28.09.2010
Fimm þátttakendur hafa skráð sig á námskeiðið Sóknarbraut á Blönduósi og sex á Hvammstanga. Námskeiðið fjallar um stofnun og rekstur fyrirtækja þar sem þátttakendur vinna með eigin hugmyndir eða fyrirtæki.
Það er Impra á Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samvinnu við SSNV og Sveitarfélagið Skagaströnd og Blönduósbæ sem stendur fyrir námskeiðinu.
Námskeiðið er alls 40 kennslustundir sem skiptast í 10 hluta auk þriggja opinna vinnusmiðja sem þátttakendur geta mætt í og unnið að sínu verkefni undir handleiðslu leiðbeinanda. Hver hluti er fjórar klst. Stefnt er að því að námskeiðið hefjist 6. október.
Námskeiðið er ómetanlegt fyrir þá sem áhuga hafa á að stofna fyrirtæki. það gefur góða yfirsýn yfir þau mál sem hafa þarf í huga við stofnun og rekstur. Vitað er að margir Skagstrendingar hafa áhuga á að hasla sér völl í ferðaþjónustu og námskeiðið hentar mjög vel í þeirri atvinnugrein. Lögð er áhersla á markaðssetningu, stjórnun og fjármál.
Markmiðið er að veita þátttakendum hagnýta menntun og stuðning sem hvetur þá til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og nýta þau tækifæri sem eru til staðar.
27.09.2010
Mánudagsmynd Ljósmyndasafns Skagastrandar er úr safni Guðmundar Guðnasonar. Hún er líklega tekin á árunum 1960 til 70. Um tilefnið er ekki vitað og hópurinn gæti verið á ferðalagi. Ljóst er að nokkrir Skagstrendingar eru á myndinni og þeir sem þekkja þá eru beðnir um að láta Hjalta Viðar Reynisson, verkefnisstjóra Ljósmyndasafnsins vit. Síminn hjá honum er 455 2700 og hann er við fyrir hádegi alla virka daga.
Í síðustu viku leitaði Hjalti eftir nöfnum manna við vegavinnu eða túnvinnu á Skagströnd. Ekki þekktust nú margir þeirra en þó er vitað að lengst til hægri er Guðmundur Guðnason og við hlið hans er Ágúst Jakobsson. Þeir sem til þekkja eru því hvattir til að gaumgæfa myndina og láta vita beri þeir kennsl á þá sem enn eru ekki nafngreindir.
27.09.2010
Fræðsluskrifstofa Austur-Húnavatnssýslu stóð fyrir námskeiði í Félagsheimilinu á Blönduósi, fimmtudaginn 23. september.
Fyrirlesari að þessu sinni var Gylfi Jón Gylfason, sálfræðingur og var markmið hans að kynna þátttakendum fjölbreyttar hugmyndir, ráð og leiðir til að draga úr neikvæðri hegðun í kennslustarfinu og hvað gera má til að byggja upp jákvæðan skólabrag.
Kennarar og starfsfólk grunn- og leikskóla Húnavatnsþings og Borðeyrar fjölmenntu í Félagsheimilið og geta nú nýtt sér þessar ágætu upplýsingar í starfi.
Mynd
Þátttakendur og leiðbeinandi fyrir utan Félagsheimilið á Blönduósi
24.09.2010
Annað hvert ár efnir Rauði kross Íslands til landssöfnunarinnar Göngum til góðs til styrktar alþjóðaverkefnum sínum. Nú blæs Rauði krossinn aftur í lúðra og efnir til sjöttu landssöfnunarinnar laugardaginn 2. október fyrir starf félagsins í Afríku.
Söfnunin er annars eðlis en flestar skyndisafnanir sem Rauði krossinn efnir til eins og í kjölfar neyðaraðgerða vegna náttúruhamfara eða átaka. Valin eru langtímaverkefni sem oft er erfitt að finna fjármagn fyrir.
Í söfnuninni í ár hefur Rauði krossinn sett á oddinn verkefni félagsins í Malaví fyrir börn og ungmenni sem eiga um sárt að binda vegna alnæmis, og Síerra Leóne þar sem um er að ræða verkefni fyrir stríðshrjáð börn og endurhæfingu barnahermanna. Samstarfið við Rauða krossinn í Malaví hófst árið 2002 með söfnunarfé úr Göngum til góðs það ár og við Rauða krossinn í Síerra Leóne í kjölfar landssöfnunarinnar árið 2004.
Mikið hefur áunnist í verkefnum Rauða krossins í Malaví og Síerra Leóne á þessum árum og samstarfið eflst og dafnað vegna langtímaskuldbindingar Rauða kross Íslands. Með því að sýna samstöðu og samhug með systurfélögum okkar í þessum löndum getum við saman tekið þátt í að skapa börnum í Afríku betri lífsskilyrði.
Með söfnuninni Göngum til góðs vill Rauði krossinn gefa fólki í landinu tækifæri til að gefa af sér, ekki einungis með því að gefa fé heldur einnig til að sameinast um brýnt málefni og sýna samhug sinn í verki með því að gerast sjálfboðaliði eina dagsstund. Þeir sem ganga hús úr húsi gegna ákaflega mikilvægu hlutverki, en það væri til lítils ef ekki væru einhverjir heima til að taka á móti þeim og stinga fé í baukinn.
Hægt er að skrá þátttöku í síma: 897-2884 eða á bogig@simnet.is, vinsamlegast skráið fyrir kl: 18:00 miðvikudaginn 29. september.
Það er von okkar að sem flestir sýni stuðning í verki og Gangi til góðs laugardaginn 2. október.
R.K.Í
Skagastrandardeild
24.09.2010
Kirkjukór Hólaneskirkju er að fara af stað með metnaðarfullt verkefni sem hann vill bjóða söngfólki í Skagafirði og Húnavatnssýslum að taka þátt í. Um er að ræða gospeltónleika undir stjórn Óskars Einarssonar , ásamt hljómsveit, sem verða haldnir á þremur stöðum í sýslunum helgina 22. til 24. október n.k.
Kirkjukór Hólaneskirkju hefur um árabil notið leiðsagnar hins margrómaða gospelkóngs Íslands, Óskars Einarssonar, við flutning gospeltónlistar. Upphaf samstarfs kórsins og Óskars má rekja aftur til ársins 1999 en þá kom Óskar til Skagastrandar og hélt sitt allra fyrsta „gospelnámskeið“. Segja má að námskeiðið hafi slegið algerlega í gegn því síðan þá hefur Óskar farið vítt og breitt um Ísland og haldið merkjum gospeltónlistarinnar á lofti með því að miðla þekkingu sinni til kóra og sönghópa.
Kórfélagar hafa nú ákveðið að fá Óskar Einarsson ásamt hljómsveit og gestasöngvurum í lið með sér til þess að halda gospeltónleika á Skagaströnd, í Skagafirði og á Hvammstanga. Æfð verða upp 15-17 lög og þau flutt undir stjórn Óskars fyrir Húnvetninga og Skagfirðinga. Verkefnið er hugsað sem eins konar uppskeruhátíð eftir námskeiðahald undanfarinna ára.
Hér með er kórfólki, ungu sem öldnu, úr Skagafirði og Húnavatnssýslum boðið að taka þátt í verkefninu.
Tónleikarnir verða haldnir helgina 22.-24. október 2010 en æfingar hefjast á næstunni.
Verkefnið hefur hlotið styrki frá Menningarráði Norðurlands vestra og Minningarsjóði um hjónin frá Garði og Vindhæli
Áhugasamir hafi samband við Sigríði í síma 820-2644 eða Halldór í síma 896-7977.
23.09.2010
Sveitarstjórn Skagastrandar samþykkti 26. ágúst s.l. tillögu að aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagastrandar 2010-2022.
Skipulagsuppdrættir, greinargerð og umhverfisskýrsla voru til sýnis á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar, Túnbraut 1-3 frá 25. maí til 22. júní 2010 með fresti til að skila inn athugasemdum til 7. júlí 2010. Ennfremur var tillagan til sýnis hjá Skipulagsstofnun, Laugavegi 166, Reykjavík og á heimasíðu sveitarfélagsins, www.skagastrond.is.
Tvær athugasemdir bárust vegna tillögu að tilfærslu Skagastrandarvegar. Athugasemdirnar gáfu ekki tilefni til breytinga á tillögunni og hefur hún verið send Skipulagsstofnun sem gerir tillögu til umhverfisráðherra um lokaafgreiðslu tillögunnar. Greinargerð með athugasemdum og umsögnum um þær eru inn á heimasíðu sveitarfélagsins (sjá hér).
Þeir sem óska eftir nánari upplýsingum um tillöguna og niðurstöður sveitarstjórnar geta snúið sér til sveitarstjóra Skagastrandar.
Sveitarstjóri
23.09.2010
„Betri helmingurinn varð eftir,“ sagði Rúnar Kristjánsson, tvíræður á svip, þar sem hann stóð ásamt fleirum og horfði á þann helming gamla vigtarskúrsins við Skagastrandarhöfn sem eftir stendur. Inni í honum sinnir Þórey Jónsdóttir, hafnarvörður áfram störfum sínum, en vörubíll undir stjórn eignmans hennar, Sigurbjörns Björgvinssonar, flutti hinn á burt. Upphafsorðin hefðu allt eins getað verið botninn í góðri vísu eftir Skagastrandarskáldið.
Gamli vigtunarskúrinn má muna sína daga fegurri og hans tími er liðinn. Nú er ætlunin að flytja nýtt hús á sama stað.
Á vegum Trésmíðaverkstæðis Helga Gunnarssonar er verið að byggja nýtt vigtunarhús, stærra rúmbetra og í alla staði þægilegra. Gert er ráð fyrir að það verði komið í notkun í byrjun nóvember. Þangað til segist Þórey hafnarvörður verða að þola dvölina í fimmtíu prósentunum. Segist láta sig dreyma um leðursófasett, flatskjá, heitan pott og annað sem léttir vinnuna ...
23.09.2010
Tveir félagar í Golfklúbbi Skagastrandar fór hring á golfvellinum í góða veðrinu um klukkan 17 gær. Þetta voru þeir Steindór R. Haraldsson og Lárus Ægir Guðmundsson.
Á sjöundu braut, sem er par 3, lentu þeir í vandræðum því kúlan hans Steindórs fannst ekki hvernig sem þeir félagar leituðu. Þannig háttar til að flötin sést ekki frá teignum og slá menn því nokkuð blint en notast við mið í fjarska.
Lá nú við að þeir gæfust upp á leitinni. Datt þá Lárusi í hug að benda Steindóri á að kíkja ofan í holun því hann var nær henni. Nei, fussaði og sveiaði Steindór, hélt að það gæti nú alls ekki verið. En viti menn. Þarna lá kúlan ofan í þeirri holu sem næstum allir golfarar taka fram yfir aðrar.
Þetta er verulega ánægjulegur atburður enda er Steindór fyrsti félaginn í klúbbnum sem hefur farið holu í höggi – a.m.k. hér á Skagaströnd.
Ástæða er til að óska Einherjanum Steindóri innilega til hamingju með afrekið og ekki síður Lárusi Ægi fyrir að hafa verið einherjanum til hvatningar til dáða allan hringinn og gert honum afrekið kleyft.
Þess má geta að báðir, Steindór og Lárus Ægir, eru í sóknarnefnd ...
21.09.2010
Kynningarfundur um námskeiðið Sóknarbraut verður haldið í Bjarmanesi á morgun, miðvikudag, kl. 14:30. Þar verður sagt frá námskeiðinu en stefnt er að því að það hefjist 6. október.
Námskeiðið hentar öllum þeim sem áhuga hafa á að stofna fyrirtæki eða reka nú þgar fyrirtæki. Engin krafa er gerð um neina menntun. Aðalatriðið er að hafa einhverja hugmynd um rekstur, viðbót við rekstur eða áhuga á því að styrkja þann rekstur sem fyrir er.
Sóknarbraut fjallar um rekstur fyrirtækja þar sem áhersla er lögð á markaðssetningu, stjórnun og fjármál. Markmiðið er að veita þátttakendum hagnýta menntun og stuðning sem hvetur þá til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og nýta þau tækifæri sem eru til staðar.
Á kynningarfundinum í Bjarmanesi verður upp á kaffi og meðlæti og Kjartan Ragnarsson leikstjóri og forstöðumaður Landnámssetursins í Borgarnesi mun segja frá reynslu sinni og gefa góð ráð.
20.09.2010
Fimmtudaginn 23.september verður opið hús hjá Nesi listamiðstöð frá klukkan 18 til 20. Listamenn septembermánaðar bjóða Skagstrendingum og öðrum þeim sem áhuga hafa í heimsókn í vinnustofur sínar þar sem þeir munu sýna það sem þau hafa verið að vinna að undan farnar vikur.
Átta listamenn hafa dvalið hjá okkur í september og þeir eru:
Andrea Weber – innsetningar og teiknari – Frakkland/Þýskaland
Anja Fußbach – blönduð tækni – Þýskaland
Brandon Vickerd – myndhöggvari – Kanada
Caroline Piccioni – myndhöggvari – England
Clint Wilson – videólistamaður – Kanada
Erica Mott – dansari – Bandaríkin
Louise Mary Thomas – listmálari – England
Marion Bösen – silkiprentari – Þýskaland
Á sama tíma munu þær Marion og Anja hafa skiptimarkaðinn sinn opin. Öllum er velkomið að koma með eitthvað sem handgert og skipta við þær og fá í staðinn listaverk að eigin vali.
Það er t.d. hægt að koma með handverk eða bjóða þeim í bíltúr og sýna þeim eitthvað skemmtilegt. Einnig má segja þeim sögur eða jafnvel færa þeim eitthvað nýbakað eða eldað.
Notum hugmyndaflugið og skiptum.