Ljósmyndasýning opnuð í miðbæ Skagastrandar

Ljósmyndasýningin „Skagaströnd í nýju ljósi“ verður formlega opnuð í miðbæ Skagastrandar í dag kl. 13. Sýndar eru tuttugu myndir eftir þrettán ljósmyndara. Myndirnar valdi dómnefnd sem skipuð var vegna ljósmyndasamkeppni sem Sveitarfélagið Skagaströnd stóð fyrir í júní.  Mikil þáttaka var í keppninni og sendu tuttugu og fjórir ljósmyndarar 154 myndir í keppnina. Af þeim voru 20 myndir valdar fyrir sýninguna. Tilgangurinn með ljósmyndasýningunni er að lífga upp á miðbæ Skagastrandar og jafnframt að vekja athygli ferðamanna á einstökum stöðum sem í sveitarfélaginu.  Myndirnar tuttugu hafa nú verið prentaðar á álplötur. Og festar á ramma sem Trésmiðja Helga Gunnarssonar á Skagaströnd sá um að útbúa.  Sýningin mun standa fram undir miðjan september.

Smá kántrý í öllum

Sumarið er tími úti- og bæjarhátíða á Íslandi. Við ferðumst mörg hornanna á milli til þess að njóta landsins gæða og gestrisni landsbyggðarinnar. Stærstu hátíðarnar standa yfir venju samkvæmt um verslunarmannahelgina, sem markar í hugum margra lok ferðarsumarsins. En í sveitarfélaginu Skagaströnd, er ár hvert haldin merk hátíð, sem á að höfða til þeirra sem vilja framlengja ferðasumarið um ögn. En sú hátíð er hin margrómaða hátíð, Kántrýdagar. Þessi menningarhátíð er afsprengi Kántrýhátíðarinnar sem haldin var um verslunnarmannahelgar hér um árin. Á mjög skömmum tíma varð sú hátíð líkt og flestir, nema fáeinir Vestmannaeyjingar muna, sú allra stærsta á landinu. Þá lögðu mörg þúsund Íslendingar leið sína til Skagastrandar til að njóta helgarinnar í vöggu kántrýsins á Íslandi. Seinna var hátíðin svo færð fram í miðjan ágúst, til að reyna undirstrika hvað þessi hátíð á að ganga út á, þ.e. hátíð fyrir fjölskylduna og unnendur kántrýsins. Hátíðin sækir uppruna sinn að sjálfsögðu til Kántrýkóngsins Hallbjörns Hjartarsonar, sem hefur eytt ævinni í að kynna kántrý fyrir landanum og ávallt verið bæjarfélagi sínu til mikils sóma. En fyrir utan alla tónlistina reisti hann Kántrýbæ þar sem nú er rekið veitingahús og hýsir útvarp Kántrýkóngsins, Útvarp Kántrýbæ. Hátíðin hefst venju samkvæmt þegar skotið er úr fallbyssunni á föstudag. Fá bæjarfélög, eru að sögn kunnugra, svo vel vopnum búin. Þegar hátíðin er hafin taka við ótal mismunandi dagskrárliðir, sem spanna allt frá námskeiðum í töfrabrögðum fyrir yngri kynslóðina til varðeldar fyrir alla fjölskylduna. Hvert kvöld er svo að sjálfsögðu spilað fyrir dansi fyrir eldri kynslóðina.  Aðstæður fyrir ferðamenn eru til fyrirmyndar og gestrisni heimamanna í fyrirrúmi, en í bæjarfélaginu er rekið fyrsta flokks tjaldstæði fyrir hvers kyns gistikosti. Fyrir kylfingana er aðeins tíu mínútna keyrsla í Háagerðisvöll, sem er „best geymda leyndarmál kylfinga á Íslandi“ skv. bókinni Golfhringir á Íslandi  eftir Edwin Rögnvaldsson. Rúsínan í pysluendanum er svo að sjálfsögðu hin fræga gospelmessa kirkjukórs Hólaneskirkju undir stjórn Óskars Einarssonar á sunnudagsmorgun. En þangað sækja ótal margir unnendur gospels og kóratónlistar innblástur hvert ár í hátíðartjaldinu.  Þungamiðjan og það sem allt snýst um er að sjálfsögðu kántrýið. Hvergi er betra að sleppa kúrekanum í sjálfum sér lausum en í heimabæ kántrýsins. Enginn er svo stirðbusalegur að hann hökti ekki aðeins í takt þegar línudansinn brestur á undir ávanabindandi takti Willie Nelson og Hallbjörns Hjartar. Því það er hálfopinber staðreynd, að það er smá kántrý í okkur öllum.  Ferðasumarið er langt frá því búið og þeir sem vilja skella sér á eina útihátíð í viðbót í vinalegu og afslöppuðu andrúmslofti, ættu ekki að láta Kántrýdagana fram hjá sér fara. Það er þó ráðlegt fyrir gesti að skilja indíána klæðin eftir heima, a.m.k meðan innfæddir eru að brúka fallbyssuna. Birtist fyrst á Deiglan.com

Sýningar og tónleikar á Kántrýdögum

Dagskrá Kántrýdaga er nú komin á heimasíðu sveitarfélagsins. Á morgun verður henni dreift á öll heimili í Austur-Húnavatnssýslu og plaköt sett upp í verslunum á Blönduósi og Sauðárkróki. Vakin er sérstök athygli á menningarlegum liðum Kántrýdaga. Í raun eru það allir dagskrárliðir en í þetta skipti skal litið á sýningar og tónleika. Fyrst ber að nefna galleríið með skemmtilega nafninu Djásn og dúllerí. Það hefur nú verið starfandi í mánuð og vakið óskipta athygli ferðamanna. Þar er að finna til sölu margvíslegan varning eftir handverksfólk og hagleikssmiði á Skagaströnd og víðar í sýslunni. Í Frystinum í Nesi listamiðstöð verður einstök listsýning. Fjölmargir þeirra rúmlega tvö hundruð listamanna sem dvalið hafa á Skagaströnd undanfarin tvö ár leggja til verk. Þeir segja þau vera innblásin vegna dvalar þeirra í bænum og af því er nafn sýningarinnar dregið, Ispired by Skagaströnd. Á efstu hæðinni í Gamla kaupfélaginu verður ljósmyndasýningin Línur í landslagi. Myndirnar hefur Sigurður Sgiurðarson tekið á ferðum sínum, sumar og vetur, i kringum Spákonufell. Í Bjarmanesi verða tónleikar á föstudagskvöldið og þar kemur Ragnheiður Gröndal fram og hljómsveit hennar. Síðar um kvöldið verða Langi Seli og Skuggarnir með tónleika í Bjarmanesi. Á laugardeginum verða um miðjan dag tónleikar í Bjarmanesi með Spottunum. Þeir leika og syngja lög eftir sænska vísnaskáldið Cornelius Vreesvjik. Síðar um kvöldi syngja Cohen systur lög Leonard Cohens. Af þessu má sjá að dagskrá Kántrýdaga lofa góðu í sýningum og tónleikum.

Listaverk á gafl síldarþrónna

Hópur ungs fólks hefur síðustu tvo daga unnið að því að mála listaverk á gaflinn á gömlu síldarþrónum við höfnina. Listamennirnir eru á leið sinni í kringum landið í þeim tilgangi einum að lífga upp á bæi með því að færa list sína á ljótu veggina sem áreiðanlega fyrirfinnast í öllum byggðarlögum. Á Skagaströnd fundu listamennirnir þrærnar. Þar hefur nú mikið listaverk verið að fæðast og von er á að það klárist í dag. Veggskreytingin er í graffítistíl. Í þúsundir ára hafa listamenn mála á veggi. Þekktar eru slíkar skreytingar frá tímum Grikklans hins vorna og Rómaveldis. Nú á tímum hafa sprey brúsar leyst hin hefðbundnu verkfæri af hólmi. Oftar en ekki hefur verið amast við graffítí á veggjum enda viða lítil prýði af þeim. Þá hefur lítið farið fyrir listinni og þá frekar verið um ruddalegan boðskap að ræða eða hrein skemmdarverk á eigum fólks. Slíkur vandalismi hefur aðeins það markmið að höfundurinn er að merkja sér staði. Engu að síður hefur listin breyst á síðustu áratugum og er nú uppfull táknmynda með ákveðnum boðskap,til dæmis pólitiskum, umhverfislegum, mannlegum o.s.frv.  Listamennirnir sem eru í heimsókn á Skagaströnd eru allir í listnámi af einhverju tagi og hafa langa reynslu að baki. Á gaflinn á þrónum eru þeir að mála verk sem meðal hann hefur skírskotun til sæskrímsla en í miðju verksins er skjaldamerki ríkisins með sínum fjórum kykvendum. Hópurinn leggur alla sína vinnu fram án endurgjalds, tekur ekkert fyrir kostnað vegna efnis en hins vegar fær hann að sofa í félagsheimilinu Fellsborg. Eins og títt er um ung fólk með hugsjón hefur það ekki mikinn pening handa á milli. Það var því kærkomið að Samkaup og Söluskálinn sameinuðust um að gefa því kleinur, kökur og drykki í kaffihléinu síðdegis í gær. Hópurinn bað þess vegna fyrir góðar kveðjur til þessara fyrirtækja og þakkar kærlega fyrir allt matarkyns sem gaukað er að þeim. Á efstu myndinni eru þessir listamenn, talið frá vinstri: Kristín og Narfi í stigunum, Ingi er uppi á skúrnum, og þá Daníel, Brynja, Dýrfinna og Loki.

Stefán Velemir sigraði í kúluvarpi á unglingalandsmótinu

Unglingalandsmót UMFÍ var haldið í 13. sinn um verslunarmannahelgina. Aldrei hefur mótið verið jafn stórt og í ár og keppt var í fjölbreyttum greinum. Frá USAH voru skráðir 38 keppendur í frjálsíþróttum, fótbolta og sundi. Allir keppendur frá USAH stóðu sig með stakri prýði og voru félaginu til mikillar sóma.   Mjög góður árangur sést í kastgreinum frá félaginu en þar hreppti félagið nokkra verðlaunapeninga.  Í kúluvarpi hjá sveinum 15 – 16 ára kastaði Stefán Velemir frá Skagaströnd 14,26 og sigraði í þeim flokki. Magnús Örn Valsson náði 3. sætinu og Brynjar Geir Ægisson var í því 8.  Í kúluvarpi 13 ára pilta kastaði Guðmar Magni Óskarsson 10,84 og náði 2. sætinu og kúluvarp hjá drengjum 17 – 18 ára var Sigmar Guðni Valberg í 2. sæti og kastaði 11,64.  Í spjótkasti kastaði Kristrún Hilmarsdóttir 18,18, í flokki stelpur 11 ára, og náði 2. sæti og Sigmar Guðni kastaði 11,64 í sínum flokki og hreppti 3. sætið. Í 100 m hlaupum náðu tveir keppendur frá USAH á pall og Guðrún Dóra Sveinbjarnardóttir hljóp á 13,67 sek í flokki telpur 13 ára og í flokki pilta 14 ára hljóp Auðunn Þór Húnfjörð á 13,02 og náðu þau bæði 2. sæti í sínum flokkum Einnig stóðu keppendur í knattspyrnu mjög vel og í 2. flokki stráka var blandað lið frá USAH/UMSB í 3 sæti og blandað lið frá UMSS/USAH2 náðu einnig sæti í 3. flokki hjá strákum.  Hægt er að skoða úrslit frá mótinu inn á www.ulm.is undir úrslit.  Mótið heppnaðist mjög vel og ég vil þakka öllum foreldrum og aðstandendum sem hjálpuðu til við undibúning og aðstoðuðu á mótsstað kærlega fyrir mikla og góða hjálp. Við getum verið stolt af okkar fólki. Ásta Berglind Jónsdóttir Framkvæmdarstjóri USAH

Ný endurvinnslustöð tekin í notkun

Ný endurvinnslustöð var opnuð við Vallarbraut á Skagströnd fimmtudaginn 29. júlí 2010. Rekstur stöðvarinnar byggist á samningi sem rekstraraðili hennar, Sorphreinsun Vilhelms Harðarsonar ehf., hefur gert við Sveitarfélagið Skagaströnd um byggingu og rekstur gámastæðisins. Með opnun gámastöðvarinnar verður boðið upp á móttöku og flokkun á úrgangi sem fer til endurvinnslu. Jafnframt batnar aðstaðan til losunar úrgangs, bæði flokkaðs og óflokkaðs. Þangað verður einnig hægt að koma færa stærri hluti til flokkunar og endurvinnslu við bestu aðstæður. Íbúar þurfa ekki að greiða fyrir þjónustu endurvinnslustöðvarinnar en fyrirtæki og stofnanir greiða samkvæmt sérstakri gjaldskrá. Flokkað efni til endurvinnslu er þó í flestum tilvikum gjaldfrjálst. Opnunartími verður sem hér segir: Þriðjudaga, kl. 16:00 - 18:00 Fimmtudaga, kl. 16:00 - 18:00  Laugardaga, kl. 13:00 - 17:00 Meðfylgjandi myndir voru teknar við vígslu endurvinnslustöðvarinnar.

Undirbúningur í Stekkjarvík gengur vel

Framkvæmdir við gerð nýs urðunarstaðar í landi Sölvabakka ganga vel. Héraðsverk hefur að undanförnu unnið að efnisflutningum úr fyrirhuguðu urðunarhólfi með stórum beltagröfum og svokölluðum „búkollum“.  Grafið hefur verið niður á um 7 m dýpi en fullnaðardýpi í hólfinu verður um 20 m frá landyfirborði. Afköst í verkinu hafa verið með ágætum og hafa efnisflutningar verið á bilinu 8 – 12.000 m3 á dag. Efnisflutningar í heild eru um 390 þús. m3.  Á fundi stjórnar Norðurár bs 28. júlí var ákveðið að taka upp nafnið Stekkjarvík í stað þess að kenna urðunarstaðinn við bæinn Sölvabakka. Stekkjarvík er örnefni á víkinni rétt vestan við urðunarhólfið. 

Mynd komin á dagskrá Kántrýdaga

Skagstrendinga ætla að skemmta sér saman helgina 13. til 15. ágúst. Um leið er öðru góðu fólki heimilt að koma í bæinn og njóta helgarinnar. Þó er eitt skilyrði sett, aðeins skemmtilegt fólk fær aðgang. Nokkur mynd er farin að færast á dagskrá Kántrýdaga og er líklegt að flestir geti þá fundið sér eitthvað til skemmtunar og ánægju.  Sem fyrr er gert ráð fyrir að íbúar skreyti götur bæjarins en skreytingarnar hafa sett mikinn svip á hann síðustu árin. Yfirleitt er skreytt á fimmtudeginum og um kvöldið verður hressilegt upphitunarball í Kántrýbæ. Föstudagur 13. ágúst Formlega hefjast Kántrýdagar föstudaginn 13. ágúst kl. 18 með fallbyssuskoti. Þennan dag verður margt í boði. Nefna má húsasmíðar yngstu kynslóðarinnar á Kofavöllum. Þá verður haldið námskeið í töfrabrögðum fyrir börn og unglinga, listsýning verður í Nes listamiðstöðinni og spákonurnar bjóða þeim sem vilja að skyggnast í framtíð sína. Síðar um kvöldið verða tónleikar í hátíðartjaldi þar sem 59’ers og Janus leika. Varðeldur verður kveiktur á Hólanesi og sungið við undirleik þar til tími er kominn til að fara á tónleika í Bjarmanesi eða á ball í Kántrýbæ en þar heldur hljómsveitin Janus uppi miklu fjöri. Laugardagur 24. ágúst Hin síðustu á hefur Spákonuarfur staðið fyrir gönguferð upp á Spákonufell um kl. 10 á laugardagsmorgni og alltaf hefur fjöldi manns lagt á sig að ganga upp á þetta fallega fjall. Fjölmargt annað er á dagskránni á laugardeginum. Nefna má dorgveiðikeppni, galleríið Djásn og dúllerí í Gamla kaupfélagshúsinu verður að sjálfsögðu opið, markaður verður í Miðnesi, tónleikar í Bjarmanesi og spákonurnar munu ekki láta sitt eftir liggja frekar en fyrri daginn. Barna- og fjölskylduskemmtun verður í hátíðartjaldi. Börn munu sýna töfrabrögð, börn munu taka þátt í söngkvakeppni og fleira mætti nefna. Um kvöldið verður dagskrá í hátíðartjaldi þar sem fram koma heimamenn og auk þeirra Bjartmar og bergrisarnir, hljómsveitin Spottarnir og fleiri. Nokkru síðar verða tónleikar í Bjarmanesi. Um leið hefst ball í Kántrýbæ þar sem Bjartmar Guðlaugsson og bergrisarnir leika fyrir dansi. Sunndagur 15. ágúst Sunnudagurinn er ekki síður góður á Kántrýdögum. Sem fyrr er galleríið með fallega nafninu Djásn og dúllerí opið og listsýning er í Nes listamiðstöðinni. Að venju verður gospelmessa í hátíðartjaldinu og þar mun kirkjukór Hólaneskirkju syngja undir stjórn Óskars Einarssonar. Loks má nefna að kaffihlaðborð í Bjarmanesi þar sem Húnabandið og Rúna munu leika og syngja gestum til ánægju.

Skagstrendingar komnir heim af Hornströndum

Vikulangri Hornstrandaferð Skagstrendinga lauk í gær „... og allir komu þeir aftur og enginn þeirra dó.“ Sautján manns tóku þátt og þar af tvö börn. Hópurinn gekk á fjöll, um björg og á jökul og naut einstakrar veðurblíðu svo að segja allan tímann. Ferðin hófst í Norðurfirði á Ströndum miðvikudaginn 21. júlí. Þaðan var siglt í glampandi sólskini og norðaustan andvara í Hornvík, verður sem hélt sér nokuð óbreytt alla ferðina. Í Hornvík var komið rétt fyrir hádegi og því um fátt annað að ræða en að koma upp tjaldbúðum og halda síðan í göngu. Hornbjarg freistar allra og var því fyrst gengið út með víkinni og upp á Hnúkinn, fremsta hluta bjargsins. Síðan var gengið því sem næst með bjargbrún inn að tindunum Jörundi og Kálfatindu og aftur inn að tjaldbúðunum við Höfn. Daginn eftir var gengið inn í Hvanndal við Hælavíkurbjarg. Þar er hinn frægi Langikambur, mjór berggangur sem gengur langt út í sjó rétt eins og bryggja.  Reykjarfjörður er stórkostlegur staður, ekki aðeins fallegur frá náttúrunnar hendi, heldur hefur þar lengi verið rekin ferðaþjónusta. Árið 1931 var byggð sundlaug í Reykjarfirði því eins og nafnið bendir til er jarðhiti í firðinum. Síðar var hún endurnýjuð og nú er þarna fyrirtaks aðstaða fyrir ferðamenn sem gönguglaðir Skagtrendingar nýttu sér óspart. Í Reykjarfirði var dvalið í fjóra daga. Gengið var á Geirhólma, Þaralátursnes, farið á Drangajökul og gengið á Hljóðabungu og Hrolleifsborg. Sólbrenndir og kátir komu ferðafélagarnir til baka í Norðurfjörð mánudaginn 26. júlí. Flestur hefðu getað hugsað sér að vera lengur á Hornströndum en hlökkuðu þó til að aka suður Strandasýslu enda landslaga óvíða fegurra og tilkomumeira. Meðfylgjandi myndir voru teknar í ferðinni. Smella þarf tivsvar á mynd til að fá hana stærri. Efsta myndin er tekin á Geirhólma (Geirólfsgnúpi) og eru Drangaskörð í baksýn.  Frá vinstri talið: Guðrún Pálsdóttir, Ólafur Bernódusson, Halldór Gunnar Ólafsson, Lára Guðmundsdóttir, Gunnar Svanlaugsson, Lárus Ægir Guðmundssonn, Amy Ósk Ómarsdóttir, Steindór R. Haraldsson, Guðbjörg Gylfadóttir, Gylfi Sigurðsson, Jóney Gylfadóttir, Sigurjón Atli Sigurðsson, Haraldur Max og Sigurður Sigurðarson. Önnur myndin er tekin síðla kvölds á Drangajökli. Jöklafararnir eru frá vinstri: Jóney Gylfadóttir, Amy Ósk Ómarsdóttir, Lára Guðmundsdóttir, Gunnar Svanlaugsson og Halldór Gunnar Ólafsson er lengst til hægri. Á þriðju myndinni brýtur stjórnandi ferðrinnar Lárus Ægir Guðmundsson strauminn í Reykjafjarðarósnum og á eftir fylgja Guðbjörg og Jóney Gylfadætur og greina má garpinn Gylfa Sigurðsson með skýluklút á höfði. Fjórða myndin er tekin í Atlaskarði.Þar matast Haraldur Max og handan Hornvíkur er tilkomumikið landslagið á Hornbjargi, Miðfell, Jörundur og Kálfatindar. Neðsta myndin er tekin neðst á Langakambi við Hvanndal. 

Breyting á Svæðisskipulagi Austur-Húnavatnssýslu 2004-2016

Samvinnunefnd um svæðisskipulag Austur-Húnavatnssýslu samþykkti þann 9. júní sl. tillögu að breytingu á Svæðisskipulagi Austur-Húnavatnssýslu 2004-2016. a) Breyting á svæðisskipulagi við Húnavelli sem felst í að gera ráð fyrir þéttbýli í Húnavatnshreppi. Í núverandi svæðisskipulagi eru Húnavellir skilgreindir sem þjónstumiðstöð – B flokkur, sem býður upp á talsverða þjónustu. b) Breyting á svæðisskipulagi á gagnaverslóð við Blönduós og færslu Svínvetningabrautar. Tillagan felst í að stækka lóðina úr 250 ha. í 272 ha. fyrir iðnaðar- og athafnasvæðis í landi Hnjúka. Breytingin felur í sér að samfeld lóð næst ef Svínvetningabraut er færð á um 3,0 km kafla og að sveitarfélagamörkum við Húnavatnshrepp. Núverandi landnotkunn er landbúnaðarnotkun og er svæðið í útjaðri Blönduóss og að hluta framræst beitarhólf. c) Leiðrétting á legu háspennulínu frá Geithömrum að Hurðabaki í Húnavatnshreppi. Í ljós kom að línan var rangt staðsett í núverandi svæðisskipulagi. Tillagan var auglýst þann 10. apríl og lá frammi til kynningar til 5. maí sl. Frestur til að skila athugasemdum rann út þann 20. maí og bárust 4 athugasemdir. Samvinnunefnd hefur afgreitt athugasemdirnar og sent þeim sem þær gerðu umsögn sína. Tillagan hefur verið send sveitarstjórnum Austur-Húnavatnssýslu til samþykktar og hafa þær 6 vikur til að fjalla um niðurstöðu samvinnunefndar. Samþykkt tillaga mun síðan send Skipulagsstofnun sem gerir tillögu til umhverfisráðherra um lokaafgreiðslu. Þeir sem óska nánari upplýsinga um tillöguna og niðurstöðu samvinnunefndar geta snúið sér til Blönduósbæjar. Samvinnunefnd um svæðisskipulag Austur-Húnavatnssýslu