinn á leið niður.
Á þessari mynd má þekkja Ingiberg Guðmundsson næst okkur og
Magnús B. Jónsson næst honum en aðrir á myndinni eru óþekktir.
02.01.2019
Við hátíðamessu í Hólaneskirkju á Skagaströnd á aðfangadagskvöld var vígt og tekið í notkun nýtt orgel í kirkjunni. Það var sóknarpresturinn, Bryndís Valbjarnardóttir, sem vígði orgelið og Sigríður Gestsdóttir, fyrir hönd sóknarnefndar, afhenti Hugrúnu Sif Hallgrímsdóttur, organista og kórstjóra, lyklana að nýja orgelinu.
Orgelið er úr ljósri eik af gerðinni AHLBORN ORGANUM III og er þýskt en að mestu leiti framleitt á Ítalíu samkvæmt staðli, BDO, sem eru samtök þýskra orgelsmiða og hefur það hlotið sérstaka viðurkenningu fagaðila.
Orgelið er 57 sjálfstæðar raddir sem deilast á þrjú nótnaborð og fótspil en að auki eru 128 aukaraddir sem hægt er að sækja og skipta út í stað aðalraddanna. Þessi möguleiki eykur fjölbreytni orgelsins mikið. Raddirnar eru teknar upp í stafrænu formi úr góðum pípuorgelum og síðan endurspilaðar aftur í stafrænu formi þegar leikið er á orgelið og þannig næst fallegur pípuorgelhljómur úr orgelinu.
Orgelið kostaði rúmlega 3 milljónir króna og er að fullu greitt með fjórum minningargjöfum sem bárust kirkjunni í desember mánuði. Við athöfnina þakkaði Sóknarnefnd Hólaneskirkju gefendum innilega fyrir höfðinglegar gjafir og þann mikla hlýhug og velvilja sem þau sýna kirkjunni og því starfi sem þar fer fram.
28.12.2018
Fyrirkomulag áramótabrennu og blysfarar verður með svipuðu sniði og undanfarin ár. Brennan verður staðsett við Snorraberg (vegamót Vetrarbrautar og Ásvegs) og leggur blysförin af stað frá félagsheimilinu Fellsborg.
Lagt verður af stað frá Fellsborg kl 20:30 og kveikt verður í brennunni um kl 20:45. Þegar góður eldur er kominn í bálköstinn sjáum við glæsilega flugeldasýningu sem styrkt hefur verin af fyrirtækjum bæjarins.
Þökkum stuðninginn og með von um góða þáttöku.
Björgunarsveitin Strönd og Ungmennafélagið Fram
28.12.2018
Flugeldasala Björgnarsveitarinnar Strandar og Umf. Fram verður í ár að Oddagötu 4 í húsnæði Rauðakrossins. Opnunartímar verða sem hér segir:
Föstudaginn 28. des kl. 20-22
Laugardaginn 29. des kl 16-22
Sunnudaginn 30. des kl 16-23
Mánudaginn 31. des kl. 11-15
ATH!! Börn yngri en 12 ára fá ekki afgreiðslu nema í fylgd með fullorðnum og unglingar yngri en 16 ára fá ekki afgreidda skotelda.
Þökkum stuðninginn og með von um góða þáttöku.
Björgunarsveitin Strönd og Ungmennafélagið Fram
28.12.2018
Gleðilegt ár 2019
Ljósmyndasafnið óskar öllum gleðiríks góðs nýs árs um leið og það
þakkar alla hjálp á árinu 2018. Safnið óskar allaf eftir að fá að láni
myndir sem fólk á heima hjá sér og tengjast Skagaströnd á einn eða
annan hátt. Öllum myndum er skilvíslega skilað aftur til eigenda sinna
eftir að þær hafa verið skannaðar og settar út á netið.
Ljósmyndasafnið er jú sameign okkar allra og því fleiri myndir sem
þar eru því skemmtilegra verður það.
Þar eru nú aðgengilegar um 13.500 myndir sem allar tengjast
Skagaströnd á einn eða annan hátt.
Lifið heil.