07.11.2013
Skagaströnd 1913
Gamalt póstkort frá Skagaströnd.
Á kortið er ritað þann 17. nóvember 1913. Tvílyfta húsið
lengst til vinstri er Verslunarstjórahúsið, sem seinna var kallað
Kaupfélagshúsið. Húsið var byggt um 1906 og stóð skammt
vestan við núverandi Gamla kaupfélagið við Einbúastíg. Stóra
rismikla húsið fyrir miðri mynd var pakkhús. Framundan því að
norðanverðu sést í Assistentahúsið.
Litla húsið vestan í Einbúanum var þvottahús.
Eins og sést var þessi mynd tekin áður en vinna hófst við
núverandi höfn (1934).
Þá var Einbúinn klettadrangur sem stóð fram í sjó í víkinni
sem annars var órofin frá Hólsnefi og inn að Bjargi (nú Breiðabliki).
Þjóðtrúin segir að álfar búi í Einbúanum og því boði það ógæfu fyrir
samfélgið ef hann verður skertur eða skemmdur á einhvern hátt.
Leyfi fékkst þó hjá álfunum til að koma fyrir fánastöng efst á
Einbúanum og þar er enn flaggað á tyllidögum.
Myndina tók Evald Hemmert kaupmaður.
06.11.2013
Morgunþrek mun byrja föstudaginn 8. nóv.2013
(ef næg þáttaka fæst).
Námskeiðið mun standa yfir í 6 vikur (12 tímar) og vera
á þriðjudögum og föstudögum kl.6:15 -7:00.
Vinsamlegast skrá sig í síðasta lagi fimmtudaginn 7. nóv á netfangið: bogig@simnet.is eða í síma 8972884
Gjald fyrir námskeiðið er 8000 kr.
Leiðbeinandi verður Sigrún Líndal
Hlakka til að sjá ykkur eldhress í morgunþreki
05.11.2013
Kæru bæjarbúar og nærsveitungar.
Þessa vikuna eru þemadagar í Höfðaskóla með yfirskriftinni Vináttudagar. Á þriðjudegi og miðvikudegi vinna nemendur að ýmsum verkefnum tengdum vináttu og baráttu gegn einelti.
Þann 8.nóvember (á föstudaginn) ætlum við síðan í vináttugöngu um bæinn. Sá dagur er helgaður baráttunni gegn einelti (www.gegneinelti.is).
Það myndi gleðja okkur mikið að sem flestir tækju þátt í göngunni með okkur. Stefnt er að brottför frá Höfðaskóla kl. 10:40 og gengið verður fyrir víkina að höfninni og aftur til baka.
(Ef svo ólíklega vill til að veðurguðirnir verði að stríða okkur, er vara skipulagið þannig að við hittumst í söng og leik í íþróttahúsinu kl. 12:00 á föstudeginum.)
Með fyrirfram þökk.
Nemendur og starfsfólk Höfðaskóla.
04.11.2013
Ný hitaveita var tekin formlega í notkun á Skagaströnd föstudaginn 1.nóvember þegar Árni Steinar Jóhannsson, stjórnarformaður RARIK hleypti vatni á dreifikerfið. Tenging húsa við kerfið er hafin.
Sveitarfélagið Skagaströnd og RARIK ohf. undirrituðu samning 30. desember 2011 um lagningu hitaveitu til Skagastrandar og 22.maí s.l. var fyrsta skóflustungan tekin fyrir dreifikerfi hitaveitu RARIK á Skagaströnd. Hitaveitan á Skagaströnd er stækkun Blönduósveitu sem nær yfir veitusvæði á Blönduósi og Skagaströnd, auk hluta af dreifbýlinu milli Blönduóss og Skagastrandar.
Hleypt var á stofnæðina til Skagastrandar fyrir nokkrum dögum. Þá var opnað fyrir til reynslu í dælustöðinni á Skagaströnd og búnaður prófaður. Hitastig vatnsins reyndist 61°C og mun hækka með aukinni notkun. Íbúar á Skagaströnd geta því tengt hús sín við veituna og eru hvattir til að tengjast sem fyrst
Heita vatnið kemur frá Reykjum í Húnavatnshreppi. Boruð var ný vinnsluhola til að mæta auknu álagi og stofnpípa til Blönduóss endurnýjuð, en sú framkvæmd var á dagskrá burtséð frá hitaveitunni á Skagaströnd.
Að undanförnu hefur verið unnið að frágangi á tengigrindum og uppsetningu mæla fyrir hitaveituna á Skagaströnd. Nýjustu tækni er beitt við mælingu og álestrar verða rafrænir og því verða allir reikningar byggðir á raunverulegri notkun, í stað þess að áætla milli álestra eins og algengast var. Sama gjaldskrá mun gilda fyrir allt veitusvæðið.
Samhliða lagningu dreifikerfis hitaveitu um Skagaströnd voru lögð rör fyrir ljósleiðara í öll hús sem tengjast hitaveitunni og má reikna með að ljósleiðaratengingar verði til staðar fyrir þá sem þess óska í byrjun næsta árs.
Heildarkostnaður við verkið var áætlaður um 1.117 m.kr. þar af var kostnaður við borun og virkjun nýrrar holu að Reykjum um 160 m.kr. og endurnýjun stofnpípu frá Reykjum til Blönduóss um 346 m.kr.
RARIK vill þakka íbúum Skagastrandar og Blönduóss fyrir mjög góða samvinnu við uppbyggingu veitunnar og óskar Skagstrendingum til hamingju með heita vatnið.
31.10.2013
Jón Kalman Stefánsson, Eiríkur Guðmundsson
og Óskar Árni Óskarsson
Rithöfundarnir þrír lesa upp úr verkum sínum og
spjalla við gesti í
Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra
í gamla kaupfélagshúsinu á Skagaströnd
Fimmtudaginn 31. október
Dagskráin hefst klukkan 20:00
Allir eru hjartanlega velkomnir að hlýða á og þiggja veitingar
31.10.2013
Kerlingin á Höfðanum
Myndin er af klettadrangi sem var úti á Höfða rétt
norðan við staðinn þar sem gamli, aflagði vegurinn
endar.
Upphaflega var kerlingin með "bók" og virtist vera að lesa í henni.
Bókin er horfin þegar þessi mynd var tekin. Sagt var að þetta
væri tröllkona/kerling að bíða eftir manninum sínum koma af
sjónum.
Hann kom ekki en hún sat og beið of lengi þannig að hún
breyttist í stein þegar sólin náði að skína á hana.
Því miður er kerlingin nú horfin vegna veðrunar þannig að þessi
mynd er skemmtileg minning um horfna tíð.
30.10.2013
FUNDARBOÐ
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar
fimmtudaginn 31. október 2013 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800.
Dagskrá:
1. Byggðakvóti – tillaga að sérstökum úthlutunarreglum.
2. Önnur mál
Sveitarstjóri
30.10.2013
S T Ó R T E N Ó R I N N
Kristján Jóhannsson
ásamt Jónasi Þóri, píanóleikara og
Matthíasi Stefánssyni, fiðluleikara
Kristján Jóhannsson, óperusöngvari,
heldur tónleika í
Hólaneskirkju á Skagaströnd
laugardaginn 9. nóvember 2013, kl. 20:30.
Kristján mun flytja margar gullfallegar
íslenskar og erlendar söngperlur.
Söngskráin verður mjög fjölbreytt,
léttir og leikandi tónleikar við allra hæfi.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir
Tónleikarnir eru í boði
Minningarsjóðsins
um hjónin frá Garði og Vindhæli
24.10.2013
Í ljósi sérstakra aðstæðna veturinn 2013-2014, þar sem fáir nemendur frá Skagaströnd sækja dreifnám á Blönduósi, hefur sveitarstjórn samþykkt að veita stuðning til þeirra nema sem hafa búsetu á Skagaströnd en ferðast daglega á milli heimilis og námsstaðar á Blönduósi.
Í grundvallaratriðum byggja reglurnar á að stuðningur vegna óhagræðis fyrir einn nemanda að kosta ferðir sínar á námsstað séu bættar með stuðningi sem nemur tvöföldum akstursstyrks Námsstyrkjanefndar (LÍN) á önn en sé um að ræða tvo nemendur verður stuðning á hvern nemanda sem nemur einum akstursstyrk á önn. Sé um að ræða að þrjá eða fleiri nemendur sem falla undir framangreindar skilgreiningar fellur sérstakur stuðningur sveitarfélagsins niður.
Reglurnar eru á heimasíðu sveitarfélagsins og má nálgast hér.
24.10.2013
Bankastræti
Á þessari mynd af Bankastræti sjást, vinstra megin við götuna,
talið frá vinstri: fjárhús/fjós og hlaða sem var í eigu Þórbjörns
Jónssonar á Flankastöðum, Höfðabrekka í eigu hjónanna
Björgvins Jónssonar (d. ?) og Þorgerðar Guðmundsdóttur (d. ?),
Bjarnarhöfn í eigu Bjarna Loftssonar (d.?) og Fanneyjar Jónsdóttur.
Lengra frá er Höfðakot með tilheyrandi útihúsum í eigu hjónana
Steingríms Jónssonar (d. 5.1.1992) og Halldóru Pétursdóttur
(d. 23.12.1987) og uppi í brekkunni stendur Höfðaberg í eigu
Júlíusar Árnasonar og Steinunnar Guðmundsdóttur sem fluttu
burtu og eru nú látin.
Hægra megin við götuna eru, næst okkur: Höfðaborg en í því eru
tvær íbúðir. Íbúðina nær okkur áttu og eiga enn hjónin
Adolf J. Berndsen og Hjördís Sigurðardóttir. Hina íbúðina áttu
hjónin Þórarinn Björnsson (d. 24.5.1985) og Gunda Cecelía
Jóhannsdóttir.
Þá koma Flankastaðir en þeir voru í eigu þeirra hjóna
Þórbjörns Jónssonar (d. 22.1.1996) og Guðmundu Árnadóttur.
Kárastaðir eru næstir. Þar bjuggu bræðurnir Sigurbjörn Kristjánsson
(d. 10.9.1989) og Kári Kristjánsson (d. 11.12.1990) ásamt ráðskonu
sinni Jónínu Valdimarsdóttur.
Í Stórholti sem er næst í röðinni (með kvist á þakinu) eru þrjár íbúðir.
Í norðurendanum bjó Gunnar Albertsson með konu sinni Hrefnu
Björnsdóttur ásamt móður hennar Steinunni Jónsdóttur(d.6.4.1982).
Á neðri hæðinni í suðurendanum bjuggu þegar myndin var tekin,
Gunnar Helgason (d. 19.10.2007) og konan hans
Elísabet G. Kristjánsdóttir (d. 21.3.1991).
Uppi í suðurendanum voru hjónin Bernódus Ólafsson
(d. 18.9.1996) og Anna H. Aspar (d. 1.9.1999).
Skálholt er síðan örlítið til hægri við Stórholt. Skálholt tilheyrir ekki
Bankastræti heldur Skagavegi. Allmargir hafa búið í Skálholti en
líklega hafa búið þar hjónin Benjamín Sigurðsson (d. 30.9.2004) og
Lára Loftsdóttir (d.21.4.2010) þegar myndin var tekin.
Til hægri við Skálholt sjást svo Sólheimar ( með kvisti). Það áttu
hjónin Ingvar Jónsson (d. 18.1.2003) og Elínborg Árnadóttir
(d. 7.4.1979). Sólheimar eru við Skagaveg eins og Skálholt.
Hægra megin við Sólheima og nær okkur á myndinni er Þórshamar
sem líka er við Skagaveg. Þegar myndin var tekin bjuggu líklega á efri
hæðinni Kristján Sigurðsson (d. 3.11.1966) og Unnur Björnsdóttir
(d. ?) kona hans.
Á neðri hæðinni voru Baldur Árnason (d.14.11.2009) og hans kona
Esther Olsen (d.17.4.2003). Hrólfur Jónsson (d.1.8.1989) og
Sigríður Guðlaugsdóttir (d. 25.3.1996) hétu hjónin sem bjuggu í
Bjarmalandi sem stendur hinum megin við Skagaveginn á móti
Skálholti.
Húsið lengst til hægri á myndinni var Þórsmörk. Hjónin Sigurður
Guðmonsson (d. 5.8.1981) og Hallbjörg Jónsdóttir (d. 22.12.1987) bjuggu
þar og þeim tilheyrðu líka fjáhúsin, hlaðan og hjallurinn sem bera í
Þórshamar á myndinni. Allt þetta fólk sem upp er talið hér að ofan
átti börn sem bjuggu að sjálfsögðu hjá foreldrum sínum .
Kárastaðabræður voru þó undantekning því þeir voru barnlausir en
hjá þeim ólst upp dóttir Jónínu ráðskonu þeirra.