Auglýsing frá bókasafni Skagastrandar

Vegna breytinga á húsnæði bókasafnsins í Fellsborg flytur safnið starfsemi sína í kjallara Bjarmaness. Einungis hluti bókanna verður fluttur og settur upp þar en leitast við að hafa nýjustu og vinsælustu bækurnar til útláns. Opnunartími bókasafnsins í Bjarmanesi verður: Mánudaga kl. 16 – 19 Miðvikudaga kl. 15 – 17 Fimmtudaga kl. 15 - 17 Bókasafnsvörður

Auglýsing um dreifikerfi hitaveitu á Skagaströnd

Sveitarfélagið Skagaströnd og RARIK hafa gert samning um lagningu hitaveitu til Skagastrandar. Fyrir liggur hönnun dreifikerfis um byggðina á Skagaströnd sem lögð verður til grundvallar efnispöntun og útboði framkvæmda við lagningu kerfisins. Til að tryggja sem besta niðurstöðu og réttasta lýsingu á efni og vinnu er auglýst eftir athugasemdum við fyrirhugaðar lagnaleiðir. Sérstaklega er skorað á húseigendur á Skagaströnd að kynna sér uppdrátt sem birtur er á heimasíðunni www.skagastrond.is/hitaveita.asp og liggur frammi á skrifstofu sveitarfélagsins og gera athugasemdir ef þeir telja að lagnaleiðir megi betur fara. Sérstaklega skal tekið fram að nákvæm staðsetning heimæðar í hvert hús verður ekki ákveðin með umræddum uppdrætti en haft verður samráð við húseigendur um það þegar að framkvæmdatíma kemur. Samhliða lögnum hitaveitunnar verða lagðar ljósleiðaralagnir til þeirra sem taka inn hitaveitu og þarf að gera ráð fyrir inntaksboxi ljósleiðara fyrir innan húsvegg. Frestur til athugasemda við uppdráttinn er veittur til 6. febrúar 2012 og skal athugsemdum komið á framfæri á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar með því að leggja þar fram skriflegar athugsemdir eða með tölvupósti á magnus@skagastrond.is og taeknifr@skagastrond.is Sveitarstjóri

Íbúafundur um hitaveitumál

Sveitarstjórn Skagastrandar boðar til íbúafundar um samning við RARIK um hitaveitumál fimmtudaginn 5. janúar nk. kl 17.30 í Fellsborg. Á fundinum mun samningurinn og það sem af honum leiðir verða kynnt fyrir íbúum. Sveitarstjóri

Samningur um hitaveitu til Skagastrandar

Fréttatilkynning Sveitarfélagið Skagaströnd og Rarik hafa gert samning um lagningu hitaveitu til Skagastrandar. Samningurinn sem var undirritaður 30. desember 2011 felur í sér að sveitarfélagið greiðir fast gjald til Rarik sem mun leggja stofnæð og dreifiveitu um byggðina á Skagaströnd og tengingu við hitaveitu Blönduóss. Með framlagi sveitarfélags og sérstöku framlagi á fjárlögum ríkisins hefur arðsemi af veitunni verið tryggð. Þegar framkvæmdum lýkur verður um að ræða eina veitu með veitusvæði sem nái yfir það svæði sem hitaveitan á Blönduósi gerir nú ásamt því sem við bætist með lagningu hitaveitunnar til Skagastrandar. Þar af leiðandi verður ein gjaldskrá fyrir allt veitusvæðið. Rarik hefur þegar boðið út efni til veitunnar og mun í framhaldi af gerð samningsins staðfesta pöntun á efni. Verklegar framkvæmdir verða boðnar út á nýju ári og munu skiptast í þrjá megin verkhluta: Lagningu nýrrar stofnæðar frá Reykjum að Blönduósi sem verði unnin á árinu 2012, lagningu stofnæðar frá Blönduósi til Skagastrandar á fyrri hluta árs 2013 og lagningu dreifikerfis um byggðina á Skagaströnd sumarið og haustið 2013. Gert er ráð fyrir að fyrstu hús munu tengjast haustið 2013 og að öll hús hafi möguleika á tengingu haustið 2014. Samhliða lagningu hitaveitunnar hefur sveitarstjórn samið um að lagt verði pípukerfi fyrir ljósleiðara sem opni nýja möguleika í framtíðinni á flutningi stafrænna gagna fyrir heimili og fyrirtæki sem tengjast veitunni. Sveitarstjórn Skagastrandar lítur á fyrirhugaða tengingu við hitaveitu sem mikið framfaraskref fyrir byggðina og að með því opnist ýmsir möguleikar fyrir fjölskyldur og fyrirtæki auk þess áætlaða sparnaðar í orkukostnaði sem næst með nýtingu jarðvarma til húshitunar. Sveitarstjórn er jafnframt fullljóst að í hverri húseign þarf að kosta nokkru til við umrædda breytingu og mun halda kynningarfund 5. janúar n.k. í Fellsborg kl 17.30 þar sem samningurinn og það sem af honum leiðir mun verða kynnt fyrir íbúum. Sveitarstjórn Skagastrandar

Áramótadansleikur í Félagsheimilinu á Blönduósi

Eins og svo oft áður verður haldinn áramótadansleikur í Félagsheimilinu Blönduósi á nýársnótt frá klukkan 00:30 til 04:00. Að þessu sinni mun hinn sívinsæli Blönduósvinur Bjartmar Guðlaugsson heldur uppi fjörinu. Aldurstakmark er 16 ára.

Jólatrésskemmtun annan jóladag

Jólasveinar einn og átta. Ofan koma úr fjöllunum...... Jólatrésskemmtun Lions Jólabarnaballið verður haldið í Fellsborg annan jóladag mánudaginn 26. desember nk. kl 15.00-16.30. Á skemmtunina mæta jólasveinar sem eru að svipast um eftir kátum krökkum sem kunna að syngja og ganga í kringum jólatré. Krakkar, mætum kát og hress á jólaball. Engin aðgangseyrir nema gott jólaskap. Lionsklúbbur Skagastrandar

Opnunartími íþróttahúss um jól og áramót

ÍÞRÓTTAHÚS SKAGASTRANDAR. VERÐUR OPIÐ. 23.des. 2011 08:00 – 12:00 27.des. 2011 08:00 – 20:00 28. des. 2011 08:00 – 20:00 29. des. 2011 08:00 - 20:00 30.des. 2011 08:00 – 12:00 Umsjónarmaður íþróttahúss.

Opið í Djásnum og dúlleríi í dag

Í dag Þorláksmessu er opið í Djásnum og dúlleríi frá kl. 13-21 Er ekki tilvalið að kíkja í gamla kaupfélagskjallarann á Skagaströnd eftir skötuveisluna? Djásn og dúllerí býður uppá handverk og hönnun úr heimabyggð. Nærsveitamenn ekki síður en Skagstrendingar eru hjartanlega velkomnir. Gleðileg jól.

Sorphirða um jól og áramót

Vegna hátíðsdaga verður gámastöðin lokuð laugardagana 24. og 31. desember nk. en húsasorp verður tekið fimmtudaginn 29. desember. Sérstaklega er minnt á að litaður jólapappír er ekki endurvinnanlegur og á að fara í almennt sorp. Sveitarstjóri

Er erfitt að bíða eftir jólunum ?

Allavega fyrir suma J Sögustund í Spákonuhofinu Þriðjudaginn 20. des og miðvikudaginn 21. des kl. 17:00. Lesum jólasögur fyrir börn á öllum aldri. Enginn aðgangseyrir, bara að koma með jólaskapið og gleðina. Litla sölubúðin okkar verður líka opin frá 17:00-19:00 ýmislegt á boðstólnum t.d. bækur, prjónavörur, jólaservíettur og jólalöberar með laufabrauðsmunstri, kerti, spil, sápur og fleira skemmtileg...og heitt á könnunni. Spákonuhof.