Lagning hitakerfis í leikskólann Barnaból

Framkvæmdir eru hafnar við að leggja vatnshitunarkerfi í leikskólann Barnaból. Hann hefur verið hitaður með rafmagnsþilofnum og neysluvatn hitað í tveimur rafmagnshitakútum. Auk þess að leggja nýtt hitakerfi í húsið verður neysluvatnskerfið endurnýjað. Vegna lagningar hitaveitu um Skagaströnd í sumar eru framkvæmdir hafnar við fyrrgreinda breytingu sem er í raun byrjun á að breyta eignum sveitarfélagsins í þeim tilgangi að tengjast hitaveitunni. Framkvæmdin er ekki einföld þar sem leikskólinn er byggður í tveimur byggingaráföngum og í fullri starfsemi alla virka daga. Verkið er því að mestu unnið utan dagvinnumarka. Þar sem tenging við hitaveitu verður ekki í boði fyrr en næsta haust verður að halda rafhitunarbúnaði þar til tenging getur farið fram. Samið var við Vélaverkstæði Skagastrandar um pípulagnirnar en pípulagnameistari að verkinu er Steinar Þórisson. Framundan eru svo breytingar á öðrum fasteignum sveitarfélagsins sem hafa verið hitaðar með sama hætti og leikskólinn. Sveitarfélagið á 11 íbúðir sem eru í dag hitaðar með rafmagnsþilofnum og auk þess eru nokkrar aðrar byggingar með þeim hitunarbúnaði.

Grímuball

Á öskudaginn verður grímuball í Fellsborg. Hefst skemmtunin klukkan 16:00 og verður með fremur hefðbundnu sniði. Aðgangseyrir er 300 krónur fyrir þá sem mæta í öskudagsbúningi en 500 krónur fyrir aðra. Komi þrjú eða fleiri börn frá heimili er aðeins greitt fyrir tvö. Á staðnum verða seldir drykkir og eitthvert góðgæti. Skólafélagið Rán

Vinnustofa um notkun upplýsingatækni í kennslu.

Miðvikudaginn 6. Febrúar var haldin, á vegum grunnskóla Húnavatnssýslna, mjög áhugaverð og gagnleg vinnustofa um notkun upplýsingatækni í kennslu. Í stefnumótunarskjali menntamálaráðuneytisins segir: „Allir skulu hafa tækifæri til að tileinka sér nauðsynlega færni og taka á eigin forsendum þátt í samfélagi upplýsinga og þekkingar“. Í skjalinu segir einnig að „kennarar verði að fá haldgóða kennslu og þjálfun í að nota upplýsingatækni við úrlausnir hvers kyns verkefna“. Kennari þarf ekki aðeins að ná tökum á grunnvallaratriðum upplýsingatækninnar og öðlast þar ákveðan færni, heldur þarf hann einnig að geta beitt tækninni markvisst í kennslu. Til að svo megi vera er nauðsynlegt að kennarinn hafi góða yfirsýn yfir efnið sem í boði er. Framboð tækja og forrita er mikið og stöðugt bætist við flóruna. Það getur þess vegna verið krefjandi fyrir kennarann að finna aðferðir, hugmyndir og tækni sem henta honum og viðkomandi nemendahópi“. · Tilgangur vinnustofunnar var að kynna nytsamleg forrit sem eru auðveld í notkun. · Vinnustofan var ætluð öllum kennurum, á öllum stigum grunnskóla og úr öllum faggreinum. · Leiðbeinandi vinnustofunnar var Sonja Suska, kennari Húnavallaskóla. · Vinnustofan var haldin í Húnavallaskóla Mynd: Áhugasamir þátttakendur og leiðbeinandi (þriðji frá vinstri, fremri röð) Kv Guðjón E. Ólafsson

Mynd vikunnar

Forystufólk á fundi. Myndin er af fólki sem lengi var í forystu á margvíslegan hátt á Skagaströnd. Fólkið er greinilega á fundi en ekki er vitað hvert tilefni fundarins var. Myndin, sem er líklega tekin 1963 eða 1964, er tekin annað hvort á skrifstofu oddvitans (sem þá gegndi hlutverki sveitarsjóra) eða á skrifstofu hreppstjórans sem var fulltrúi sýslumanns á staðnum. Báðar skrifstofurnar voru í bragganum við Skagaveg 2 (Norður -skála sem seinna varð bílaverkstæði) og voru þær sitt hvoru megin við gang eftir miðju húsinu. Frá vinstri á myndinni eru: Björgvin Jónsson í Höfðabrekku (Bankastræti 10), Pálmi Sigurðsson í Pálmalundi (Hólabraut 27), Kristófer Árnason Sunnuhvoli (Sunnuvegur 1), Guðbjartur Guðjónsson Vík (Strandgata 4), Ingvar Jónsson hreppstjóri Skagavegi 2 (Norður - skála), Ólafur Guðlaugsson Sævarlandi, Kristján Hjartarson Grund, Haraldur Sigurjónsson Iðavöllum, Jóhanna Sigurjónsdóttir Héðinshöfða (Skagavegur 5 ?), Björgvin Brynjólfsson Miðnesi, Jóhanna Gunnlaugsdóttir Hólabraut 5.

Vetrarfrí!

Vetrarfrí verður í Tónlistarskólanum: Bolludag, Sprengidag, og Öskudag. Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá fimmtudaginn 14.feb. Kennarar.

Laust starf

Laust starf við ræstingar á heilsugæslustöðinni og apótekinu á Skagaströnd. Nánari upplýsingar veitir Ásdís Arinbjarnardóttir yfirhjúkrunarfræðingur á Heilsugæslunni, S:4554100. Einnig er hægt að hafa samband með tölvupósti, asdis@hsb.is. Rafrænar umsóknir má nálgast á heimasíðu stofnunarinnar, hsb.is.

Frá nemendafélaginu Rán

Nemendur 10. bekkjar munu fara um næstkomandi fimmtudag, 7. febrúar, og selja klósettpappír. Gera má ráð fyrir að sölufulltrúar birtist upp úr klukkan 19:30. Kveðja nemendafélagið Rán.

Mynd vikunnar.

Kvenfélagskonur Þessi mynd var tekin í Fellsborg, líklega einhverntíma á áttunda áratugnum, af prúðbúnum kvenfélagskonum í kvenfélaginu Einingin á Skagaströnd. Efri röð frá vinstri: Jóna Vilhjálmsdóttir, óþekkt, Guðbjörg Guðmundsdóttir, Birna Jónsdóttir Blöndal, Elísabet Árnadóttir í Réttarholti, María Konráðsdóttir úr Sænska húsinu, Anna Halldórsdóttir Aspar úr Stórholti, Guðmunda Sigurbrandsdóttir, Hjördís Sigurðardóttir og Friðbjörg Oddsdóttir. Fremri röð frá vinstri: Soffía Lárusdóttir, Margrét Konráðsdóttir kaupkona í versluninni Borg, Guðrún Helgadóttir Karlsskála, Karla Helgadóttir Ásbyrgi, Guðrún Teitsdóttir ljósmóðir í Árnesi, Soffía Sigurðardóttir frá Njálsstöðum, Halldóra Pétursdóttir úr Höfðakoti og Helga Berdsen Karlsskála. Ef þú þekkir konuna sem er önnur frá vinstri í efri röðinni vinsamlegast sendu okkur þá athugasemd á myndasafn@skagastrond.is

Fréttir frá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Skagaströnd

Ólafur Bernódusson var ráðinn í 50% starf hjá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Skagaströnd 1.september sl. Að ráðningu hans stóðu sameiginlega Rannsóknarsetur HÍ, Sveitarfélagið Skagaströnd og Farskóli Norðurlands vestra. Starfssviðið hans er að sjá um ljósmyndasafn Skagastrandar, flokka það og gera aðgengilegt á netinu, stuðla að aukinni starfsemi Farskólans á Skagaströnd auk þess að vera til taks sem náms- og starfsráðgjafi fyrir fólk á starfsvæði Farskólans. Einnig á Ólafur að vinna ýmis tilfallandi störf fyrir Rannsóknarsetrið. Ljósmyndasafnið Ljósmyndasafn Skagastrandar er allmikið að vöxtum eða kringum 12000 myndir. Um er að ræða ljósmyndir á pappír bæði litmyndir og svart/hvítar myndir, mikið safn af filmum af mörgum gerðum og slidesmyndir. Safnið vex hratt því velunnarar þess utan úr bæ færa því gjarnan myndir, annað hvort til eignar eða til afnota með leyfi til að setja þær á ljósmyndavef Skagastrandar. Allmargir hafa líka komið í heimsókn og/eða sent inn athugasemdir og leiðréttingar um myndir sem komnar eru á netið. Eru þeim öllum færðar þakkir fyrir þeirra framlag, sem er safninu ómetanlegt. Vinnan við safnið felst í því að skanna myndir inn í tölvu og setja þær síðan inn á vef ljósmyndasafnsins með réttum upplýsingum um hverja mynd. Einnig í flokkun myndanna og varðveislu þeirra til frambúðar. Þá er það líka í verkahring starfsmannsins að reyna að stækka safnið með útvegun eldri mynda frá Skagaströnd, hvar sem hægt er að ná í þær. Þess vegna hvetjum við fólk til að koma með myndirnar sínar á safnið ef það vill leyfa að eitthvað af þeim birtist á ljósmyndavef Skagastrandar. Farskólinn Farskóli Norðurlands vestra á Sauðárkróki þjónar símenntun á svæðinu frá Hrútafirði og austur í Fljót í Skagafirði. Farskólinn stendur fyrir margs konar styttri námskeiðum auk námskeiða sem taka allt að tveimur vetrum. Þess utan býður Farskólinn upp á ýmis konar þjónustu við fólk sem er í námi í öðrum skólum eða hefur hug á að hefja nám. Farskólinn vinnur í samstarfi við samtök atvinnulífsins enda er markhópur skólans fyrst og fremst fólk sem er komið út á vinnumarkaðinn. Allmörg ár eru síðan námskeið á vegum Farskólans hefur verið haldið á Skagaströnd þó einstaklingar frá Skagaströnd hafi á því tímabili stöku sinnum sótt námskeið skólans sem haldin hafa verið annars staðar á svæðinu. Nýlega lauk þó 40 stunda spænskunámskeiði á Skagaströnd þannig að nú eru átta Skagstrendingar búnir að taka fyrstu skref til að verða sjálfbjarga á þessu gríðarlega útbreidda tungumáli. Byrjendanámskeið í tölvum fyrir eldri borgara með 13 þátttakendum hefur staðið yfir nú í janúar. Bókasafn Rannsóknarsetursins Rausnarleg bókagjöf erfingja Ögmundar Helgasonar barst Rannsóknarsetrinu í lok nóvember, merkt og flokkað af starfsmönnum Landsbókasafnsins. Bókasafnið er allmikið að vöxtum og er nú búið að koma því fyrir í hillum á réttan hátt og er óhætt að segja að með þessari viðbót við fyrra safn Rannsóknarsetursins, frá erfingjum Halldórs Bjarnasonar, sé safnið orðið mjög gott sérstaklega hvað varðar sagnfræðilegt efni. Allir velkomnir Rannsóknarsetrið er opið alla virka daga fyrir hádegi, milli klukkan 8:00 til 12:00. Á þeim tíma eru allir meira en velkomnir til dæmis til að skoða ljósmyndir og aðstoða Ólaf við að þekkja fólk og annað sem á þeim er. Þá er líka velkomið að koma til að setjast niður og kíkja í bók eða tímarit af safninu, eða bara til að spjalla og skoða aðstöðuna sem Rannsóknarsetrið og Námsstofan bjóða upp á.

ÁNÆGJUVOGIN -STYRKUR ÍÞRÓTTA

niðurstöður rannsókna og hugleiðingar um skipulagt íþróttastarf fyrir börn og ungmenni Ánægjuvogin er könnun sem UMFÍ og ÍSÍ stóðu að í sameiningu á stöðu íþróttastarfs, ánægju iðkenda, stöðu áfengis og tóbaksnotkunar og fleira meðal sambandsaðila í 8.-10.bekk. Miðvikudaginn 30.janúar munu UMFÍ og ÍSÍ standa í sameiningu fyrir fundi á Blönduósi í sal Stéttarfélagsins Samstöðu Þverbraut 1 og hefst fundurinn klukkan 20:00. Þar mun Dr. Viðar Halldórsson, félagsfræðingur, m.a. ræða um hvort að íþróttahreyfingin sé að standast áskoranir nútímasamfélags eða eingöngu að þjálfa til árangurs. Viðar mun styðjast við niðurstöður rannsóknarinnar Ánægjuvogin sem Rannsókn og greining gerði fyrir UMFÍ og ÍSÍ. Þátttaka er ókeypis og öllum heimil.