Næsti fundur sveitarstjórnar

FUNDARBOÐ Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar miðvikudaginn 21. desember 2011 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800. Dagskrá: 1. Álagningareglur útsvars og fasteignagjalda 2012 2. Fjárhagsáætlun 2012 3. Félags- og skólaþjónusta A-Hún a) Fundargerð stjórnar 15. 12.2011 b) Fjárhagsáætlun 2012 4. Bréf a) Íslandspósts, 1. desember 2011 b) UMFÍ, dags. 29. nóvember 2011 c) Sveitarfélagsins Skagafjarðar, dags. 2. desember 2011 d) Norðurár bs. dags. 2. desember 2011 5. Önnur mál. Sveitarstjóri

Þúfnapex í Hólaneskirkju

Tríóið Þúfnapex sem er skipað ungu fólki úr Skagafirði hefur að undanförnu haldið aðventutónleika við góðar undirtektir. Mánudagskvöldið 19. desember n.k. verða þau með tónleika í Hólaneskirkju og hefjast þeir klukkan 20.30. Þar munu þau flytja ljúf lög sem systkinin Elly og Vilhjálmur sungu sem og ýmis jólalög og verður um að ræða notalega og ljúfa kvöldstund. Tónleikarnir eru í boði Minningarsjóðsins um hjónin frá Garði og Vindhæli. Aðgangur ókeypis - allir velkomnir

Bók um "Sjósókn frá Skagaströnd og Vélbátaskrá 1908-2010"

Út er komin bókin „Sjósókn frá Skagaströnd og Vélbátaskrá 1908-2010", sem Lárus Ægir Guðmundsson hefur unnið að undanfarin misseri. Í henni er skrá um alla vélbáta sem hafa átt heimahöfn á Skagaströnd frá árinu 1908, þegar fyrsti vélbáturinn var keyptur frá Danmörku og fram til 2010. Í bókinni eru um 220 bátar og má sjá myndir af flestum þeirra ásamt upplýsingum um smíðaár, smíðaefni, stærð og vélargerð sem og eigendasögu og hvenær þeir voru keyptir eða seldir til og frá Skagaströnd. Jafnframt er að finna fjölmargar frásagnir af ýmsum atburðum sem tengjast fyrrgreindum bátum eins og eftiminnilegar sjóferðir, strönd og slysfarir. Einnig stutt ágrip af útgerð báta frá Skagaströnd fyrr á öldum og greint frá helstu útgerðarfélögum síðustu áratugina. Þá er hér einnig að finna upplýsingar um bátasmíði fyrr og síðar og frásagir sjómanna eldri sem yngri varðandi margt sem upp kom í dagsins önn. Bókin er því svolítið ágrip af ýmsum þáttum sem tengjast útgerðarsögu Skagstrendinga í rúmleg heila öld. „Sjósókn frá Skagaströnd & Vélbátaskrá 1908-2010“ verður boðin til sölu á næstu dögum og kostar bókin 3000 kr. Ef til vill er þetta hin ágætasta jólagjöf fyrir marga þá sem komið hafa nálægt sjávarútvegi á Skagaströnd og aðra þá sem kunna að hafa áhuga á sögulegum fróðleik um þetta efni. Útgáfan er styrkt af Mennigarráði Norðurlands vestra

Kvikmyndasýningar í Kántrýbæ

Næsta kvikmynd og jafnframt sú síðasta fyrir jól verður sýnd í Kántrýbæ n.k. föstudagskvöld kl 21:30. Um er að ræða Eldfjall eftir Rúnar Rúnarsson. Nánar um myndina: Hannes er kominn á eftirlaun eftir 37 ára starf sem húsvörður í skóla þar sem nemendum stóð ætíð stuggur af honum. Hann veltir því nú fyrir sér hvað hann eigi að taka sér fyrir hendur og efst á listanum er að gera upp gamlan bát sem hann á. Annað sem Hannes myndi gjarnan vilja laga er samband hans við tvö uppkomin börn sín, en það samband er ekki upp á marga fiska. Eina ástæðan fyrir því að hann hittir þau endrum og sinnum er að þau koma stundum að heimsækja móður sína, Önnu. Við föður sinn hafa þau hins vegar lítið að tala og enn minni áhuga á því. Kvöld eitt þegar þau Hannes og Anna eru að snæða kvöldverð fær Anna heilablóðfall. Eftir að hún er flutt á sjúkrahús og rannsökuð kemur í ljós að hún mun sennilega aldrei komast til heilsu á ný. Í stað þess að skilja Önnu eftir í höndum lækna og hjúkrunarfólks ákveður Hannes að fara með hana heim þar sem hann tekur til við að hjúkra henni og sjá henni fyrir því sem hún þarf. Um leið fær hann sjálfur nægan tíma til að skoða sjálfan sig og eigið líf og kemst að því að það er aldrei of seint að taka út þroska og laga það sem aflaga hefur farið. Myndin hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda og verið valin á ýmsar kvikmyndahátíðir um gjörvallan heim ásamt því að vinna fjölmörg verðlaun, m.a. á spænsku kvikmyndahátíðinni SEMINCI. Eldfjall verður framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2012. Miðaverð 1.250 kr -- Jacob and Andrea Kasper Nes Artist Residency Fjörubraut 8 545 Skagaströnd Iceland www.neslist.is Follow Us on Twitter Friend Us on Facebook

Gítarnámskeiði fyrir fullorðna.

Gítarnámskeiði sem hófst í byrjun nóvember lauk fimmtudaginn 7. desember. Jón Ólafur Sigurjónsson stóð fyrir og kenndi á námskeiðinu sem stóð yfir í 5 vikur 2 kvöld í viku. Á því var bæði fólk sem aldrei hafði snert á gítar og var að læra sín fyrstu grip og aðrir sem notuðu námskeiðið til upprifjunar. Námskeiðið gekk vonum framar og voru nemendur sammála um það að gítarinn færi ekki aftur inní skáp að því loknu. Á meðfylgjandi mynd eru Jón Ólafur, Jóhanna Karlsdóttir, Herdís Jakobsdóttir, Guðný Sigurðardóttir en myndina vantar Árna Sigurðsson.

Bókakvöld í Spákonuhofi

Fimmtudagskvöldið 8. des . n.k. verður opið í Spákonuhofinu frá kl: 20:00-22:00 Höfundar kynna og árita bók sína um Þórdísi spákonu. Höfum einnig bækur frá Töfrakonum til sölu og fl. Heitt á könnunni, Kakó og kökur. Erum með kortagleypi ( posa) .... J Spákonuhof á Skagaströnd.

Jólatónleikar Tónlistarskóla A-Hún

Verða sem hér segir: Húnavöllum mánudaginn 5. des. kl: 15:00. Skagaströnd í Hólaneskirkju fimmtudaginn 8. des. kl: 17:00. Blönduósi í Blönduóskirkju mánudaginn 12. des. kl: 17:00. Allir velkomnir. Skólastjóri

Aðventustund í Hólaneskirkju

Sunnudaginn 4. desember kl. 17 verður aðventustund í kirkjunni okkar með þátttöku kirkjukórsins, stúlknakórs, TTT barna, fermingarbarna og auðvitað ykkar allra sem mæta. Fjölmennum, tökum þátt og njótum.

Djásn og dúllerí !

Já, það eru allskonar djásn og dúllerí sem fást í handverksmarkaðnum í kjallara gamla kaupfélagsins á Skagaströnd. Má þar t.d nefna heklaðar jólabjöllur, útsaumaða púða, jólasveina, járnklukkur, brussubrellur, dömuveski og skartgripi. Er ekki tilvalið að kaupa jólagjöfina í heimabyggð? Opið verður allar helgar til jóla frá 14-18 og á Þorláksmessu frá kl. 14-21. Alltaf kaffi á könnunni og kandís í skál.

Íbúðir til leigu

Sveitarfélagið Skagaströnd hefur til leigu íbúðarhúsnæði sem er laust nú þegar. Um er að ræða þriggja herbergja íbúðir bæði í fjórbýli og raðhúsi og fjögurra herbergja íbúð í raðhúsi. Allar nánari upplýsingar eru veittar í síma 455-2700 eða með því að senda tölvupóst á skagastrond@skagastrond.is Umsóknareyðublöð má finna á heimasíðu sveitarfélagsins http://skagastrond.is/eydublod.asp