Þórdísargangan á laugardaginn fellur niður

Vegna óviðráðanlegra ástæðna fellur niður áður auglýst Þórdísarganga þann 25. júlí. Þórdísarganga er næst á dagskránni laugardaginn 14. ágúst næstkomandi.

Raggi Bjarna og Þorgeir með tónleika í Kántrýbæ

Auðvitað verður ALLT Í RUGLI þegar Raggi Rjarna og Þorgeir Ástvaldsson halda tónleika í Kántrýbæ á laugardaginn næsta, 24. júlí kl. 22. Hvernig getur annað verið þegar þessir tveir unglingar koma saman og æra þjóðina. Þeir eru á ferð um landið og að sjálfsögðu koma þeir við á Skagaströnd. Aðgangseyrir er 2.000 kr.

Hársnyrtistofan Viva á nýjum stað

Þriðjudaginn 20. júlí opnar hársnyrtistofan Viva að Bogabraut 7. Jóhanna Lilja Hólm snyrtifræðingur flytur einnig sína starfsemi á sama stað svo og ljósabekkurinn. Sami opnunartími og símanúmer og áður (lokað á mánudögum). Á meðan ég er í sumarfríi mun Halla María hársnyrtir leysa mig af. 15% afsláttur af hársnyrtivörum á þriðjudag og miðvikudag. Hlakka til að sjá ykkur, Hafdís Hrund Ásgeirsdóttir

Eitthundrað manns í Djásni og Dúlleríi

„Við erum stoltar stelpur á Ströndinni,“ söng Signý Ósk Richter, þegar hún bauð Skagstrendinga velkomna á opnun gallerísins Djásn og dúllerí. Með henni að framtakinu standa Björk Sveinsdóttir og Birna Sveinsdóttir. Um eitt hundrað manns mættu á opnunina og má telja nokkuð víst að þeir hafi skemmt sér vel.  Í galleríinu er margt í boði. Þar er fjölbreytt úrval handverks og eiga um tuttugu og fimm heimamenn þar hönnun sína.  Þar er líka að finna efni í ströngum sem selt er í kólóvís - ekki metravís eins og vaninn er. Eingrinið er selt í mörgum litum og gerðum á 500 krónur kílóið, en þess má geta að 50 gr. af eingirni í dokkum er vanalega selt í búðum á sömu fjárhæð. Í galleríinu er málverkasýningu Dadda, sem sýnir 25 málverk. Galleríið Djás og dúllerí er opið alla daga frá kl. 14-18 og það er staðsett í kjallara Gamla kaupfélagsins skammt frá höfninni.

Kaffihlaðborð í Bjarmanesi á sunnudaginn

Kaffihlaðborð verður í Bjarmanesi sunnudaginn 18. júlí frá kl. 14 til 17. Á sama tíma mun Sigrún Lár rifjar upp minningabrot frá árdögum kaffihússins. Aðgangseyrir er 1.500 krónur fyrir fullorðna og 750 krónur fyrir börn.

Djásn og dullerí á Skagaströnd

Gallerí verður opnað í kvöld í kjallara Gamla kaupfélagsins á Skagaströnd. Nafn gallerísins er einstaklega skemmtilegt en það er „Djásn og dúllerí“. Fyrir framtakinu standa þrjár konur sem þekktar eru fyrir að láta verkin tala. Skvísurnar heita Signý Ó. Richter, Björk Sveinsdóttir og Birna Sveinsdóttir. Allir Skagstrendingar eru boðnir velkomnir á opnnina sem er í kvöld fimmtudaginn 15. júlí kl. 20:00. Þar verður handverk og hönnun úr heimabyggð á boðstólum. Í galleríinu er sýningaraðstaða og mun Jón Ólafur Ívarsson ( Daddi)  byrja þar með málverkasýningu. Djásn og dúllerí hvetur Skagstendinga og nærsveitamenn sem vilja koma með vörur á markaðinn eða notfæra sér sýningaraðstöðuna, að sækja um sem fyrst. Opið verður alla daga vikunar frá kl. 14-18.

Makríll óð í Skagastrandarhöfn

Makríllinn í höfninni á Skagaströnd vakti óskipta athygli þeirra bæjarbúa sem fréttu af göngunni. Fjöldi fólks dró fram veiðistöngina og ekki þurfti að bíða lengi áður en makríllinn beit á. Raunar var að auki mikið um sandsíli í höfninni. Ekki er vitað til að maríll hafi áður vaðið í Skagastrandarhöfn. Þó er vitað að hann er góður matfiskur enda sprettharður og sterkur fiskur og tekur jafnvel betur á en silungur og lax. Meðfylgjandi myndir tók Ólafur Bernódusson þegar leikar stóðu sem hæst.

Allt að þrjátíu bátar leggja upp á Skagaströnd

Undafarið hefur verið líf og fjör í og við höfnina á Skagaströnd. Allt að þrjátíu bátar hafa lagt þar upp og er fjöldi strandveiðibáta þeirra á meðal. Aflinn hefur verið með ágætum að sögn sjómanna. Seinni part dags koma bátarnir inn í röðum og er þá mikið að gera við löndun og vigtun. En menn gefa sér tíma til annarra verka en að draga þann gula. Árni Guðbjartsson í Vík bjargaði álku úti á miðjum Húnaflóa og var hún þakklát fyrir aðstoðina eins og greinilega má sjá á svip hennar. Raunar á blessuð álkan langt flug fyrir höndum þar sem heimkynni hennar er við vestanverðan Húnaflóa. 

Vinnumálastofnun á Skagaströnd vantar starfsmann

Vinnumálastofnun óskar eftir starfsmanni í ræstingar á skrifstofuhúsnæði stofnunarinnar á Skagaströnd. Hjá Vinnumálastofnun á Skagaströnd er rekin Greiðslustofa Vinnumálastofnunar sem sér um greiðslur atvinnuleysistrygginga fyrir allt landið og þjónustuskrifstofa fyrir Norðurland vestra Leitað er að traustum starfsmanni sem er snyrtilegur, skipulagður og hefur áhuga á að skila góðu starfi. Laun eru samkvæmt kjarasamningum SFR. Umsókn ásamt ferilskrá skal senda á netfangið liney.arnadottir@vmst.is fyrir 19. júlí.  Frekari upplýsingar gefur Líney Árnadóttir forstöðukona í síma 455 4200 og á liney.arnadottir@vmst.is.  Starfsemi Vinnumálastofnunar er hægt að kynna sér á www.vinnumalastofnun.is.  

Golfblaðamaður frá Daily Mirror á Skagaströnd

Hvernig getur fámennur klúbbur byggt upp góðan golfvöll? Þessari spurningu og fleirum velti breski golfblaðamaðurinn Nic Brook fyrir sér og til að fá svör sótti hann Skagströnd heim og kynnti sér golfvöllinn. Blaðamaður var hér á ferð með Ásbirni Björgvinssyni framkvæmdastjórastjóra Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi. Þeir hittu nokkra forvígismenn Golfklúbbs Skagastrandar og spurði Nic Brook fjölda spurninga um golfvöllinn og Skagaströnd. Nic Brook tók þátt í Artic Open golfmótinu og Akrueyri og var hann mjög ánægður með þá upplifun.   Blaðamaðurinn skrifar fyrir breska stórblaðið Daily Mirror og má búast við umfjöllun hans á síðum blaðsins á næstunni.  Meðfylgjandi myndir voru teknar meðan á dvöl hans stóð. Á efri myndinni eru Nic Brooks lengst til vinstri, þá Ábjörn Björgvinssona og lengst til hægri er Steindór R. Haraldsson. Lesendur utan Skagastrandar taka væntanlega eftir bláum himni og fögru útsýni. Þannig er þetta alltaf á Skagströnd ...