09.12.2013
FUNDARBOÐ
Fundur verður haldinn í sveitarstjórn Skagastrandar
miðvikudaginn 11. desember 2013 á skrifstofu sveitarfélagsins kl 800.
Dagskrá:
1. Álagningarreglur útsvars og fasteignagjalda 2014
2. Fjárhagsáætlun 2014 (fyrri umræða)
3. Þriggja ára áætlun 2015-2017 (fyrri umræða)
4. Byggðasamlag um menningu og atvinnumál
a. Fundargerð stjórnar,14. nóvember 2013
b. Fundargerð stjórnar, 3. desember 2013
c. Fjárhagsáætlun byggðasamlagsins 2014
5. Félags og skólaþjónusta A-Hún:
a. Fundargerð stjórnar, 21. nóvember 2013
b. Fundargerð stjórnar, 28. nóvember 2013.
c. Fjárhagsáætlun Félags og skólaþjónustunnar 2014
6. Tónlistarskóli A-Hún:
a. Fundargerð stjórnar, 24. október 2013
b. Fjárhagsáætlun Tónlistarskólans 2014
7. Skólamál
8. Bréf:
a. Ungmennafélags Íslands, dags. 15. nóvember 2013
b. Stéttarfélaginu Samstöðu, dags. 18. nóvember 2013
c. Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, dags. 18. nóvember 2013
d. Lindu B. Ævarsdóttur, dags. 11. nóvember 2013
e. Heilbrigðisstofnunar til Velferðarráðuneytisins, dags. 11. nóvember 2013
f. Landskerfis bókasafna, dags. 8. nóvember 2013
g. Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, dags. 23. október 2013
9. Fundargerðir:
a. Menningarráðs Norðurlands vestra, 27.11.2013
b. Skólanefndar FNV, 14.11.2013
c. Heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra, 2.12.2013
d. Stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, 25.10.2013
e. Stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, 22.11.2013
10. Önnur mál
Sveitarstjóri
05.12.2013
Lokamessan.
Síðasta messan í gömlu Hólaneskirkjunni 6. október 1991.
Kirkjan var seinna afhelguð og í framhaldi af því var hún rifin.
Hafði hún þá þjónað söfnuðinum í rúmlega 63 ár
frá 17. júní 1928 þegar hún var vígð.
Á myndinni er Julian Hewlet organisti og Rosemary Hewlet
undirleikari á þverflautu.
Í kórnum eru frá vinstri: Sigurður Bjarnason frá Bjargi,
Guðrún Guðbjörnsdóttir, Karl Guðmundsson (d. 11.12.2011)
frá Vindhæli (aftast), Dagný Hannesdóttir, Hidigunnur Jóhannsdóttir
(d. 1.1.1996), Friðjón Guðmundsson (d. 7.1.2001) (gráhærður),
Kristján Hjartarson (d. 2.8.2003), Hrafnhildur Jóhannsdóttir (Abbý),
Bára Þorvaldsdóttir, óþekkt, Sigmar Jóhannesson (d. 20.4.2000),
Gylfi Sigurðsson, Hjördís Sigurðardóttir og Kristín Kristmundsdóttir.
Allir kórfélagar, sem hér eru taldir og eru enn á lífi, þjóna nú í
nýju kirkjunni nema Kristín sem hætti fyrir nokkrum árum.
Kirkjugestir sem sjást á myndinni eru frá vinstri:
feðgarnir Jóhann Guðbjartur Sigurjónsson og Sigurjón Guðbjartsson
frá Vík. Við hlið Sigurjóns situr Hildu Inga Rúnarsdóttir, sem seinna
vígðist til prests, og framan við þau þrjú sést Erla María Lárusdóttir.
03.12.2013
Skráningu fyrir vorönn lauk nú um helgina og ljóst er að nemendum Dreifnáms í A-Hún fjölgar um sex um áramót sem verður að teljast mjög góður árangur en fyrir voru nemendur alls 13 talsins. Á vorönn hefja því 19 nemendur nám að loknu jólaleyfi.
Nýnemarnir eru ólíkir innbyrðis, þeir hafa ýmist verið í öðrum skólum nú á haustönn og eru að flytja heim eða eru að byrja nám eftir langt hlé. Einnig eru dæmi um að nemendur hafi búið á heimavist FNV og nýti nú tækifærið og haldi áfram námi í heimabyggð.
Þessi tíðindi eru sérlega gleðileg og sýna svo ekki verður um villst að dreifnám í A-Hún er að festa sig í sessi og sanna gildi sitt fyrir heimamönnum.
Þessa dagana standa svo yfir skráningar í meistaranám fyrir iðnaðarmenn, almenna hluta, sem kennt verður á vor- og haustönn 2014. Nemendur A-Hún í meistaranáminu munu nýta aðstöðu dreifnámsins að Húnabraut 4 á Blönduósi. Skráningu lýkur í meistaranámið þann 12. desember. Skráning fer fram á skrifstofu FNV í síma 455-8000.
28.11.2013
Handavinnusýning.
Vorið 1987 héldu eldri borgara sýningu í
Höfðaskóla á handavinnu sinn sem þau höfðu
unnið yfir veturinn undir leiðsögn
Guðrúnar Guðmundsdóttur sem þá sá um
félagsstarf aldraðra á Skagaströnd.
Í gegnum árin hefur reynst erfitt að fá
karlmenn inni í félagsstarfið og þess
vegna eru einungis konur á myndinni.
Lengst til vinstri á myndinni er
Guðrún Guðmundsdóttir leiðbeinandi og
kaupkona þá Jóhanna Thorarensen ( d. 6.3.2004)
frá Litla Bergi, Jóna Guðrún Vilhjálmsdóttir (d.13.7.2003) frá Dagsbrún,
Hrefna Jóhannesdóttir (d. 9.11.2011) frá
Garði, Sigurlaug Jónsdóttir (d. 15.8.2011)
frá Ási, Laufey Sigurvinsdóttir ( 21.12.1994)
frá Litla Bergi og Sigríður Fanný Ásgeirsdóttir
(d. 11.12.2006) frá Lækjarbakka.
Allar bjuggu þessar konur á Skagaströnd
með fjölskyldum sínum mestan hluta ævinnar
og settu mark sitt á bæinn.
Hrefna var nýlega orðin 100 ára þegar hún lést.
27.11.2013
Draugasögukvöld
Laugardaginn 30. nóv. klukkan 21:30 verður haldið draugasögukvöld í Spákonuhofinu á Skagaströnd. Sögurnar henta fyrir 14 ára og eldri en eru ekki fyrir viðkvæmar sálir.
Gamlar og nýjar draugasögur sem gerst hafa í nágrenninu og víðar.
Aðgangseyrir er krónur 500.-
Ráðgert er svo að halda annað draugasögukvöld fyrir yngri kynslóðina í næstu viku, það verður auglýst síðar.
Menningarfélagið Spákonuarfur
26.11.2013
Árlegur jólaföndurdagur foreldrafélagsins verður haldinn laugardaginn 30. nóvember frá kl. 13 – 16.
Jólaföndrið er opið öllum sem vilja koma, endilega bjóðið ömmu og afa eða hverjum sem er með því hingað til hefur þetta verið frábær dagur þar sem fjölskyldan kemur saman, föndrar og hefur gaman af.
Piparkökubaksturinn á Leikskólanum Barnabóli er sama dag, eins og undanfarin ár.
Foreldrafélagið verður með ýmis konar jólaföndur til sölu á hóflegu verði og einnig verður hægt að kaupa kaffi, djús og kökur.
Mjög gott er að hafa í huga að koma með skæri, límstifti, föndurliti, pensla og nálar ef fólk á.
Vonumst til að sjá sem flesta í jólaskapi.
Stjórn foreldrafélagsins
22.11.2013
Í tilefni af 80 ára afmæli björgunarsveitarinnar Strandar þann 22. næstkomandi verður opið hús í Bjarnabúð sunnudaginn 24. nóvember á milli 14:00 og 17:00.
Klukkan 15:00 mun Lárus Ægir Guðmundsson færa sveitinni að gjöf ágrip af sögu sveitarinnar í 80 ár.
Allir velkomnir, kaffi og léttar veitingar í boði.
Stjórn björgunarsveitarinnar Strandar
https://www.facebook.com/bjorgunarsveitin.strond?fref=ts
21.11.2013
Veturinn 1994 -1995 var sérlega snjóþungur og
illviðrasamur. Einkum átti þetta við um tímann frá jólum og fram í maí.
Snjóþyngslin voru svo mikil að erfitt var að moka göturnar og á sumum þeirra var snjórinn látinn eiga sig og hann troðinn með snjótroðara og síðan óku bílarnir á ca tveggja metra þykkum sköflum.
Í einu norð-austan óveðrinu í febrúar hlóðst svo mikil ísing á báta í höfninni að menn urðu að standa vaktina og moka af þeim.
Í tilviki Hafrúnar Hu 12 tókst ekki að moka og berja ísinguna af nógu hratt þannig að hún sökk í höfninni.
Hafrún var í eigu bræðranna Sigurjóns og Árna Guðbjartssona en þeir brugðust fljótt við og fengu sérfræðinga til að aðstoða sig við að ná Hafrúnu úr kafi.
Myndin var einmitt tekin þegar báturnn var að koma upp eftir að lofthylkjum hafð verið raðað á hann til að lyfta honum upp í yfirborðið. Þá var hafist handa við að dæla sjó úr bátnum þar til hann fór að fljóta sjálfur. Þeir bræður voru ekki á því að gefa Hafrúnina upp á bátinn heldur endurbyggðu þeir og breyttu henni með glæsibrag og skiptu um vél og annað sem þurfti.
Nokkrum árum seinna seldu þeir bátinn í burtu en nokkrum árum þar á eftir keyptu þeir Hafrúnina aftur og er hún enn gerð út frá Skagaströnd af Sigurjóni Guðbjartssyni eftir því sem kvótinn leyfir
14.11.2013
Bryggjusmiðir
Mörgum finnst gott að eiga lítinn bát til að geta sótt
sér fisk í soðið. Allmargar jullur og smærri trillur eru
því til á Skagaströnd en slíkir bátar þarfnast aðstöðu
við hæfi eins og aðrir stærri bátar.
Vorið 1993 gerðu trillu- og jullukarlar samning við sveitarstjórn
um að fá að smíða flotbryggju fyrir báta sína og jafnframt um
staðsetningu hennar í höfninni. Samningurinn fól í sér að
sveitarfélagið skaffaði efni í bryggjuna en bátakarlarnir skyldu
smíða hana og hjálpa til við að koma henni fyrir. Voru báðir
aðilar ánægðir með samninginn.
Fljótlega tók hópurinn á myndinni sig til og smíðaði tvær
flotbryggjulengjur sem tengdar voru saman í eina bryggju
þannig að það myndaðist viðlegupláss fyrir allmargar jullur.
Var bryggjunni komið fyrir ofan við (norðan við) og í skjóli við
smágarð.
Reynslan af þessari bryggju var svo góð að nokkrum árum
síðar lét sveitarfélagið byggja aðra eins og koma fyrir á sömu
slóðum.
Á þessari mynd eru hressir bátakarlar við nýsmíðaða
flotbryggju - lengju 1993.
Frá vinstri: Jóhann Sigurjónsson, Guðmundur Björnsson,
Baldvin Hjaltason, Vilhjálmur Skaftason,
Skafti Fanndal Jónasson (d. 2.9.2006), Snorri Gíslason (d. 29.5.1994),
Þorvaldur Skaftason, Stefán Jósefsson, Árni Björn Ingvarsson og
Árni Geir Ingvarsson.
Á myndina vantar Ragnar Smára Ingvarsson og Ólaf Bernódusson
sem tók þessa mynd. Þess má geta að nú 20 árum eftir smíðina
eru bryggjurnar enn í fullri notkun yfir sumarmánuðina.
14.11.2013
Breyting á Aðalskipulagi Skagastrandar 2010-2022
Lenging á sjóvörn við Bót
Sveitarstjórn Skagastrandar samþykkti 16. október 2013 tillögu að óverulegri breytingu á Aðalskipulagi Skagastrandar 2010-2022 samkvæmt 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Breytingin felst í að sjóvörn við Bót verður 150 m lengri en fram kemur í gildandi aðalskipulagi. Greinargerð með rökstuðningi er á uppdrætti dags. 16. október 2013 í mkv. 1:10.000, sjá heimasíðuna www.skagastrond.is hér
Breytingin hefur verið send Skipulagsstofnun til staðfestingar. Þeir sem óska nánari upplýsinga geta snúið sér til sveitarstjóra Skagastrandar.
Sveitarstjóri Skagastrandar