26.10.2010
Konur á Skagaströnd þakka framkvæmdanefnd um Kvennafrídag 2010 fyrir frábæran baráttudag í gær. Í framkvæmdanefndinni voru Eva Gunnarsdóttir, Sigríður Gestsdóttir og Hallbjörg Jónsdóttir.
Kvennafrídagurinn er mikilvægur í hugum okkar kvenna og erum við því afar ánægðar með að hafa fengið tækifæri til að fagna honum saman og þétta raðirnar. Bestu þakkir fyrir framtakssemina nefndarkonur. Áfram stelpur!
Gera má ráð fyrr að um fimmtíu konur hafi gengið um Skagaströnd í gær. Gangan endaði í Bjarmanesi þar sem haldinn var baráttufundur. Þar var boðið upp á kaffi og kökur. Líney Árnadóttir, framkvæmdastjóri Vinnumálastofnunar á Skagaströnd, hélt hvatningaræðu um jafnréttismál. Auður Herdís Sigurðarsdóttir, félagsmálastjóri í Austur-Húnavatnssýslu, flutti erindi um heimilisofbeldi.
Í lok fundarins stóðu konur upp og sungu Áfram stelpur. Meðfylgjandi myndir tók Árný Sesselja Gísladóttir.
25.10.2010
Kvennafrídagurinn er haldinn hátíðlegur í dag og eru konur hvattar til að leggja niður störf klukkan 14.25. Efnt verður til fjöldagöngu og útifunda víða um land í dag í tilefni dagsins - einnig á Skagaströnd
Starfskonur Vinnumálastofnunar ætla að ganga út af vinnustað sínum kl. 14:25 á mánudaginn 25. október og efna til göngu frá Stjórnsýsluhúsi.
Þær bjóða allar konur á Skagaströnd velkomnar í gönguna og hvetja þær til að taka þátt í þessum degi með þeim. Þema dagsins er rauður og hvetja þær allar konur að mæta í einhverju rauðu!
Gengið verður út Strandgötuna og til baka að Bjarmanesi þar sem starfskonur Vinnumálastofnunar bjóða upp á kaffi og meðlæti. Auður Herdís Sigurðardóttir, félagsmálastjóri talar gegn ofbeldi.
Áfram stelpur!
Konur gegn kynferðisofbeldi!
25.10.2010
Trausti Jónsson, veðurfræðingur, heldur út áhugaverðu bloggi (http://trj.blog.is) og fjallar þar á skiljanlegan hátt um veður af öllum áttum (af öllu tagi). Í dag birti hann pistil með ofangreindri fyrirsögn. Hann er endurbirtur hér, að vísu án leyfis, en vonandi misvirðir Trausti það ekki.
Eins og fram hefur komið hjá mér á þessum vettvangi áður er ég að dunda mér við að taka saman veðuratburðaskrá. Í bili nær hún aftur til 1873 en er og verður auðvitað ansi gloppótt. En hún er þó komin á það stig að hægt er að leita eitthvað í henni, t.d. eftir staðarnöfnum. Ég hef reynt að forðast skipsskaða og aðrar slysfarir sem ekki tengjast veðri. Nú hef ég mér til gamans flett upp á Skagaströnd i þessu sambandi. Hvers vegna Skagaströnd? Það er engin sérstök ástæða fyrir því önnur en sú að í því sem nú er fyrsta lína skrárinnar er einmitt tjón þar.
Um 1870 og fyrr var mikil verslun á Skagaströnd og þar áttu viðdvöl verslunarskip frá útlöndum, komu með varning og tóku við öðrum. En færslan er þessi:
10. september 1873: Möstur brotnuðu á báðum kaupskipunum á Skagaströnd og þau urðu að strandi, fiskhjallur fauk þar með öllu.
Ári síðar varð annað ámóta óhapp:
29. september 1874: Kaupskip eyðilagðist við Skagaströnd, mannbjörg varð, veðrið sagt verra en það sem olli sköðum á Skagaströnd árið áður. Spákonufellskirkja hnikaðist um breidd sína. Miklir skaðar urðu víðar í þessu norðaustanveðri.
13. desember 1877. Skip skemmdust á Skagaströnd. Hér er dagsetningin ekki alveg viss. Fleiri skaðaveður gerði nefnilega þessum mánuði með talsverðu tjóni.
Snemma í nóvember 1879 fórust skip frá Skagaströnd og víðar, ekki veit ég hvar.
2. eða 3. janúar 1887. Fimm skip fórust á Skagaströnd, 24 menn fórust.
18. eða 19. september 1893: Fiskibátur fauk yfir hús á Skagaströnd, lenti þar á manni sem slapp lítið meiddur.
27. apríl 1906: Fiskiskip strandaði við Skagaströnd, einn maður fórst. Þetta veður olli stórfelldu tjóni víða um land.
22. mars 1907: Maður varð úti 22. nærri Skagaströnd.
9. eða 12. janúar 1913: Fokskemmdir urðu á Skagaströnd og í grennd.
21. desember 1929: Varðskipið Þór strandaði við Skagaströnd, mannbjörg varð.
8. til 9. janúar 1935: Þak fauk af íbúðarhúsi á Skagaströnd.
26. nóvember 1935: Tveir menn meiddust við björgunarstörf í illviðri á Blönduósi og á Skagaströnd. Ekki er getið um hverju þeir voru að bjarga.
16. september 1936: Bryggjan á Skagaströnd skemmdist illa. Þetta veður olli gríðarlegu tjóni á landinu.
18. eða 19. desember 1945: Sex smábátar fuku á Skagaströnd. Íbúðarhús þar laskaðist svo mikið að það varð ekki íbúðarhæft, hafnarhúsið skemmdist og matarskúr fauk, fleiri hús löskuðust.
1. febrúar 1956: Krapahlaup drap 4 kindur á Efri-Mýrum á Skagaströnd.
2. febrúar 1956. Tjón varð talsvert á Skagaströnd og þar í grennd fauk þak af íbúðarhúsi á Syðra-Hóli og braut það fjósið, hlaða féll að nokkru á Brandaskarði, á Miðgili tók þak af íbúðarhús svo fólk þurfti að flýja bæinn. Vörubíll fauk af vegi í nágrenni Skagastrandar.
23. nóvember 1961: Vélbátur frá Skagaströnd fórst og með honum tveir menn.
13. janúar 1962: Skúr fauk á rafmagnslínur á Skagaströnd og braut staura.
12. til 15. janúar 1975: Rúður brotnuðu í nokkrum húsum á Skagaströnd í miklu hvassviðri.
31. janúar 1985: Bátur sökk í höfninni á Skagaströnd í ísingarveðri.
2. til 4. janúar 1991: Plötur fuku af fjölda húsa á Skagaströnd. Þetta veður er þekktast fyrir gríðarlegar ísingarskemmdir á raflínum á Norðurlandi.
16. janúar 1995: Kyrrstæð vöruflutningabifreið fauk útaf nærri Skagaströnd. Þetta veður er kennt við snjóflóðin í Súðavík.
24. til 26. október 1995: Verulegar skemmdir urðu á Skagaströnd, þak fauk þar af nýbyggðu parhúsi, þak af gömlu íbúðarhúsi fauk og húsið skekktist, skúrar fuku og fleira lauslegt. Þetta veður er kennt við snjóflóðið á Flateyri.
5. nóvember 2006: Skip slitnuðu upp í hvassviðri á Skagaströnd.
Ég sé nú sitthvað sameiginlegt með þessum veðrum, en þarf að athuga málið nánar til að ég átti mig nákvæmlega á því. Mér sýnist þó að ákveðin tegund veðra af vindátt á bilinu 50 til 70 gráður komi mjög við sögu, auk fáeinna úr öðrum áttum. Lýkur hér pistli um skaðaveður á Skagaströnd. Þau eru sjálfsagt fleiri en getið er um hér.
Tvær athugasemdir hafa verið gerðar við bloggið og eru þær þessar:
1. Takk fyrir þessa fróðlegur upptalningu. N-Austan áttin er skæðust átta á Skagaströnd. Axel Jóhann Hallgrímsson.
2. Kærar þakkir fyrir þetta og allan annan fróðleik í þessum pistlum. Merkilegt hvað ýmis afbrigði af NA-átt eru miklu hvassari á Skagaströnd en hinumegin á Skaganum. Þorkell Guðbrands
22.10.2010
Þriðjudaginn 26.október 2010 halda þingmenn Norðvesturkjördæmis árlegan fund með fulltrúum sveitarstjórna í Félagsheimilinu á Blönduósi. Við ætlum að nota tækifærið og mæta þar sem flest milli kl. 12:30 og 13:00 í friðsamlega mótmælastöðu vegna þess harkalega niðurskurðar sem boðaður er á fjárlögum til heilbrigðisþjónustu í Austur Húnavatnssýslu. Við skorum á Húnvetninga að standa saman og leggja sitt að mörkum til að verja þessa grunnþjónustu. Þótt við, starfsmenn í heilbrigðisþjónustu, skipuleggjum mótmælin skiptir miklu máli að allir sem láta sig varða öryggi skjólstæðinga heilbrigðisþjónustunnar komi og taki þátt.
Við vitum að þingmenn kjördæmisins standa almennt með okkur en þeir þurfa líka að vita að við munum eftir hlutverki þeirra á Alþingi.
Ekki er verra að koma með mótmælaspjöld.
Starfshópur á HSB
22.10.2010
Kirkjukór Hólaneskirkju á Skagaströnd minnir á gospeltónleikanna í Hólaneskirkju á morgun kl. 17. Stjórnandi kórsins er góðvinur Skagastrandar, Óskar Einarsson, sem hingað kemur ásamt hljómsveit og gestasöngvurum.
Tónleikarnir verða haldnir á þessum stöðum um helgina:
Hólaneskirkju Skagaströnd, laugardaginn 23. október kl: 17:00
Miðgarði Skagafirði sunnudaginn 24. október kl: 15:00
Hvammstangakirkju sunnudaginn 24. október kl: 20:00
Í hljómsveitinni eru Brynjólfur Snorrason og Jóhann Ásmundsson og kynnir er sr. Guðmundur Karl Brynjarsson fyrrverandi sóknarprestur á Skagaströnd.
Miðaverðið er 1.500 kr fyrir fullorðna og 500kr fyrir börn á grunnskólaaldri (ath. ekki er posi á staðnum).
Styrktaraðilar tónleikanna eru Menningarráð Norðurlands vestra og Minningarsjóður um hjónin frá Vindhæli og Garði
22.10.2010
Starfskonur Vinnumálastofnunar ætla að ganga út af vinnustað sínum kl. 14:25 á mánudaginn 25. október og efna til göngu frá Stjórnsýsluhúsi.
Þær bjóða allar konur á Skagaströnd velkomnar í gönguna og hvetja þær til að taka þátt í þessum degi með þeim.
Þema dagsins er rauður og hvetjum þær allar konur að mæta í einhverju rauðu!
Gengið verður út Strandgötuna og til baka að Bjarmanesi þar sem starfskonur Vinnumálastofnunar bjóða upp á kaffi og meðlæti. Auður Herdís Sigurðardóttir, félagsmálastjóri talar gegn ofbeldi.
Áfram stelpur!
Konur gegn kynferðisofbeldi!
21.10.2010
Gæðagreinar
Fræðsluskrifstofa Austur-Húnavatnssýslu stóð fyrir námskeiði í fundarsal Samstöðu á Blönduósi, miðvikudaginn 20. október 2010.
Fyrirlesarar að þessu sinni voru: Helga Harðardóttir, kennsluráðgjafi og Ragnheiður Matthíasdóttir, deildarstjóri Ársskóla á Sauðárkróki.
Markmið fræðslunnar var að aðstoða skóla Húnavatnssýslna við innleiðingu á Gæðagreinunum sem er íslensk útgáfa af viðurkenndri skoskri aðferð við að meta starfsemi skóla.
Þrjátíu og tveir starfsmenn grunnskólanna geta nú nýtt sér þessar ágætu upplýsingar í starfi.
Mynd
Þátttakendur og leiðbeinandi að störfum
20.10.2010
Nes listamiðstöð á Skagaströnd verður með opið hús í dag, miðvikudaginn 20.október, frá klukkan 18 til 20.
Listamenn septembermánaðar bjóða Skagstrendingum og öðrum þeim sem áhuga hafa í heimsókn í vinnustofur sínar þar sem þeir munu sýna það sem þau hafa verið að vinna að undan farnar vikur.
Sjö listamenn hafa dvalið hjá Nesi í september og koma þeir frá Frakklandi, Írlandi, Englandi, Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu.
Listamenn mánaðarins eru:
Brandon Vickerd, myndhöggvari - Kanada
Orla Barry, listmálari - Írlandi
Michaela Gleave, innsetningar - Ástralía
Rebecca Partridge, listmálari - England
Heidi Schwegler, blönduð tækni - Bandaríkin
Laure Vigna, myndhöggvari - Frakklandi
Andrea Weber, innsetningar - Frakklandi
19.10.2010
Sunna og Jeppe verða með tónleika í Kántrýbæ á fimmtudagskvöldið klukkan 20:30. Á dagskránni verða fjölmörg lög, bæði þekkt sem og þeirra eigin.
Laufey Sunna Guðlaugsdóttir ólst upp á Skagaströnd og Jeppe er danskur. Hún syngur og leikur á hljómborð en hann á gítar.
Frítt er inn á tónleikana.
19.10.2010
Kirkjukór Hólaneskirkju á Skagaströnd hefur fengið Gospelkóng Íslands, Óskar Einarsson, ásamt hljómsveit og gestasöngvurum, í lið með sér til þess að halda gospeltónleika 23. og 24. október næstkomandi.
Tónleikarnir verða haldnir á þessum stöðum um næstu helgi:
Hólaneskirkju Skagaströnd, laugardaginn 23. október kl: 17:00
Miðgarði Skagafirði sunnudaginn 24. október kl: 15:00
Hvammstangakirkju sunnudaginn 24. október kl: 20:00
Stjórnandi er Óskar Einarsson
Söngvarar: Kirkjukór Hólaneskirkju ásamt gestum
Hljómsveit: Brynjólfur Snorrason og Jóhann Ásmundsson
Kynnir: Sr. Guðmundur Karl Brynjarsson fyrrverandi sóknarprestur á Skagaströnd
Miðaverðið er 1.500 kr fyrir fullorðna og 500kr fyrir börn á grunnskólaaldri (ath. ekki er posi á staðnum).
Styrktaraðilar tónleikanna eru Menningarráð Norðurlands vestra og Minningarsjóður um hjónin frá Vindhæli og Garði