BioPol fékk hvatningarverðlaun SSNV
06.12.2012
Fréttatilkynning
Hvatningarverðlaun SSNV - atvinnuþróunar árið 2012 til sjávarlíftæknisetursins BioPolá Skagaströnd
Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) veitir árlega hvatningarverðlaun til fyrirtækis á starfssvæði samtakanna. Hvatningarverðlaun SSNV – atvinnuþróunar hafa verið veitt frá árinu 1999 og eru þau í senn hvatning til áframhaldandi starfsemi og viðurkenning fyrir góðan árangur. Markmið verðlaunanna er að hvetja til nýsköpunar og þróunar og vekja athygli á því sem vel er gert á Norðurlandi vestra.
Að þessu sinni er það sjávarlíftæknisetrið BioPolá Skagaströnd sem hlýtur verðlaunin vegna þess dugnaðar og framsýni sem stjórnendur hafa sýnt við uppbyggingu fyrirtækisins.
Sjávarlíftæknisetrið BioPol
Fyrirtækið var stofnað árið 2007 af Sveitarfélaginu Skagaströnd. Markmiðið með stofnun fyrirtækisins var að koma á fót þekkingarsetri þar sem rannsóknir á lífríki hafsins og hagnýting staðbundinna auðlinda úr Húnaflóa væru í forgrunni. Fyrirtækið hefur nú þegar skapað sér nokkra sérstöðu með rannsóknarverkefnum, m.a á útbreiðslu grásleppu hér við land, hagnýtingu svifþörunga til eldsneytisframleiðslu, kortlagningu og lífríkisrannsóknum á ræktunarstöðum fyrir krækling og nýtingu ígulkera til manneldis, svo eitthvað sé nefnt.
Stefna fyrirtækisins er að BioPol muni á næstu árum ná að byggja upp nauðsynlega færni til þessað fyrirtæki og sjóðir telji fýsilegt að fjárfesta enn frekar í rannsóknum og þróun á sviði sjávarlíftækni. Þess er vænst að rannsóknarniðurstöður fyrirtækisins „leiti út á markað“ sem í framhaldinu leiði til stofnunar sprotafyrirtæki sem hefji framleiðslu á vörum til neytenda eða til áframhaldandi vinnslu. Þá er þess vænst að setrið stuðli að eflingu samkeppnishæfni Íslands varðandi nýtingu verðmæta úr sjó og sjávarfangi.
Árið 2010 tók fyrirtækið í notkun nýja og vel útbúna rannsóknastofu þar sem hægt er að vinna flestar þær rannsóknir sem í gangi eru. Hjá fyrirtækinu starfa nú níumanns, flestir háskólamenntaðir, í margvíslegum sjávarrannsóknum.
Verðlaunagripurinn.
Hefð er fyrir því að verðlaunagripurinn fyrir hvatningaverðlaunin sé unninn af listamanni á svæðinu. Að þessu sinni er það Erlendur F. Magnússon, listamaður á Blönduósi, sem hannar og smíðar gripinn. Erlendur er lærður húsasmiður en var einnig við nám í Handíða- og myndlistaskóla Íslands og hefur tekið þátt í nokkrum sýningum. Hann sinnti kennslu um árabil og var frumkvöðull að skákkennslu í grunnskólum.
Frá árinu 1984 hefur Erlendur unnið við fjölbreytt hönnunar-, útskurðar- og sérsmíðaverkefni á eigin verkstæði og við hönnun og byggingu húsa víða um land. Helstu verkefni hans eru: Safnahús, hótel og fl. við Geysi í Haukadal, Fjörukráin í Hafnarfirði, Eden í Hveragerði, Ásgarður við Hvolsvöll og Ingólfsskáli í Ölfusi. Þá hefur hann unnið við endurbætur gamalla húsa og fundið þeim nýtt hlutverk til framtíðar.
Hvatningarverðlaun SSNV hafa áður verið veitt eftirtöldum aðilum:
Árið 2011 – Hlíðarkaup á Sauðárkróki.
Árið 2010 – Ferðaþjónustan á Brekkulæk í Miðfirði
Árið 2009 – Léttitækni ehf á Blönduósi.
Árið 2008 – Sjávarleður hf á Sauðárkróki.
Árið 2007 - Siglufjarðar Seigur – bátasmiðja.
Árið 2006 - Forsvar ehf á Hvammstanga.
Árið 2004 - Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi.
Árið 2003 - Háskólinn á Hólum.
Árið 2002 - Síldarminjasafnið á Siglufirði.
Árið 2001 - Hestamiðstöðin Gauksmýri.
Árið 2000 - Vesturfarasetrið á Hofsósi.
Árið 1999 - Kántrýbær á Skagaströnd.
Nánari upplýsingar veitir Jón Óskar Pétursson framkvæmdastjóri SSNV í síma 4552510