01.02.2010
Boðað er til almenns íbúafundar í dag, mánudag 1. febrúar kl. 17 í Fellsborg. Fjallað verður um tillögur að aðalskipulagi sveitarfélagsins Skagastrandar 2010-2022.
Kynnt verður tillaga að landnotkun fyrir sveitarfélagið í heild og þéttbýli á Skagaströnd og auk þess umhverfis-skýrsla aðalskipulagsins.
Í aðalskipulagi er mörkuð stefna sveitarstjórnar um landnotkun í sveitarfélaginu til framtíðar. Tekin eru frá svæði fyrir samgöngu- og þjónustukerfi, atvinnusvæði, íbúðabyggð, frístundabyggð, verndarsvæði o.fl.
Megintilgangur fundarins er að gefa íbúum og hagsmunaaðilum tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum áður en gengið verður frá aðalskipulags-tillögunni til auglýsingar.
Skipulagsráðgjafar frá Landmótun gera grein fyrir tillögunum og taka á móti athugasemdum.
Íbúar eru hvattir til að mæta og hafa þannig áhrif á það samfélag sem þeir búa í.
Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri
29.01.2010
Tuttugu og þrír hressir krakkar kepptu fyrir hönd USAH á 14. Stórmóti ÍR í frjálsíþróttum í Laugardalshöllinni um síðustu helgi (23.-24. janúar). Margir þeirra voru að fara á sitt fyrsta frjálsíþróttamót og var mikil tilhlökkun fyrir mótið. Allir stóðu sig frábærlega og það sem mestu máli skiptir er að allir skemmtu sér konunglega. Metþátttaka var á mótinu og voru 758 keppendur skráðir til keppni.
Róbert Björn Ingvarsson sigraði í 800 m hlaupi í flokki pilta 13 ára.
Guðmar Magni Óskarsson sigraði í kúluvarpi í flokki pilta 13 ára.
Stefán Velemir varð í 2. sæti í kúluvarpi í flokki sveina 15-16 ára og Magnús Örn Valsson varð í 3. sæti í sama flokki.
Páll Halldórsson varð í 3. sæti í kúluvarpi í flokki strákar 11 ára.
Valgerður Guðný Ingvarsdóttir var með annan besta tímann í 60 m hlaupi í flokki hnáta 9-10 ára. Allir keppendur 9-10 ára fengu verðlaunapening.
Frábær árangur hjá Húnvetningunum.
29.01.2010
Snemma árs 2009 réðst Félag ferðaþjónustunnar í Skagafirði í undirbúningsvinnu við fyrirtækis um rekstur netsölukerfis. Ráðinn var starfsmaður, leitað var ráðgjafar hjá allmörgum og helstu netsölukerfi á markaðnum voru skoðuð.
Niðurstöður lágu fyrir á vormánuðum og var talið að Dísil-Booking-kerfið væri það öflugasta og áreiðanlegasta sem völ væri á í dag. Á það er komin góð reynsla, eins og dæmin sanna (sjá t.d. netsölukerfi Reykjavík Excursions á re.is, en þar hafa sölutekjur margfaldast síðan kerfið var tekið í notkun).
Ákveðið var að bíða með kaup á kerfi í fyrra, en þess í stað var farið út í tilraunaverkefni um beina sölu á ferðaþjónustu, í samstarfi við Upplýsingamiðstöð ferðamála á Norðurlandi vestra. Á rúmum tveimur mánuðum seldi miðstöðin fyrir um eina og hálfa milljón króna. Þeir sem voru duglegastir að bjóða uppá fastar ferðir og koma þeim upplýsingum daglega á framfæri við Upplýsingamiðstöðina, fundu fyrir talsverðri aukningu og seldu vel. Dæmi um góðan árangur eru sala á flúðasiglingum Ævintýraferða og hestaferðum á Lýtingsstöðum. Reynsla sumarsins var dýrmæt og nýtist í framhaldinu.
Stofnun og rekstur Icelandbooking ehf
Vaxtarsamningur Norðurlands vestra veitti styrk til að koma fyrirtækinu á laggirnar, auk þess sem þegar liggja fyrir hlutafjárloforð uppá hálfa milljón króna. Stefnt er að því að hluthafar verði alls um 20-25, með heildarhlutafé uppá tvær milljónir króna. Með því væri rekstrargrundvöllur tryggður til tveggja ára, en það er sá tími sem áætlað er að taki reksturinn að verða sjálfbæran.
Kynningarfundir miðvikudaginn 3. febrúar.
Kl. 09:30 – Hótel Varmahlíð
Kl. 13:30 – Hótel Blönduós
Kl. 16:30 – Sveitasetrið Gauksmýri
Þar verður m.a. sagt frá reynslu af sölunni í Uppl.miðstöðinni 2009 og kostir netsölukerfisins kynntir. Farið verður yfir rekstrarforsendur og framtíðarsýn Icelandbooking ehf og hver ávinningur ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi vestra getur orðið. Kaffiveitingar og umræður að kynningu lokinni.
Kynning á netsölukerfi Icelandbooking.is
Gríðarleg aukning hefur orðið í því að ferðalangar skipuleggi fríin sín sitjandi við tölvuna heima og ferðist á eigin vegum. Á ráðstefnu Útflutningsráðs fyrr í vetur kom fram að þeir sem eru ekki að selja á netinu í dag eru beinlínis að tapa viðskiptum.
Það er ekki nóg að hafa vefsíðu; hún þarf að finnast í leitarvélunum og það þarf að vera hægt að smella á „kaupa“! Krafa netnotandans í dag er að geta keypt á netinu það sem hefur vakið áhuga hans. Velta og hagnaður þeirra sem selja vörur sínar í netsölu vex með ótrúlegum hraða.
Gott netsölukerfi (gagnagrunnur sem heldur utan um vöruframboðið) og góð markaðssetning á sölusíðu (sá hluti sem sýnilegur er kaupanda) er hinsvegar ekki á færi nema stærri eða fjársterkari aðila. Á næstu árum eigum við eftir að sjá þetta leyst með öflugum sölusíðum, þar sem vörur margra smærri aðila eru í boði og mynda fjölbreitt og gott vöruframboð (nýlegt íslenskt dæmi eru litlubudirnar.is).
Ákveðið hefur verið að stofna einkahlutafélag um rekstur netsölukerfisins Icelandbooking.is fyrir ferðaþjónustu á Norðurland vestra, til að auðvelda fyrirtækjum að selja sínar vörur á netinu. Þegar horft er yfir sviðið er kynningarefni á vefsíðum oft með ágætum, bæði hjá ferðaþjónustufyrirtækjunum sjálfum og t.d. Visitskagafjordur.is, Nordurland.is, Northwest.is. En því miður er á lítið um það á þessum síðum að hægt sé að ganga frá kaupum á vörum og þjónustu, með þeim hætti sem í dag skilar mestum árangri.
Markmiðið með stofnun fyrirtækisins Icelandbooking.is, þar sem ferðaþjónustuaðilum af Norðurlandi vestra er boðið að vera hluthafar, er að ávinningur verði sem mestur fyrir heimamenn og að hagnaður af rekstri verði eftir heima í héraði.
Ávinningur öflugs netsölukerfis er margþættur:
Meiri sýnileiki á netinu, m.a. með tilliti til leitarvéla
Góður söluvefur er ódýrasta og hagkvæmasta markaðstæki sem völ er á
Netsölukerfi Icelandbooking er sjálfsafgreiðslustöð fyrir ferðamenn
Gott vöruframboð á einum stað
Ferðamaður raðar sjálfur saman mörgum vörum í körfu
Aukning á sölutekjum og arðsemi
Auðvelt að útbúa „ferðapakka“ úr þeim vörum sem eru í kerfinu (hestahelgi í Húnaþingi?)
Meiri skilvirkni og mikill vinnusparnaður við hverja sölu
Tekjur skila sér fyrr inn í reksturinn
Hagnaður af rekstri netsölukerfis verður eftir hjá hluthöfum í heimabyggð
Eigendur Icelandbooking.is ráða för í þróun á netsölukerfisins
28.01.2010
Boðið er upp á opið hús verður í kvöld hjá Nesi listamiðstöð ehf. og hefst viðburðurinn klukkan 18 og er til kl. 21.
Listamenn mánaðarins standa að boðinu og eru allir velkomnir. Eftirtaldir hafa dvalið í janúar á Skagaströnd:
Erla Haraldsdóttir, myndlistarmaður, kemur frá Íslandi
Craniv Boyd, myndlistarmaður, frá Bandaríkjunum
Micaela Tröscher, vinnur með blandaða tækni, frá Þýskaland
Jee Hee Park, vinnur með innsetningar, frá Suður-Kóreu
Gregory Carideo, vinnur með blandaða tækni, frá Bandaríkjunum
Anna Grunemann, vinnur með blandaða tækni, frá Þýskaland
Lisa Borin, vinnur með innsetningar, frá Kanada
27.01.2010
Á vefsíðu norrænu upplýsingaskrifstofunnar er að finna margvíslegar upplýsingar um styrki til ferðalaga og menningarmála. Ástæða er að hvetja fólk til að skoða heimasíðuna og kanna hvort það sé ekki í einhverjum þeim aðstæðum sem gera þeim mögulegt að að sækja um.
Veffangið er http://www.akmennt.is/nu/styrkir.htm og er síðan er á íslensku. Þarna er getið um nærri þrjátíu styrkmöguleiga eða aðila sem veita styrki.
Ef óskað er aðstoðar má hafa samband við ráðgjafa á skrifstu sveitarfélagsins.
21.01.2010
Nemendur Höfðaskóla fengu í gær endurskinsmerki að gjöf frá Björgunarsveitinni Strönd. Það voru þeir Reynir Lýðsson, formaður Björgunarsveitarinnar og Bjarni Ottósson varaformaður sem heimsóttu skólann og afhentu merkin.
Vel var tekið á móti þeim félögum. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum virðist börnunum hafa litist vel á merkin sem voru margvísleg að lit og lögun. Sumir áttu þó erfitt með að velja og tóku sér langan tíma í að skoða enda ósköp eðlilegt að hver og einn vilji merki við sitt hæfi.
Einnig var farið í leikskólann og þar voru móttökurnar ekki síðri og vonandi fengu allir þar merki sem passar þeim.
Það er svo von Björgunarsveitarinnar að allir verði duglegir að nota nýju endurskinsmerkin. Mestu skiptir að vera sýnilegur í myrkrinu sem er ansi mikið þessa dagana þó sól fari nú hratt hækkandi á lofti.
18.01.2010
Gleðibankinn býður upp á kvöldstund með Þórbergi Þórðarsyni á miðvikudaginn 20. janúar kl. 20:30 í Bjarmanesi. Tveir einstaklega góðir rithöfundar flytja dagskrá um Þórberg Þórðarson sem er óumdeilanlega einn af helstu snillingum þjóðarinnar.
Pétur Gunnarsson, rithöfundur, hefur af miklum hagleik skrifað þroskasögu Þórbergs og hann segir frá þessum æringja íslenskra bókmennta.
Jón Hjartarson, leikari og rithöfundur. Hann hefur bæði leikið Þorberg og ritað leikgerð um sögur hans.
Kvöldstund í Bjarmanesi með Þórbergi verður full af vangaveltum um lífið og tilveruna, einlæg og fyndin eins og hann kom lesendum sínum fyrir sjónir.
Dagskráin er í boði Minningarsjóðsins um hjónin frá Garði og Vindhæli.
14.01.2010
Landaður afli fyrstu fjóra mánuði fiskveiðiársins, þe. frá september til ársloka 2009, var 4.456 tonn.
Borið saman við sömu mánuði undanfarin fjögur ár er þetta mun meiri afli en áður, rúmlega 12% aukning frá árinu 2008, 136% frá 2007 og 84% frá 2006.
Afli síðustu fiskveiðiára er þessi:
2009-2010: 4.456 tonn
2008-2009: 8.228 tonn
2007-2008: 5.984 tonn
2006-2007: 9.273 tonn
Af þessu má sjá að sveiflurnar hafa verið mjög miklar. Aflinn í haust er til dæmis nálægt því að vera jafnmikill og allt árið 2007.
Góður afli barst á land í desember sl. og voru þessir bátar aflahæstir:
Arnar HU-1, 312,1 tonn
Sighvatur GK-57, 226,7 tonn
Fjölnir SU-57, 176.2 tonn
Gullhólmi SH-201, 65,3 tonn
Sex aðrir bátar lönduðu samtals 192,4 tonnum.
14.01.2010
Reiknað er með að rekstrarafkoma aðalsjóðs Skagastrandar skili um 31,6 milljóna króna afgangi samkvæmt fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2010 sem var samþykkt samhljóða á fundi sveitarstjórnar miðvikudaginn 13. janúar sl.
Gert er ráð fyrir að fjárfestingar á sveitarfélagsins verða á árinu tæplega 135 milljónir króna. áætlað er að handbært fé verði um 706 milljónir í árslok.
Álagningareglur fyrir árið 2010 verða sem hér segir:
Fasteignaskattur:
Álagning á íbúðarhúsnæði (A-flokkur) verði 0,43% af álagningarstofni.
Álagning á opinberar stofnanir (B-flokkur) verði 1,32% af álagningastofni.
Álagning á verslunar- og iðnaðarhúsnæði verði (C-flokkur) 1,58% (1,32% + 25%) af álagningarstofni.
Lóðarleiga:
Lóðarleiga verði 1,5% af fasteignamatsverði lóða.
Vatnsskattur:
Vatnsskattur verði 0,3% af fasteignamati, lágmark 7.000 kr. og hámark 21.000 kr.
Holræsagjald:
Holræsagjald verði 0,2% af fasteignamati lóða og mannvirkja
Sorphirðugjald /sorpeyðingargjald:
Sorphirðugjald verði 15.500 kr./íbúð.
Sorpeyðingargjald verði 7.500 kr./íbúð.
Sorpeyðingargjald á hesthús og fjárhús verði 2.500 kr./hús í notkun.
Sorpeyðingargjöld verði 10.000 – 200.000 eftir áætluðu magni sorps frá fyrirtækjum og stofnunum.
Nánari upplýsingar um fjárhagsáætlun Skagastrandar er að finna í fundargerð sveitarstjórnar sem birt er hér.
14.01.2010
Á fundi sveitarstjórnar Skagastrandar 13. janúar 2010 var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða:
Sveitarstjórn Skagastrandar skorar á ríkisstjórn Íslands að hætta við áform um sameiningu sjávarútvegs-, landbúnaðar- og iðnaðarráðuneyta í nýtt atvinnuráðuneyti. Sveitarstjórn telur að sú staða sem blasir við í íslensku efnahagslífi kalli enn frekar á að viðhalda öflugum sjálfstæðum ráðuneytum á sviði grunnatvinnugreina þjóðarinnar. Sveitarstjórn lítur svo á að fyrrgreindum grunnatvinnugreinum muni ætlað stórt hlutverk í endurreisn íslensks efnahags- og atvinnulíf